Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 10:59:59 (3163)

1998-01-29 10:59:59# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[10:59]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Hér ræðum við ekki eingöngu hefðbundna vegáætlun til fjögurra ára heldur undir sama hatti svokallaða langtímavegáætlun sem þýðir 4 plús 8 ár. Ég vil strax í upphafi lýsa þeirri skoðun minni að vinnubrögð af þessum toga eru mjög til fyrirmyndar og væri betra ef við stæðum þannig að verki á fleiri sviðum að reyna að marka stefnu til lengri tíma. Hins vegar er lítið með slíka áætlanagerð að hafa ef ekki er farið eftir henni og vissulega hlýtur maður að skoða eilítið þessa vegáætlun til næstu fjögurra, raunar fimm ára, annars vegar og langtímavegáætlun langt fram á næstu öld í því ljósi. Og sporin hræða.

Veruleiki málsins í dag er sá að í raun er engin veg\-áætlun í gildi því að meiri hluti þingheims tók þá ákvörðun að tillögu hæstv. ráðherra að leggja af þá tillögugerð sem kynnt hafði verið á öndverðu síðasta ári um vegáætlun fram yfir aldamót. Í staðinn var gripið til þess óyndisúrræðis að endurskoða eingöngu gildandi vegáætlun 1995--1998. Í raun og sanni stendur Alþingi frammi fyrir því í dag að engin raunveruleg, hefðbundin vegáætlun er í gildi heldur hefur Alþingi eingöngu ákveðið, bæði með fjárveitingum við fjárlagagerð og einnig með hefðbundinni þáltill., að marka stefnu til áætlunargerðar í vegamálum fyrir yfirstandandi ár. Annað er ekki fyrirliggjandi um markmið og leiðir í vegamálum. Því segi ég, virðulegi forseti, í þessum efnum hræða auðvitað sporin.

Sporin hræða enn frekar þegar skoðuð eru markmið og efndir í þessum efnum á yfirstandandi kjörtímabili. Þar er niðurstaðan og afrekaskráin með endemum og þarf ekki annað en að horfa á það að á þeim þremur árum sem ríkisstjórnin hefur verið við lýði hefur það ár ekki liðið að undanskildu árinu 1995 --- enda voru menn þá að vinna samkvæmt markmiðum síðustu ríkisstjórnar --- að markaðar tekjur til Vegasjóðs hafi ekki í stríðum straumum runnið í ríkissjóð en ekki til vegagerðar. Væri nú ágætt, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra gæfi sér tíma og ráðrúm til að hlusta á umræðuna og vildi ég biðja forseta að stoppa klukkuna á meðan þar til náð verður í ráðherrann.

(Forseti (GÁ): Nærveru hæstv. ráðherra er óskað í þingsal.)

Ég hef fullan skilning á því að hæstv. samgrh. iði og sé á ferð og flugi undir umræðunni og eigi erfitt með að leggja við hlustir. Afrekaskrá hans á umliðnum árum er slík að það sker í eyru á að hlýða. Auðvitað er erfitt að viðurkenna þennan veruleika. Ég ætla ekki að fara langt aftur í tímann, ég ætla aðeins að fara til þess árs sem við lifum í dag, þess einasta árs sem einhver áætlunargerð er í gildi. Þar eru afrekin ekki til að hrópa yfir.

Samgöngunefndin öllsömul, minnihlutamenn og meirihlutamenn, kváðu upp úr með það einum rómi síðasta haust, raunar við fjárlagagerð, þar sem menn gengu þannig fram að heill milljarður og rúmlega það var tekinn af mörkuðum tekjum til vegagerðar á Íslandi. Þetta var harðlega gagnrýnt í samgn. en allt kom fyrir ekki og þetta var samþykkt á hinu háa Alþingi við fjárlagagerðina með þeim hætti sem raun ber vitni um. Þar á meðal voru þeir hv. þm. sem gagnrýndu það hátt og snjallt við meðferð málsins að svona skyldi gengið fram í vegamálunum. Því er nauðsynlegt, virðulegi forseti, að hafa í huga þegar menn koma núna fram fyrir alþjóð og standa keikir og stoltir með áætlun til næstu tólf ára, hvorki meira né minna, áætlun þar sem er ekki gert ráð fyrir því eitt einasta ár að ríkissjóður ætli að læsa sinni stóru og þungu krumlu í neitt af þessu fé, og það aðeins tveimur mánuðum eftir að hæstv. ráðherra og hirð hans varð undan að láta og skila heilum milljarði af fjármunum sem áttu að renna til vegagerðar í ríkissjóð. Meiri hluti þingmanna á hinu háa Alþingi, þingmenn stjórnarinnar --- sem hafa upp á síðkastið farið mikinn í fjölmiðlum um mikilvægi vegagerðar í landinu --- létu þetta yfir sig ganga, ýttu á hinn græna hnapp og tóku þessa skerðingu á sig.

Er þá ástæða til þess, virðulegi forseti, að taka allt of mikið mark á svonefndri áætlunargerð til næstu tólf ára þegar mönnum tókst ekki einu sinni að láta endurskoðaða áætlun til tveggja ára standast mánuðinn út, missirið út, áður en menn fóru að skera þvers og kruss og tæta hana niður liðið fyrir lið? Er ástæða til að taka allt of mikið mark á áætlunargerð aðila sem hafa orðið sekir um annað eins? Nei, segi ég. Þess vegna hljótum við að taka ýmsum þeim tillögum sem hér er að finna með miklum fyrirvara. Hér er ég ekki eingöngu að ræða um hina svonefndu langtímaáætlun heldur er ég ekki síður að tala um áætlun til skemmri tíma, þ.e. hina hefðbundnu áætlun 1998--2002. Þar er einnig ástæða til að hræðast. Jafnvel á fyrstu árum slíkrar áætlunargerðar, a.m.k. svo lengi sem núv. ríkisstjórn er við völd --- og því miður þurfum við að lifa enn eitt árið undir hennar stjórn. En svo gætu málin farið að breytast og nýir tímar runnið upp og þá getur það hugsanlega verið að áætlunargerð af þessum toga sé meira en orðin tóm, sé meira en tölur og frómar óskir á blaði eins og hér liggur fyrir.

Það er því alveg ljóst, virðulegi forseti, að mörg þau stóru verkefni sem eru nefnd til sögunnar eru lítið annað en óskalisti, eru lítið annað en opinn konfektkassi sem menn geta tínt úr og notað að vild. Það er ástæða til þess líka, virðulegi forseti, að undirstrika það strax núna að þessi tillögugerð er sannarlega ekki af hálfu hæstv. ráðherra eins eða starfsmanna hans í Vegagerðinni. Sú tillögugerð sem um er að ræða er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og þingmeirihlutans því að auðvitað hefur almenningur tekið eftir því á síðustu dögum að einstakir þingmenn stjórnarinnar, stuðningsmenn stjórnarinnar, hafa komið fram í fjölmiðlum og lýst yfir efasemdum um eitt og annað í áætlunargerðinni, komið fram með gagnrýni og svo jafnvel nokkrum dögum síðar barið sér á brjóst og lýst því yfir að þeir hafi komið inn tilteknum breytingum á vegáætlunina. Nefni ég þar til sögunnar sérstaklega þingmenn Norðurl. v. og einnig get ég ekki látið hjá líða að nefna þingmenn Austurl. í hópi stjórnarliða. Ábyrgðin á tillögugerðinni er ríkisstjórnarinnar allrar og meiri hluta þingsins og í því ljósi ber að skoða einstakar tillögur sem ég mun víkja nánar að rétt á eftir.

Kannski er rétt að gera það nú þegar því að það vekur sérstaka athygli í þeirri tillögugerð, sem er lögð fram til næstu tólf ára, að ekki er gert ráð fyrir því að staðið verði við gefin fyrirheit um jarðgöng. Ósköp var það aumingjalegt, virðulegi forseti, hjá hæstv. ráðherra þegar hann reyndi að halda því fram við upplestur á athugasemdum við langtímavegagerð að ef til þess kæmi að mönnum sýndist skynsamlegt og arðbært að ráðast í jarðgangagerð yrði það ákvörðun síns tíma og mundi lúta sérstökum lögmálum sértækrar fjármögnunar. Ja, mikill er nú metnaðurinn. Er þörf á texta sem þessum í áætlun til vegagerðar? Segir það sig ekki sjálft ef jarðgöng er ekki að finna í áætlun til næstu tólf ára að það sé þá ákvörðun síðari tíma, komi til þess að í þau verði ráðist? Ef ekki er að finna fjármagn í þessum áætlunum er það líka sértæk ákvörðun hvernig beri að fjármagna þau. Það er því alveg sama hvernig menn snúa þessu, upp eða niður, að í þessum tillögum er ekki gert ráð fyrir jarðgöngum, hvorki á Norðurlandi vestra né á Austfjörðum, svo einfalt er það, svo skýrt er það. Eitthvert almennt hjal um að síðar megi hugsanlega skoða þessa möguleika er algjörlega marklaust á þessu stigi máls ef við erum að ræða tiltekna áætlunargerð sem ég vænti að hæstv. ráðherra og hv. stjórnarliðar ætlist til að standist.

Hæstv. ráðherra nefndi sérstaklega í þessu samhengi að það hefði verið skoðað lítils háttar að það væri gerlegt og mögulegt að koma við sértækri fjármögnunarleið við jarðgangagerð --- þá á hann væntanlega við Austurland annars vegar og Norðurland vestra hins vegar því að það eru þau mál sem hafa ekki síst verið nefnd til sögunnar. Fróðlegt væri að heyra það strax hjá hæstv. ráðherra hvaða athuganir það eru sem hann hefur látið gera og hvernig hann hefði hugsað sér að láta þessa sértæku fjármögnun ganga fram. Ég vænti þess að hann eigi þá við að innheimtur verði vegtollur svipað því sem gerst hefur í Hvalfjarðargöngum því að aðra leið þekki ég ekki. Nema hann sé að nefna til sögunnar lántökur utan þessarar áætunar, að fullu eða öllu. Við þessu þarf að fá svör, hálfkveðnar vísur eru verri en hitt, eru verri en það sem stendur ekki í áætluninni --- engin jarðgöng á þessu áætlunartímabili. Það er auðvitað veruleikinn sem við ræðum og sá sem við blasir.

Ég get út af fyrir sig fallist á að ekki sé óskynsamlegt að fækka þessum liðum, þessum heitum í vegáætlun. Þær hafa verið af ýmsum toga og gert það að verkum að stundum hefur reynst býsna erfitt að lesa úr vegáætlun hvers árs og hvers tímabils og bera saman við eldri. Í þessari áætlun er gert ráð fyrir því að fella niður hið svokallaða framkvæmdaátak. Út af fyrir sig ætla ég ekki að gera mikið með það en vek þó athygli á því, og ástæða er til að staldra við það, að þetta segir kannski meira en mörg orð, að framkvæmdaátakinu er einfaldlega lokið. Það er ekkert átak lengur í gangi í vegamálum og hefur ekki verið síðustu þrjú árin. Mér sýnist miðað við þá reynslu og þegar hún er lesin í gegnum þessi plögg að a.m.k. sé ekki ástæða til bjartsýni í tíð núverandi stjórnarmeirihluta. En framkvæmdaátakinu er lokið og það er gert núna, kvitt og klárt, með þessari áætlun til vegagerðar, liðurinn er einfaldlega felldur niður.

Á hinn bóginn vil ég líka minna á í þessu samhengi að framkvæmdaátakinu var auðvitað skipt eftir öðrum formerkjum en hin hefðbundna skipting er, og það vekur upp spurningar og nauðsyn á frekari athugunum um skiptingu fjármagns til þéttbýlis annars vegar, þ.e. höfuðborgarsvæðis, og dreifbýlis hins vegar. Ég ætla hins vegar ekki að gera það að umræðuefni við 1. umr.

Hins vegar er einnig umhugsunarefni að svo mikið er kappið á hin stóru verkefni, á þessi ,,monument`` sem stundum hafa verið nefnd, sem eru auðvitað fyrst og síðast til þess gerð --- við skulum orða hlutina eins og þeir eru --- að einstakir þingmenn einstakra kjördæma geti farið út í hérað --- og þar fer auðvitað hæstv. ráðherra fremstur í flokki --- og veifað því hér og þar að einhvern tíma inn í næstu öld ættu menn að láta sverfa til stáls, tengja Þórshöfn, þeir ætli sér --- svo ég nefni bara verkefni af handahófi --- að lagfæra Lágheiðina einhvern tíma á næstu öld. Það er ósköp þægileg pólitík að geta farið heim í hérað með þessum hætti en trúverðug getur hún tæpast talist --- og enn og aftur ekki síst í ljósi reynslunnar.

En hinn almenni liður, þar sem þingmenn hafa komið að, er hins vegar að sama skapi skorinn allverulega niður þannig að hin smærri verkefni sem þingmenn einstakra kjördæma hafa komið að eru orðin býsna lítil og ekki til stórræðanna.

[11:15]

Ég hef áhyggjur af því að þegar fram líða stundir kunni menn að auka þrýsting á að hann þurfi að hækka verulega og þá auðvitað á kostnað hinna stærri verkefna.

Hér er markmiðsáætlun sett upp í nokkrum liðum, sem ég fagna. Ég get þó ekki látið hjá líða að lýsa grundsemdum mínum þegar ég les að fyrst hafi tillagan verið frágengin og síðan hafi markmiðin verið búin til því að liðir eins og t.d. ferðamannavegir eru mjög þröngt skilgreindir þegar tillagan sjálf er skoðuð. Það eru einkum og sér í lagi ferðamannastaðir á Suðurlandi sem þess njóta. Ég verð þess ekki var að til míns kjördæmis til að mynda, Reykjaneskjördæmis, sé horft, eða Krýsuvíkurvegar, Reykjanestáarinnar og víðar. Mér sýnist í fljótu bragði að þarna hafi menn fyrst skipt kökunni og síðan búið til markmiðin. En ég get verið sammála þeim í meginatriðum og að skynsamlega sé að verki staðið ef menn ætla a.m.k. að fara eftir þeim.

Virðulegi forseti. Við erum hér við 1. umr. þessa máls. Það er margt athugavert. Ég nefni þar til sögunnar stórar upphæðir í flóabáta. Þar þarf mjög að ígrunda og skoða hvort rétt stef er slegið, sérstaklega stórar fjárhæðir til endurbóta á Hríseyjarferju. Það þurfa menn að skoða mjög gaumgæfilega.

Höfuðborgarsvæðið er algjörlega opin bók. Þar eru engar skiptingar að finna. Ekki fyrir margt löngu hafa hins vegar komið tillögur frá forsvarsmönnum sveitarfélaga (Forseti hringir.) um skiptingu í þessum efnum sem samgn. mun væntanlega skoða mjög gaumgæfilega.

Mín lokaorð skulu vera þau að ljóst er að mikil vinna er fram undan hjá samgn. við yfirferð þessara mála. Hún mun vanda sitt verk en hennar verk byggir á því að hinar pólitísku og fjárhagslegu forsendur standist. Annars er allt tal um áætlanagerð til tveggja ára, til fjögurra ára eða tólf ára hreint og klárt ómark. (Forseti hringir.) Og enn segi ég, virðulegi forseti og það skulu vera mín lokaorð: Spor hæstv. ráðherra hræða í þeim efnum svo ekki verði meira sagt.