Textun íslensks sjónvarpsefnis

Miðvikudaginn 28. janúar 1998, kl. 14:23:00 (3140)

1998-01-28 14:23:00# 122. lþ. 54.10 fundur 196. mál: #A textun íslensks sjónvarpsefnis# þál., Flm. SJóh (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[14:23]

Flm. (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Ég hef lagt fram á hinu háa Alþingi eftirfarandi þáltill.:

,,Alþingi ályktar fela menntamálaráðherra að beita sér fyrir því að íslenskt sjónvarpsefni verði textað eftir því sem við verður komið til hagsbóta fyrir heyrnardauft fólk sem við núverandi aðstæður á erfitt með að fylgjast með íslensku efni í sjónvarpi.

Ljóst er að þeir sem eru heyrnarlausir eða heyrnardaufir eiga mun erfiðara með að fylgjast með innlendu sjónvarpsefni en erlendu því að aðaltengiliður þeirra við efnið er skrifaði textinn sem fylgir með. Hann hefur fram að þessu aðeins fylgt erlendu efni sem hefur verið íslenskað. Hópur þeirra sem eru heyrnarlausir eða svo heyrnardaufir að þeir eiga í erfiðleikum með að fylgjast með töluðu orði í ljósvakamiðlum er mjög stór. Þeir sem nota heyrnartæki að staðaldri eru 15--18 þúsund og auk þess er mikill fjöldi heyrnardaufra sem getur ekki nýtt sér heyrnartæki. Alls er talið að á milli 25 og 30 þúsund Íslendingar séu heyrnarskertir en vilji lifa í íslensku málsamfélagi og geti það. Þetta er sennilega stærsti hópur fatlaðra í samfélaginu.

Því miður hefur í mörgum tilfellum gengið erfiðlega að dempa aukahljóð í heyrnartækjum þannig að sumir heyrnardaufir varast að nota þau mikið þegar þeir horfa á sjónvarp. Mörgum finnst því orðið brýnt jafnréttismál að texta íslenskt sjónvarpsefni eftir því sem við verður komið. Slíkt hefur verið gert í nágrannalöndunum nokkuð lengi. Auðvitað hlýtur alltaf eitthvert efni að vera undanskilið, svo sem fréttir sem berast á síðustu stundu og beinar útsendingar frá umræðum, en það yrði strax til mikilla bóta ef hafist yrði handa við að texta það efni sem hægt væri að vinna þannig með góðu móti.

Þess má geta að annars staðar á Norðurlöndum er textun innlends efnis orðinn sjálfsagður liður í rekstri sjónvarpsstöðva og má benda á að textun íslensks efnis ýtir mjög undir bætta lestrargetu heyrnarskertra barna og unglinga.``

Árum saman hafa félagið Heyrnarhjálp, sem er félag heyrnarskertra á Íslandi ásamt félagi heyrnarlausra og foreldrafélag heyrnarskertra, barist fyrir því að íslenskt talmál sé textað í sjónvarpi. Það er talið að þeir sem nota heyrnartæki eða eru þjáðir af langvarandi suði eða heyra mjög illa en nota af einhverjum ástæðum ekki heyrnartæki séu nálega 30 þúsund á Íslandi. Allt þetta fólk talar íslensku og eru þátttakendur í íslensku málsamfélagi. Um 80% þessa hóps er yfir 65 ára sem segir okkur að um 6.000 manns undir 65 ára aldri eru í þessum hópi. Sennilega er þetta stærsti fötlunarhópurinn í samfélaginu og fötlun þessa hóps er algerlega ósýnileg. Þeir tala og hlusta og eru eðlilegir útlits en heyra mjög mismunandi mikið af töluðu máli. Þeir hafa mikinn stuðning af því að sjá varir þess sem talar við þá og miklu skiptir að ekki séu önnur hljóð sem trufla hið talaða mál.

Sjónrænn miðill eins og sjónvarpið er heyrnarskertum gríðarlega mikilvægur, ekki síst þeim sem eldri eru. Talað mál fer hins vegar mjög oft fram hjá þeim heyrnarskerta, ekki síst ef sá sem talar sést ekki á skjánum. Verst af öllu er þó þegar talað er bak við myndina að ekki sé talað um þegar tónlist eða umhverfishljóðum er bætt ofan í eða saman við talið. Ég vil nefna nokkur dæmi um íslenskt sjónvarpsefni þar sem hefur tekist því miður illa til að þessu leyti.

Ég vil fyrst minnast á mynd sem sýnd var í fyrra um mannlíf á Hornströndum. Þetta var efni sem mjög margir af eldri kynslóðinni horfðu á. Í myndinni kom fram fólk sem sagði frá því þegar það lifði á Hornströndum. Sem eðlilegt er var þetta fólk mismunandi skýrmælt en það sem eyðilagði myndina fyrir heyrnarskerta var að viðtölin voru tekin úti á víðavangi og öldugjálfur, vindgnauð, fuglasöngur og fleiri umhverfishljóð bættust við talið. Þetta var þó í sæmilegu lagi meðan manneskjan var á skjánum en missti alveg marks þegar hún hvarf en hélt áfram að tala í samkeppni við umhverfishljóðin eða ljúfa stemningstónlist.

Annað dæmi um þetta er myndin um Kristinn bónda á Dröngum sem var mynd sem eldri kynslóðin var ákaflega spennt fyrir að fylgjast með og var sýnd einhver jólin. Þar voru heilu píanókonsertarnir fluttir í beinni samkeppni við þann ágæta mann sem þar var að segja mjög skemmtilega og áhugaverða hluti. Þar blandaðist einnig saman við kríugarg og brimgnýr. Ég nefni þessa þætti því að Ríkissjónvarpið og framleiðendur eiga mikinn heiður skilinn fyrir val þessa efnis og efnistök og framleiðslu en það vantar bara ritaðan texta með þessum myndum svo að allir sem vilja sjá geti fylgst með.

Annað dæmi um þætti sem fólk á táningsaldri er mjög spennt fyrir og ég þekki dæmi um heyrnarskert ungt fólk sem hefur mikið kvartað um að það geti ekki fylgst með t.d. þáttum um mótorsport í sjónvarpi. Þar fylgir mikill hávaði í bílum, tækjum og tólum sem eðlilegt er eðli málsins samkvæmt og svo talar þulur á bak við. Það er nánast útilokað fyrir heyrnarskerta að ná því tali og það er mjög erfitt að upplifa það fyrir börn og unglinga og ungt fólk sem er spennt fyrir þessu efni að geta ekki fylgst með því.

[14:30]

Einnig mætti nefna annan hóp en það eru ungir krakkar sem ekki eru orðnir mjög sleipir í lestri en heyrnarskertir eru eðlilega nokkuð lengur að ná tökum á lestri en þeir sem hafa eðlilega heyrn. Þess vegna er mjög mikilvægt að örva þá til lestrar. Áður horfðu þeir á erlendar teiknimyndir sem voru textaðar en nú er talað inn á allar þessar myndir með geysilega fjölbreyttum umhverfishljóðum og útilokað fyrir þennan hóp að fylgjast með svo vit sé í.

Tæknin til að texta er til staðar og í vetur höfum við séð í sjónvarpinu nokkur dæmi þess að heyrnarskertum hafi bent á að stilla á 888 þegar flutt hafa verið íslensk sjónvarpsleikrit, þá kemur textinn á skjáinn. Þetta þarf að gera í miklu ríkari mæli þegar íslenskt efni er flutt í sjónvarpi. En mjór er mikils vísir og ber að þakka það sem vel er gert. Vonandi fer þeim þáttum fjölgandi sem sýndir verða textaðir og mættu aðrar sjónvarpsstöðvar en ríkissjónvarpið fara að athuga sinn gang.

Enn sem komið er hefur lítið gerst í textun frétta og vonandi að farið verði að birta textann fyrir heyrnarskerta. Fréttamennirnir sjálfir lesa textann af skjá. Textinn hefur þegar verið sleginn inn á tölvu og rennur áfram fyrir augum fréttamanna í útsendingunni. Ég hef hins vegar fullan skilning á því að öðru máli gegni með fréttir sem berast á síðustu stundu og eru jafnvel mæltar fram í beinni útsendingu. Þær væri hægt að birta textaðar í næsta fréttatíma án mikillar fyrirhafnar. Það ætti að vera yfirstíganlegt á þessum tölvutímum að texti yrði sjáanlegur á rás 888 í textavarpi þegar íslenskt efni er flutt í sjónvarpi.