Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 16:55:42 (3248)

1998-01-29 16:55:42# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[16:55]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Í dag hefur nokkur gagnrýni komið fram á þá langtímaáætlun í vegagerð sem hér er til umræðu og eðlilegt er að menn hafi skiptar skoðanir á því í hvaða verkefni skuli ráðist á næstu árum og þá í hvaða röð. Sjálfur hefði ég ugglaust raðað málum í eitthvað aðra röð en hér er gert ef ég hefði samið þetta plagg, en ólíkt því sem er við gerð vegáætlunar var þessi langtímaáætlun ekki gerð í samráði við þingmenn kjördæmanna og það finnst mér að vissu leyti miður. Yfirleitt held ég að þingmenn hvers kjördæmis séu mjög samstiga í vegamálum og a.m.k. er það svo um okkur þingmenn Vesturlands sem höfum átt mjög gott samstarf um þessi mál. En það sem skiptir þó mestu máli er að þessi langtímaáætlun í vegagerð er metnaðarfull og skiptir landsbyggðina miklu máli. Þarna er lagt til að Alþingi álykti að verja skuli 110--111 milljörðum til framkvæmda í vegamálum á árunum 1999--2010 og ég tel að það skipti miklu máli í þeirri miklu umræðu sem er um þessar mundir um búseturöskun í landinu og flutning fólks af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Það skiptir miklu máli að Alþingi sýni fram á hvert markmiðið er í vegagerð á næstu árum, allt til ársins 2010. Samgöngumálin eru einn þeirra málaflokka sem hvað mestu valda um búsetu fólks og það höfum við glöggt heyrt í stjórn Byggðastofnunar sem höfum ferðast vítt og breitt um landið á síðustu tveimur árum og hitt heimamenn í flestum þéttbýlisstöðum landsins. Við höfum orðið mjög varir við það að eitt af því sem stendur upp úr hjá þessu fólki er áherslan á vegamálin.

Á bls. 4 er í sjö liðum drepið á að hverju helst skuli stefnt á þessu tímabili. Það er í fyrsta lagi að ljúka hringveginum með bundnu slitlagi og vegum af honum til þéttbýlisstaða með 200 íbúum eða fleiri. Þetta finnst mér afar gott markmið. Enn eru á hringveginum talsvert langir kaflar sem ekki hafa verið lagðir bundnu slitlagi og það hlýtur að vera metnaðarmál okkar að ljúka því að leggja þjóðveg 1 bundnu slitlagi.

Í öðru lagi er það að tengja saman með uppbyggðum vegi nálæga byggðarkjarna með fleiri en 1.000 íbúum á hvorum stað. Þetta tel ég líka ágætis markmið og get nefnt í því sambandi að sveitarfélögin á norðanverðu Snæfellsnesi, Stykkishólmur, Grundarfjörður og það sem nú heitir Snæfellsbær, náðu samkomulagi fyrir nokkrum árum um að höfuðmarkmið í vegagerð á því svæði væri að tengja byggðirnar á norðanverðu Snæfellsnesi á þennan hátt. Það verk er reyndar komið í gang og nokkuð á veg og ég er ekki í vafa um að þessi tenging mun efla mjög þessa þrjá þéttbýlisstaði og þess vegna held ég að þetta sé ágætis markmið sem geti átt vel við víða um land.

Í þriðja lagi er það að leggja bundið slitlag á mikilvægar ferðamannaleiðir með mikla umferð. Talið er að ferðaþjónustan sé eitt af því sem við eigum kannski hvað mesta möguleika á að auka störf í á næstu árum og ekki er vafi á því að bundið slitlag á þessar ferðamannaleiðir skiptir mjög miklu máli ef ná á upp aukinni þjónustu á þessu sviði. Ég get nefnt sem dæmi Húsafell sem er nú einn þeirra staða á landinu sem ég tel að eigi hvað mesta möguleika í ferðaþjónustu. En það stendur þeim stað verulega fyrir þrifum að hafa ekki bundið slitlag á leiðinni inn að Húsafelli. Ég er ekki í vafa um að þegar það verður komið mun Húsafell verða einhver vinsælasti ferðamannastaður á landinu og eiga gríðarlega möguleika.

[17:00]

Í fjórða lagi að endurbyggja brýr á helstu flutningaleiðum sem ekki þola fullan þunga. Þetta er mjög mikilvægt líka. Það er staðreynd að á undanförnum árum hefur álagið á vegina aukist gríðarlega og brýr margar hverjar þola illa stóraukna umferð þungra bíla sem hefur fyrst og fremst komið til með fiskmörkuðunum þar sem gríðarlegir fiskflutningar eru þvers og kruss um landið frá þessum mörkuðum og einnig vegna þess að skipafélögin hafa á undanförnum árum nánast lagt strandferðirnar af, þ.e. að sækja afurðirnar á einstakar hafnir. Allt fer þetta nú fram með risastórum flutningabílum sem þræða þjóðvegina á nóttu sem degi og vegakerfið og ekki síst þessar brýr er, illa undir þetta búið. Þetta er því að mínu áliti mjög mikilvægur liður í þessari áætlun.

Í fimmta lagi að breikka vegi þar sem umferð er svo mikil að flutningsgeta og umferðaröryggi verða vandamál. Sjálfsagt er einhvers staðar þörf á því, kannski fyrst og fremst á Reykjanesbrautinni. Einhverjir kaflar hennar þyrftu breikkun. Ég hef hins vegar efasemdir um að nauðsynlegt sé að breikka þá leið alla, þ.e. Reykjanesbrautina, eins og sumir hafa haldið hér fram. En einstakir kaflar hennar þurfa tvímælalaust á því að halda.

Í sjötta lagi að endurbyggja kafla með mikla umferð þar sem bundið slitlag var lagt á gamla vegi án endurbóta og reynst hafa hættulegir. Þetta er mjög aðkallandi verkefni. Við þekkjum öll þessa kafla vítt og breitt um landið þar sem malbiki eða einhverjum slíkum efnum var slett á gamla veginn, oft kannski á veginn miðjan og ekki út í kantana. Víða skapar þetta mikla slysahættu í dag og er mjög aðkallandi að ráðast í viðgerðir og endurbætur á þessu.

Í síðasta lagi að breikka einbreiðar brýr á hringveginum þar sem umferð er mikil. Þetta er auðvitað einnig mjög aðkallandi og hefur reyndar oft verið rætt í þinginu á undanförnum mánuðum og árum. Við vitum öll að einbreiðar brýr eru mikill slysavaldur og hafa því miður valdið mjög alvarlegum slysum. Eina sem ég finn að þessum lið er að ég hefði kannski viljað hafa þetta 400 bíla mark eitthvað lægra. Ég held að brýr á vegum þar sem er eitthvað minni umferð séu í mörgum tilfellum einnig mjög hættulegar. Þar hafa orðið mjög alvarleg slys þannig að ég hefði viljað binda þetta við eitthvað lægri tölu en 400 bíla. En markmiðið er gott.

Tekið er fram að verkefni á höfuðborgarsvæðinu séu ekki tekin með og þau hafi verið undir sérstökum lið og verði svo áfram. Það er út af fyrir sig eðlilegt en auðvitað bíða stór verkefni á því svæði líka og er það ekkert einkamál Reykvíkinga heldur okkar allra sem eigum leið til borgarinnar og vitum að leiðirnar að og frá borginni, vegirnir næst borginni, þola illa þá miklu umferð sem þar er og þar bíða vissulega veruleg verkefni.

Hér er tekið fram að jarðgöng séu ekki á þessum nýja verkefnalista og ef til slíkra framkvæmda kemur á áætlunartímabilinu er gert ráð fyrir að það verði samkvæmt sérstakri ákvörðun stjórnvalda þar sem einnig verði tekin afstaða til fjármögnunar, eins og hér segir. Ég efast ekkert um að á þessu tímabili verða gerð jarðgöng. Í framsöguræðu sinni fyrr í dag nefndi hæstv. samgrh. möguleikann á því að beita mætti óhefðbundnum aðferðum til að fjármagna vegaframkvæmdir og e.t.v. verður það gert við næstu jarðgangagerð líkt og var með Hvalfjarðargöngin og gafst afskaplega vel.

Hér er einnig til umræðu vegáætlun fyrir árin 1998--2002. Þar kemur fram það markmið að fjáröflun til vegagerðar verði frá og með árinu 1999 alfarið byggð á mörkuðum tekjustofnum og millifærslum í ríkissjóð hætt. Ég held að það sé ágæt breyting, þá eru nokkuð hreinar línur í því hvað er til útgjalda ár hvert.

Hér er getið um breytingu sem fyrirhuguð er, þ.e. að taka upp olíugjald í stað þungaskatts um næstu áramót og að ein af forsendum þeirrar breytingar sé að tekjustofninn skili sömu tekjum og áður í ríkissjóð og þessi tillaga miðast við það. Ég vil aðeins nefna í þessu sambandi, þó það komi kannski ekki þessu þingmáli við, að ég sá dæmi um það nýlega hjá bifreiðarstjórum á Snæfellsnesi að þessi breyting mun leiða til aukinna útgjalda hjá þeim, misjafnt þó eftir því hversu mikil notkun bifreiðar er. Ég er sammála því að þessi breyting skili sömu tekjum og áður til vegagerðar og sé ein af forsendunum fyrir þessu plaggi en þessi kerfisbreyting má ekki verða til þess að íþyngja þeim sem við þessa skattheimtu búa.

Hér er kafli um vetrarþjónustu þar sem lagt er til að hún aukist nokkuð á næstu árum. Snjómokstur hefur verið stóraukinn á undanförnum árum og það er vel því að víða er fólk mjög háð þessari þjónustu, t.d. vegna atvinnustarfsemi og skólaaksturs. Þessi aukna þjónusta á undanförnum árum hefur mælst mjög vel fyrir þó að auðvitað megi alltaf gera betur. Þannig er t.d. nokkur óánægja með það á utanverðu Snæfellsnesi að aðeins skuli vera mokað fjórum sinnum í viku á Fróðárheiði en sjö sinnum á Kerlingarskarði þar sem umferð um þessa fjallvegi er mjög svipuð og munar þar aðeins samtals um þúsund bílum sl. fjóra mánuði. Þess verður þó að geta að það er mokað alla daga vikunnar milli þéttbýlisstaðanna á norðanverðu nesinu.

Félagar mínir, hv. þm. Vesturl., hafa rætt nokkuð um vegamálin í okkar kjördæmi og hvað þar er mest aðkallandi. Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það. Eins og ég gat um fyrr í ræðu minni er samstaða okkar góð um þessi vegamál og við erum yfirleitt mjög sammála um þau þannig að ég ætla ekkert að vera að endurtaka það sem þau höfðu hér fram að færa um einstaka kafla í okkar kjördæmi. Ég vil aðeins nefna í lokin sem ég hef oft nefnt áður að ég er ekki sáttur við það að helmingur af kostnaði við vegtengingar Hvalfjarðarganga skuli tekinn af vegafé þeirra kjördæma sem liggja að göngunum, en langstærstur hluti þess kostnaðar lendir á Vesturlandi. Hvalfjarðargöngin eru fyrst og fremst stórkostleg samgöngubót fyrir alla landsmenn. Þau stytta hringveginn um yfir 40 km og nýtast landsmönnum öllum. Auðvitað koma þau Vestlendingum til góða en ekki síður Vestfirðingum og Norðlendingum auk allra þeirra fjölmörgu landsmanna sem leið eiga um hringveginn. Mér finnst því að það þurfi að endurskoða þessa niðurstöðu og að litið verði á vegtengingarnar sem hluta af kostnaði við göngin og þær fjármagnaðar samkvæmt því. Verði ekki samkomulag um það tel ég að endurgreiðslutími þessara lána þurfi að vera lengri en fimm ár eins og gert er ráð fyrir í þessari áætlun.