Búnaðarlög

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 14:24:50 (3317)

1998-02-03 14:24:50# 122. lþ. 57.3 fundur 368. mál: #A búnaðarlög# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[14:24]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Í frv. þessu gætir nokkurra nýmæla. Hæstv. ráðherra fjallaði talsvert um nýmæli í II. kafla frv. þar sem fjallað er um jarðabætur. Þar er einmitt lögð áhersla á að stuðla skuli að sjálfbærri landnýtingu og verndun vistkerfa. Í greinargerðinni segir einmitt, með leyfi forseta: ,,Hugtakið jarðabætur er hér túlkað mun opnara en í eldri lögum.`` Þessu fagna ég líka, herra forseti.

Hér er verið að veita opinbert fé til þess að stuðla að hvers konar jákvæðum aðgerðum í landbúnaði að mati frumvarpshöfunda. Ég vek athygli á því að undir hatti umhvrn. hafa átt sér stað mjög merkar tilraunir með að moka ofan í skurði og miða þær að því að endurheimta votlendi. Vegna þess að í greinargerðinni er rætt um það að jarðabætur eigi m.a. að ná til friðunar og verndunar votlendis þá spyr ég hæstv. ráðherra hvort ekki sé alveg ljóst að hugtakið jarðabætur í hinum nýja skilningi, sem á m.a. að stuðla að friðun og verndun votlendis, muni örugglega ná til verkefna sem miða að því að endurheimta votlendi með því að moka ofan í skurði sem ætlað var að eyða votlendi hér áður fyrr.