Ferill 582. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 582 . mál.


1336. Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Péturs H. Blöndals um skuldbindingu Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, lífeyrisdeildar alþingismanna, lífeyrisdeildar ráðherra og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga.

    Í fyrirspurninni er óskað eftir upplýsingum um skuldbindingar nokkurra lífeyrissjóða. Sú sundurliðun upplýsinga sem óskað er eftir er ekki í öllum atriðum til staðar. Til að afla þeirra þarf tímafreka og kostnaðarsama vinnslu sem ekki verður unnt að ljúka fyrir þinglok. Hér á eftir fara svör við spurningunum að því leyti sem fyrirliggjandi upplýsingar leyfa. Fjárhæðir skuldbindinga og eigna hér á eftir eru miðaðar við að vextir séu 2% á ári umfram launahækkanir nema annars sér getið.

    Hversu háar eru væntanlegar árlegar greiðslur (lífeyrir + kostnaður - iðgjöld (í b-lið)) Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, lífeyrisdeildar alþingismanna, lífeyrisdeildar ráðherra og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga vegna:
         
    
    réttinda sem sjóðfélagar hafa þegar öðlast,
         
    
    réttinda sem sjóðfélagar munu öðlast og hafa öðlast með greiðslu iðgjalda?
        Svarið óskast sundurliðað eftir árum, 1997–2070. Enn fremur komi fram hvað sjóðirnir geti greitt með eignum sínum, væntanlegum iðgjöldum í b-lið og vöxtum umfram hækkun launa og hvað mun falla á launagreiðendur (ríkissjóð). Reiknað sé með þeim sjóðfélögum sem áttu réttindi hjá sjóðunum í árslok 1996. Svar við b-lið miðist við að þeir sjóðfélagar flytji sig yfir í A-deild sem eru meira en 10% betur settir með því að flytja sig í þá deild sjóðsins.

    Í fylgiskjali I er yfirlit yfir árlegar greiðslur vegna áfallinna skuldbindinga og heildarskuldbindinga vegna þeirra sem voru virkir sjóðfélagar í LSR í árslok 1996. Ekki voru til staðar upplýsingar um greiðslur þessar miðað við þann tilflutning í A-deild sjóðsins sem tilgreindur var í fyrirspurninni né árleg sundurliðun á áætluðum greiðslum fyrir aðra sjóði en LSR.

    Hvert er nauðsynlegt iðgjald til að ná jafnvægi milli eignaliða og skuldbindinga:
         
    
    B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins af þeim launum sem þar eru tryggð, þ.e. dagvinnulaunum,
         
    
    A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins af þeim launum sem þar eru tryggð, þ.e. heildarlaunum,
         
    
    lífeyrisdeildar alþingismanna af þeim launum sem þar eru tryggð, þ.e. þingfararkaupi,
         
    
    lífeyrisdeildar ráðherra af þeim launum sem þar eru tryggð, þ.e. ráðherralaunum,
         
    
    Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga af þeim launum sem þar eru tryggð, þ.e. dagvinnulaunum?

    Í svörunum er miðað við heildarskuldbindingu vegna þeirra sem nú eru í sjóðnum og áætluð framtíðariðgjöld þeirra.
    a. B-deild LSR. Hækkun skuldbindinga er áætluð um 70 milljarðar kr. en verðmæti ókominna iðgjalda er áætlað um 34 milljarðar kr. sem dugar fyrir tæplega 50% af hækkuninni. Samkvæmt því þyrfti iðgjald til deildarinnar að vera rúmlega tvöfalt á við það sem það er nú eða rúmlega 20% af dagvinnulaunum.
    b. Iðgjaldaþörf til A-deildar LSR var metin sl. haust og var talin 15,5% af heildarlaunum.
    e. Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga. Hækkun skuldbindinga er áætluð um 12 milljarðar kr. en verðmæti ókominna iðgjalda er áætlað um 4 milljarðar kr. sem dugar fyrir um þriðjungi hækkunarinnar. Samkvæmt því þyrfti iðgjald til sjóðsins að vera þrefalt á við það sem það er nú eða um 30% af dagvinnulaunum.
    Iðgjaldaþörf vegna lífeyrisdeilda alþingismanna og ráðherra hefur ekki verið reiknuð út en reikna má með að hún sé verulega meiri en í framangreindum sjóðum. Iðgjaldaþörfin, eins og hún er reiknuð fyrir þá, er miðuð við þær heildarskuldbindingar sem myndast ef sjóðfélagar halda áfram í sjóðnum þar til taka lífeyris hefst. Sú forsenda er óraunhæf þegar um er að ræða alþingismenn og ráðherra og niðurstaða slíks útreiknings yrði marklítil.

    Hver er heildarskuldbinding þessara lífeyrissjóða og hversu langt dugir eign þeirra til greiðslu hennar? Hversu margir sjóðfélagar eiga „eign“ allt að 1 millj. kr., hversu margir eiga „eign“ þar yfir, allt að 2 millj. kr., hversu margir eiga „eign“ þar yfir, allt að 3 millj. kr., o.s.frv. ef gengið er út frá því að „eign“ hvers sjóðfélaga sé fundin með því að skipta áunninni heildarskuldbindingu sjóðanna á sjóðfélaga þeirra samkvæmt réttindum hvers og eins?
    Samkvæmt ársreikningi LSR fyrir árið 1996 er áfallin skuldbinding LSR áætluð um 135 milljarðar kr. miðað við 2% ávöxtun umfram launahækkanir en um 113 milljarðar kr. miðað við 3% ávöxtun. Eign sjóðsins til greiðslu á lífeyri er talin 99,4 milljarðar kr. eða sem svarar um 73% eða um 88% af áföllnum skuldbindingum eftir því við hvaða ávöxtun er miðað. Heildarskuldbinding sjóðsins var áætluð um 203 milljarðar kr. miðað við 2% ávöxtun umfram launabreytingar.
    Samkvæmt ársreikningi Lífeyrissjóðs hjúkrunarkvenna fyrir árið 1996 er áfallin skuldbinding áætluð um 15 milljarðar kr. miðað við 2% ávöxtun umfram launahækkanir en um 12 milljarðar kr. miðað við 3% ávöxtun. Eign sjóðsins til greiðslu á lífeyri er talin tæplega 12 milljarðar kr. eða sem svarar um 79% eða um 99% af áföllnum skuldbindingum eftir því við hvaða ávöxtun er miðað. Heildarskuldbinding sjóðsins var áætluð um 26,5 milljarðar kr. miðað við 2% ávöxtun umfram launabreytingar.
    Áfallin skuldbinding Lífeyrissjóðs alþingismanna í árslok 1996 var áætluð um 2,5 milljarðar kr. og áfallin skuldbinding Lífeyrissjóðs ráðherra um 330 millj. kr.
    Í fylgiskjali II er sýnt hvernig lífeyrisskuldbindingar dreifast eftir fjárhæð.




Fylgiskjal I.


LSR. Áfallnar skuldbindingar, heildarskuldbindingar,


iðgjöld og framlög eftir árum.



(1 síða mynduð.)




Fylgiskjal II.


(1 síða mynduð.)