Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 12:34:11 (3183)

1998-01-29 12:34:11# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[12:34]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við erum að ræða tvö mál saman, annars vegar þáltill. um vegáætlun fyrir árin 1998--2002 og einnig þáltill. um langtímaáætlun í vegagerð. Eins og komið hefur fram í þessari umræðu erum við að temja okkur ný vinnubrögð með þessari áætlun. Við erum að horfa lengra fram í tímann og auðvitað er það jákvætt og til bóta. Menn verða að horfa fram í tímann og það er verið að nota nýjar aðferðir í forgangsröðun. Það hefur verið gagnrýnt hér í umræðum um vegamál, bæði af stjórnarliðum og stjórnarandstæðingum, að vinnubrögð okkar voru komin í óefni.

Engu að síður, þó svo að við séum að tala um þetta, þá verð ég að segja að vinnubrögðin við vegáætlun og afgreiðslu hennar frá því að ég settist hér á hið háa Alþingi, gera það að verkum að maður efast um að þessi plögg séu mikið meira en hálfgerðir kosningapésar, hálfgerð áróðursplögg núna ári fyrir kosningar. Það er ekki mjög trúverðugt þegar lagður er fram svona óskalisti núna þegar kjörtímabilið er farið að síga á seinni hlutann eftir að maður hefur séð hvernig unnið hefur verið hingað til. Það hefur verið tekið meira og minna fé af mörkuðum tekjustofnum til vegagerðar og sett beint í ríkissjóð. Áætlanir hafa verið skornar niður. Áætlanir sem hafa verið samþykktar í þinginu hafa ekki staðist. Þær hafa verið lagðar fram hér eins og einhver skrautplögg. Og í því plaggi sem var samþykkt fyrir síðustu kosningar stóð ekki steinn yfir steini eftir kosningar. Skorið var niður um 36% á höfuðborgarsvæðinu og 18% á landsbyggðinni, næsta ár á eftir heldur minna og nú fyrir jól var verið að taka á annan milljarð af mörkuðum tekjustofnum í ríkissjóð. Samgn. öll mótmælti þessu eins og komið hefur fram í umræðunni. Þegar fjárlögin voru síðan endanlega afgreidd þá var það nú ekki svo að þessi milljarður og 64 milljónir sem ákveðið var að taka af mörkuðum tekjustofnum í ríkissjóð dygðu. Nei, það þurfti að seilast í aðeins meira þannig að 100 milljónir til viðbótar voru teknar af þessu fé til að setja í ríkissjóð. Og auðvitað eru öll þessi vinnubrögð alls ekki líðandi.

Það tók náttúrlega steininn úr á vordögum rétt fyrir þinglok þegar hæstv. ráðherra treysti sér ekki til að samþykkja fjögurra ára vegáætlun eins og hún hafði verið í unnin bæði af Vegagerðinni og einnig samgn. Hann guggnaði á verkinu og endaði í þeirri aumu niðurstöðu að samþykkja vegáætlun til tveggja ára sem vafi leikur á hvort standist lög. Þetta var nú um þessa áætlun og trúverðugleika hennar til framtíðar.

Við erum aðeins farin að kíkja á þessa vegáætlun í samgn. og munum vinna í því áfram og ég fagna náttúrlega markmiðum eins og þeim að markaðir tekjustofnar skuli framvegis fara til vegamála. Þetta eru náttúrlega fróm markmið hæstv. ráðherra í lok kjörtímabilsins. En við skulum sjá hvað setur. Það fer dálítið eftir því hver heldur á málum á næstu áratugum.

Mér fannst líka svolítið sérkennilegt --- og vonast nú eftir frekari skýringum frá hæstv. ráðherra um hina óhefðbundnu fjármögnun sem hann gerði að umtalsefni í ræðu sinni í morgun --- þegar hann talaði um höfuðborgarsvæðið og kröfur um auknar fjárveitingar þangað, þ.e. hvaða skuggalegu gjöld þetta voru sem hann gerði að umtalsefni. Skuggagjöld! Mér fannst þetta dálítið skuggalegur málflutningur.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða gildi hefur langtímaáætlunin? Má gera ráð fyrir því að ef sveitarfélög vilja flýta framkvæmdum sem eru á þeirri vegáætlun, þá geti þau fengið heimild til þess að hefja þær fyrr ef búið er að samþykkja þær á langtímavegáætlun eins og gildir um venjulegu vegáætlunina í dag? Og vegna þessa vil ég minnast á eitt verkefni sem ég tel vera eitt brýnasta verkefnið á höfuðborgarsvæðinu. Það er breikkun Gullinbrúar. En framganga ríkisstjórnarflokkanna í vor varð til þess að ekki var hægt að hefja framkvæmdir við að breikka Gullinbrú fyrr. Það var vegna þess að ekki var hægt að samþykkja nema tveggja ára áætlun og þar var Gullinbrú ekki inni þannig að það er algjörlega á ábyrgð sjálfstæðismanna og ríkisstjórnarflokkanna að ekki hefur verið hægt að ráða bót á því öngþveiti, umferðaröngþveiti og vandræðagangi í umferðinni sem er í Grafarvoginum um Gullinbrú, bæði úr og í Grafarvog. Ég vil gjarnan vita hvaða gildi þessi langtímaáætlun hefur hvað þetta varðar.

Ég vil líka leggja áherslu á tvö önnur verkefni á höfuðborgarsvæðinu, í fyrsta lagi Reykjanesbrautina og tvöföldun hennar. Það er mjög brýnt að það stórverkefni verði klárað því að þetta er náttúrlega okkar þjóðbraut til og frá landinu og mikilvægt að fjárveitingar til tvöföldunar Reykjanesbrautar hafi ekki áhrif á aðrar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Sama gildir um Sundabraut sem þjónar bæði höfuðborgarsvæðinu og landinu öllu, og mikilvægt að verði sem stórverkefni.

Þar sem umhverfismálin komu aðeins til umræðu fyrr í morgun vil ég leggja áherslu á að framkvæmdir vegna hávaðamengunar komi af vegáætlun, sérstaklega þegar verið er að koma í veg fyrir hávaðamengun við þjóðvegi í þéttbýli.

Mig langar einnig til að koma aðeins að greiðslu til ferja og flóabáta af vegáætlun. Hæstv. ráðherra gerði að umtalsefni nýja ferju í Hrísey þar sem orðið er nauðsynlegt að endurnýja þá ferju sem fer á milli lands og eyjar og ég skal ekki rengja það. En það stendur til að setja 115 millj. í 130 manna ferju til Hríseyjar og vel getur verið að það sé nauðsynlegt vegna ferðamanna til þessa 300 manna byggðarlags. En ég leyfi mér að koma með ákveðnar efasemdir um hvort þetta ráðslag hæstv. ráðherra standist samkeppnislög því að gert er ráð fyrir því að hin nýja Hríseyjarferja annist vöruflutninga einnig og fyrir á þessari leið eru vöruflutningar á vegum Flutningamiðstöðvar Norðurlands. Ég velti því fyrir mér hvort að það standist samkeppnislög að ríkið fari þarna í samkeppni um vöruflutninga við einkafyrirtæki á þessari leið. Og ég velti því fyrir mér hvort hér sé enn eitt málið komið upp sem Samkeppnisráð þarf að hafa afskipti af og snýr að hæstv. samgrh. Ég ætla að vona að svo sé ekki en mér finnst full ástæða til að velta þessu fyrir sér því að ég get ekki séð annað en að með þessu sé ríkið að fara í ákveðna samkeppni við þetta einkarekna fyrirtæki á þessari leið.

Herra forseti. Það er náttúrlega ýmislegt sem maður vildi gjarnan koma að í sambandi við þessa vegáætlun. Það er gagnrýnivert að ekki sé gert ráð fyrir jarðgöngum í áætluninni og maður veltir fyrir sér hvað menn ætli sér í þeim efnum og hefur reyndar komið fram í orðaskiptum milli hæstv. ráðherra og þingmanna í umræðunni að lítið er um svör í þeim efnum. Því miður hef ég ákveðnar efasemdir um þetta ákveðna plagg og það verður að koma í ljós á næstu árum hvort þessi áætlun stenst eða ekki.

[12:45]

Ég tel það ekki vera neina afsökun í umræðunni að fyrri áætlanir hafi ekki staðist eins og kom fram í máli hv. formanns samgn. sem sagði að aðrar vegáætlanir hjá öðrum ríkisstjórnum hefðu ekki staðist. Menn leggja áætlanir fram til þess að láta þær standast þannig að það eru engar afsakanir að aðrir hafi ekki staðið við áætlanir sínar. Það verða að vera trúverðug plögg sem menn leggja fram. Að ýmsu leyti eru þau vinnubrögð sem eru að hefjast í vegamálum til bóta en ég hef efasemdir um að áætlunin standi. En ég mun koma að málinu frekar í samgn. þegar það verður til umræðu þar og síðan í síðari umr. í þinginu.