Afgreiðsla EES-reglugerða

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 14:14:03 (3040)

1998-01-27 14:14:03# 122. lþ. 52.1 fundur 169#B afgreiðsla EES-reglugerða# (óundirbúin fsp.), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[14:14]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Að sjálfsögðu má alltaf deila um hvort hægt gangi eða ekki í þessum efnum. Ég býst við því að það sé rétt að einstaka nefndir þingsins hefðu getað hraðað ýmsum málum meir en raun ber vitni. Það er á valdsviði viðkomandi nefnda að raða málum í forgangsröð og ég tel að þar hafi ekki orðið nein slys. Eins hefur verið kvartað yfir því í þinginu að ráðherrar hafi komið seint með ýmis mál. Ég býst við að í einhverjum tilvikum hefði þetta mátt ganga betur. En yfirleitt hefur þetta gengið allvel. Nokkrum atriðum, t.d. á sviði umhverfismála að því er varðar heilbrigðiseftirlit hefur verið flýtt þó enn séu þau ekki komin til þingsins. Þannig er reynt að standa við skuldbindingar eftir því sem hægt er. En ég tel að þarna hafi ekki átt sér stað nein sérstök slys enda tók Kjartan Jóhannsson fram að Ísland stæði sig vel í þessum málum á heildina litið.