Búnaðarlög

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 15:54:27 (3337)

1998-02-03 15:54:27# 122. lþ. 57.3 fundur 368. mál: #A búnaðarlög# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[15:54]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þm. um mikilvægi þess að atvinnugreinar byggist upp í dreifbýli. Ég held það sé ekki hollt að landið sporðreisist hvað varðar búsetu. Ég er hins vegar að reyna að draga það fram að landbúnaður á að fá sömu skilyrði og aðrar atvinnugreinar hérlendis. Aðrar atvinnugreinar hafa náð að pluma sig hér á landi á þessari öld, hvort sem er sjávarútvegur, þjónusta, iðnaður eða verslun. Þar hefur ekki ríkt þetta heljartak framsóknarhyggjunnar, miðstýringarinnar og forsjárhyggjunnar sem ég hef lýst. Þetta vandamál er víða. Til að mynda má nefna að verði gerðar endurbætur á landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins mun það leiða til kaupmáttaraukningar um 10% í Evrópu. Þetta er hins vegar mjög erfitt pólitískt vandamál alveg eins og það er hér.

Annað sem tengist þessu eru þróunarlöndin og möguleikar þeirra að hasla sér völl með sölu á matvælum. Kannski er eina von okkar að styðja við bakið á þróunarlöndum að heimila frjálsari verslun með matvæli. Í þeim löndum er fólk að deyja úr hungri. Við höfum ekkert rætt það í þessari umræðu.

Eina ályktunin sem ég dreg varðandi allt þetta mál og bendi á varðandi frv. til nýrra búnaðarlaga er að hér sé enn og aftur verið að framfylgja stefnu sem hefur ekki skilað neinu. Það þarf að snúa við blaðinu varðandi stefnuna í landbúnaði. Ég er reiðubúinn að taka þátt í því með öðrum þingmönnum, þannig að bæði tekjur bænda verði hærri og matvæli lækki í verði. Þetta er hægt en þá verða menn að viðurkenna, herra forseti, að sú stefna sem menn hafa viðhaldið hér undanfarna áratugi er komin að endalokum.