Ferill 473. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 473 . mál.


1297. Svar



sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Gísla S. Einarssonar um veiðileyfi smábáta.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Voru einhverjir bátar með krókaleyfi árin 1990–92 sem eins var ástatt um, m.a. af svipaðri stærð, og bátarnir Elías Már ÍS 99, Rakel María ÍS 199, Vismin ÁR 12 og Marteinn KE 200?
    Hvaða bátar voru það? Hve miklum afla lönduðu þeir í heild og hve miklu landaði hver bátur?


     Þar sem hér er um að ræða flókið mál sem fengið hefur nokkuð misvísandi umfjöllun í fjölmiðlum mun ráðuneytið rekja málavexti.
    Í frumvarpi því um stjórn fiskveiða, sem unnið var í ráðuneytinu fyrri hluta árs 1990 og lagt var fyrir Alþingi, sagði í 3. og 4. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða að bátum undir 10 brl. skyldi úthlutað veiðileyfi með aflahlutdeild. Í 1. málsl. 5. mgr. var síðan veitt undanþága frá því og var hún svohljóðandi: „Þrátt fyrir ákvæði 3. og 4. mgr. þessarar greinar gefst útgerðum báta undir 6 brl., sem skráðir eru á skipaskrá fyrir 31. desember 1989 og útgerðum báta undir 6 brúttótonnum sem skráðir eru á skipaskrá eftir þann tíma en fyrir gildistöku laga þessara, kostur á að velja á árunum 1991, 1992 og 1993 leyfi til veiða með línu og handfæri með dagatakmörkunum í stað aflahlutdeildar.“
    Eins og skýrlega kemur fram í þessum málslið var að því stefnt þegar við framlagningu frumvarpsins að þeir bátar, sem veiðileyfi fengju eftir 31. desember 1989, ættu aðeins kost á krókaleyfi væru þeir undir 6 brúttótonnum. Bátar, sem hefðu fengið veiðileyfi fyrir þann tíma, mættu hins vegar vera allt að 6 brúttórúmlestir að stærð.
    Í meðferð Alþingis á frumvarpi um stjórn fiskveiða kom engin tillaga fram um að breyta 1. málsl. 5. mgr. Hins vegar komu fram ýmsar tillögur um breytingar á öðrum ákvæðum þessarar sömu greinar svo og öðrum greinum frumvarpsins. Leiddi það til þess að ýmsar greinar frumvarpsins voru prentaðar aftur og í einni gerð þeirra varð starfsmaður ráðuneytisins var við að „brúttótonn“ hafði breyst í „brl.“ á einu þingskjalanna og hljóðaði textinn þannig: „Þrátt fyrir ákvæði 3. og 4. mgr. þessarar greinar gefst útgerðum báta undir 6 brl., sem skráðir eru á skipaskrá fyrir 31. desember 1989 og útgerðum báta undir 6 brl. sem skráðir eru á skipaskrá eftir þann tíma en fyrir gildistöku laga þessara, kostur á að velja á árunum 1991, 1992 og 1993 leyfi til veiða með línu og handfæri með dagatakmörkunum í stað aflahlutdeildar.“
    Hér er vitanlega um merkingarlausa tvítekningu að ræða og hafði ráðuneytið samband við starfsmann Alþingis vegna þessa og var upplýst að um mistök í prentun hefði verið að ræða og að þessi villa yrði leiðrétt.
    Þann 11. maí 1990 sendi forseti neðri deildar Alþingis síðan ráðuneytinu lög um stjórn fiskveiða sem samþykkt voru á Alþingi 5. maí 1990. Ráðuneytið leitaði síðan staðfestingar forseta Íslands og eftir að staðfesting forseta var fengin voru lögin birt. Sá texti sem staðfestur var og birtur í A-deild Stjórnartíðinda er algerlega í samræmi við texta upphaflega frumvarpsins og eins og fyrr var rakið var samkvæmt honum aðeins heimilt að veita bátum sem skráðir voru eftir 31. desember 1989 krókaleyfi væru þeir undir 6 brúttótonnum. Var framkvæmd ráðuneytisins í samræmi við það.
    Til umboðsmanns Alþingis leituðu síðan þrír aðilar og kvörtuðu yfir úthlutun veiðileyfa til fjögurra báta þeirra á tímabilinu 1. janúar til 31. ágúst 1991. Í kvörtunum þeirra er því haldið fram að „ákvæði laga nr. 38/1990 hafi með afturvirkum hætti skert möguleika þessara báta til að fá veiðiheimildir frá því sem verið hefði í tíð eldri laga, þegar smíði bátanna var hafin“, eins og segir í bréfi umboðsmanns Alþingis til ráðuneytisins 29. ágúst 1991. Kvörtun þeirra sneri í raun ekki að framkvæmd umrædds lagaákvæðis heldur fyrst og fremst að því að þeir áttu ekki kost á sömu veiðiheimildum og þeir hefðu átt samkvæmt fyrri lögum um stjórn fiskveiða.
    Í svari umboðsmanns Alþingis, sem barst í lok september 1991, er rakinn ferill orðalags 1. málsl. 6. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða í frumvarpi um stjórn fiskveiða við meðferð Alþingis á frumvarpinu og er það niðurstaða umboðsmanns að að lokinni 2. umræðu í efri deild Alþingis hafi „brl.“ komið í stað orðsins „brúttótonn“. „Brl.“ hafi síðan verið notað í þingskjölum við meðferð málsins í efri deild en í endanlegum, staðfestum og birtum lagatexta sé orðið brúttótonn.
    Taldi umboðsmaður Alþingis í bréfi sínu til ráðuneytisins „að vafi sé, hvort dómstólar féllust á að orðalag ákvæðisins um brúttótonn hafi orðið til á stjórnskipulegan hátt og þar með hvort það hafi lagagildi“. Í framhaldi af því er því beint til ráðuneytisins „að það taki það til athugunar, hvort rétt sé að taka til endurskoðunar þær ákvarðanir, sem það hefur tekið á grundvelli 1. málsliðar 6. mgr. II ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 38/1990 . . .  “.
    Sú spurning vaknaði við þessa niðurstöðu umboðsmanns Alþingis hvort orðið „brl.“ hefði orðið til á stjórnskipulegan hátt. Mátti færa að því ýmis rök að svo væri ekki. Engin tillaga um að breyta „brúttótonnum“ í „brl.“ hafði komið fram á Alþingi en slíkt er forsenda fyrir því að heimilt sé að breyta texta með þessum hætti og enn fremur hafði í staðfestum og birtum lagatexta verið „brúttótonn“ en ekki „brl.“ Hefði „brl.“ ekki lagagildi hlaut það að vera eðlilegasta niðurstaðan að bátar, sem komu eftir 31. desember 1989, ættu ekki kost á krókaleyfi.
    Þrátt fyrir þessa óvissu tók ráðuneytið þá ákvörðun, vegna álits umboðsmanns Alþingis, að gefa þeim aðilum, sem synjað hafði verið um krókaleyfi vegna þess að bátar þeirra væru stærri en 6 brúttótonn, miðað við skráningu þeirra fyrir 18. ágúst 1990, sbr. 5. gr. laganna, kost á slíku leyfi. Með þeim hætti var allur vafi túlkaður þessum aðilum í vil. Var hér um 17 aðila að ræða.
    Þeir aðilar, sem leitað höfðu til umboðsmanns Alþingis, höfðuðu síðan mál á hendur sjávarútvegsráðherra og fjámálaráðherra og kröfðust skaðabóta fyrir tjón það sem þeir töldu sig hafa orðið fyrir vegna þess að þeim hafði verið synjað um krókaleyfi frá 1. janúar 1991 til 10. október 1991. Niðurstaða héraðsdóms Reyjavíkur var sú að íslenska ríkið væri skaðabótaskylt og byggðist hún á því að orðalag ákvæðisins um brúttótonn hefði ekki orðið til á stjórnskipulegan hátt og hefði því ekki lagagildi. Synjun ráðuneytisins á krókaleyfi byggðist því á ákvæði sem ekki hefði lagagildi og væri því ólögmæt.
    Máli þessu var áfrýjað til Hæstaréttar og var áfrýjandi sýknaður af kröfum gagnáfrýjanda. Í niðurstöðu Hæstaréttar var fallist á þá niðurstöðu að ákvæðið um brúttótonn hefði ekki orðið til á stjórnskipulegan hátt. Þegar orðið brúttótonn sé hins vegar fallið brott fáist ekki merking í ákvæðið um þá báta sem skráðir voru eftir 31. desember 1989. Í lögunum sé því ekki til að dreifa öðrum ákvæðum um veiðileyfi en 5. mgr. bráðabirgðaákvæðisins um úthlutun aflahlutdeildar. Synjun ráðuneytisins á krókaleyfi hafi því farið samkvæmt gildandi lögum. Jafnframt sé þess að gæta að útgerð skipanna hefði ekki átt rétt til krókaleyfis, ef ekki hefði verið hreyft við orðinu brúttótonnn við meðferð þingskjala á skrifstofu Alþingis þar sem bátarnir voru stærri en 6 brúttótonn og ekki skráðir á skipaskrá fyrir gildistöku laganna.
    Samkvæmt þessari niðurstöðu Hæstaréttar er ljóst að enginn nýr bátur, sem skráður var eftir 31. desember 1989, hefði í raun átt að eiga kost á krókaleyfi, nema hann kæmi í stað annars báts sem slíkt leyfi hefði haft og væri minni en 6 brúttótonn.
    Í fylgiskjali er tafla sem sýnir skipaskrárnúmer þeirra báta sem skráðir voru á tímabilinu 1. janúar 1990 til 18. ágúst 1990 og fengu krókaleyfi, sem og afla þeirra á árunum 1990–92.


Fylgiskjal.

Afli krókabáta sem voru nýskráðir á tímabilinu 1. janúar 1990 til 18. ágúst 1990.








(Tafla mynduð, 2 bls.)