Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 16:34:44 (3238)

1998-01-29 16:34:44# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[16:34]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég held að menn eigi nú ekki að vera að kýta um hver eigi heiðurinn af lýsingu Reykjanesbrautar. Ég veit ekki betur en þingmenn hafi allir verið sammála um að farið yrði í það verkefni. En ég kem í andsvar vegna ummæla hv. þm. þar sem hann vék að máli mínu frá því fyrr í dag, þar sem ég efaðist um að staðið yrði við þær vegáætlanir sem hér eru til umræðu. Hann höfðaði til skynsemi kjósenda í þeim efnum. Ef kjósendur hér á landi horfa til þess hvernig sjálfstæðismenn hafa staðið að verki í vegamálum á þessu kjörtímabili þá finnst mér ólíklegt að þeir vilji kalla það yfir sig aftur, hv. þm. Kristján Pálsson. Tveggja ára áætlun í stað fjögurra ára áætlunar í vor. Stór hluti markaðra tekjustofna beint í ríkissjóð. Aftur og aftur á kjörtímabilinu eru samþykktar vegáætlanir þar sem ekki stendur steinn yfir steini. Telur hv. þm., herra forseti, að þetta sé það sem kjósendur vilji? Auðvitað vilja kjósendur að staðið verði við þær áætlanir sem lagðar eru fram. Auðvitað vonum við að það verði staðið við þær. En það eru ekki miklar líkur á því miðað við vinnubrögðin á þessu kjörtímabili.

Vissulega vona ég að allir til þess markaðir tekjustofnar renni til vegamála í framtíðinni. En óskalisti eins og sá sem hér er lagður fram til umræðu undir lok kjörtímabilsins, er frekar ótrúverðugur miðað við vinnubrögðin undanfarin ár.