Framhaldsskólar

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 15:55:28 (3065)

1998-01-27 15:55:28# 122. lþ. 52.3 fundur 355. mál: #A framhaldsskólar# frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[15:55]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég fylgi hér úr hlaði frv. til laga um breyting á lögum nr. 80/1996, um framhaldsskóla, á þskj. 542.

Í frv. er lagt til að heimilað verði að afmarka ráðningartíma aðstoðarstjórnenda í framhaldsskólum. Er það í samræmi við þá skipan sem gilti þar til lög nr. 80/ 1996, um framhaldsskóla, tóku gildi. Sú tilhögun hefur gefist vel og stuðlað að æskilegri endurnýjun starfsfólks í þessum stöðum.

Frá því að rammalög voru fyrst sett um framhaldsskóla hefur ráðningu aðstoðarstjórnenda verið háttað eins og fram kemur í 1. gr. frumvarpsins. Með nýjum framhaldsskólalögum, nr. 80/1996, var hins vegar horfið frá þeirri tilhögun í ljósi meginreglna nýrra laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Í ljósi þess að störf aðstoðarskólameistara, áfangastjóra og deildarstjóra geta verið afgerandi fyrir þróun skólastarfs er með frumvarpi þessu lagt til að veitt verði ótvíræð lagaheimild til þess að setja sérstök ákvæði um tímabindingu ráðningar aðstoðarstjórnenda í framhaldsskólum.

Ég legg til, herra forseti, að þessu frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. menntmn. og 2. umr.