Launastefna ríkisins

Miðvikudaginn 28. janúar 1998, kl. 15:47:54 (3151)

1998-01-28 15:47:54# 122. lþ. 54.91 fundur 180#B launastefna ríkisins# (umræður utan dagskrár), SF
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[15:47]

Siv Friðleifsdóttir:

Herra forseti. Hér er verið að vitna í hæstv. fjmrh. og hvað hann hefur sagt í fjölmiðlum en þar kemur skýrt fram að hæstv. ráðherra telur að minnka eigi launamuninn innan stétta. Ég tel að ráðherrann hafi áðan bætt talsvert úr, og bætt við yfirlýsinguna þar sem hæstv. ráðherra vitnaði í framkvæmdastjóra Jafnréttisráðs og þau orð sem hún lét falla í Morgunblaðinu fyrir stuttu. Að sjálfsögðu er það skylda stjórnvalda samkvæmt lögum að sjá til þess að konum og körlum séu greidd sömu laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf almennt --- innan fyrirtækis, tók hæstv. ráðherra sérstaklega fram, eins og framkvæmdastjóri Jafnréttisráðs gerir. ,,Innan fyrirtækis`` er sérstaklega undirstrikað vegna þess að deilur hafa staðið um það hvort ríkið sé einn atvinnurekandi eða margir atvinnurekendur.

Eins og launakerfið er að þróast núna hjá okkur innan ríkisins erum við að fara út í dreifstýringu eins og komið hefur fram, þ.e. að forstöðumenn innan hverrar stofnunar fyrir sig eru að fá meira vald í sínar hendur um það hvernig þeir ákvarða laun. Ríkisvaldið er því að kljúfa sig í margar einingar.

Ég held við séum á réttri leið með slíkri dreifstýringu. Við sjáum að grunnlaun eru að hækka. Verið er að taka greiðslur inn í grunnlaunin þannig að kerfið verður sýnilegra og það bætir stöðu kvenna að því leyti að þær geta frekar að mínu mati krafist skýringa á launamismun. Við vitum að kynbundinn launamismunur er um 11%. Ég held því að við séum á réttri leið. Ég held líka að þessi dreifstýring ýti undir það að menn fari að skoða starfsmat. Menn munu krefjast þess að sett verði einhver mælistika á launaröðun og þar er starfsmatið einmitt ein leið.