Búnaðarlög

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 16:34:16 (3344)

1998-02-03 16:34:16# 122. lþ. 57.3 fundur 368. mál: #A búnaðarlög# frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[16:34]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þær ágætu umræður sem hér hafa orðið, ekki bara um frv. sem hér liggur fyrir, heldur ekki síður almenna umræðu um landbúnaðarmál. Það er ekki svo oft sem hún á sér stað í þingsölum þó vissulega komi það þó fyrir. Það sem mér finnst mikilvægast að lesa út úr þeirri umræðu er í raun það, að allir hv. þm. sem hafa talað hafa látið í ljós þá skoðun sína að mikilvægt sé að reka öflugan landbúnað í landinu. Ég leyfi mér að skilja orð allra þingmanna þannig að í raun sé það ekki hugur neins að leggja niður landbúnað og ekki einu sinni hugur neins að hér sé einhver sýndarlandbúnaður eða landbúnaður fyrir ferðaþjónustu eða til að halda við afskekktri byggð eða slíkt, heldur sé þetta hluti af samfélagi okkar og atvinnulífi og einn af okkar mikilvægu atvinnuvegum.

Auðvitað greinir menn á um leiðir í þessu efni, og er raunar lengi búið að gera, og við því er ekkert að segja. En mér finnst dómurinn sem stundum er kveðinn upp um --- hvað skal segja, forræðishyggju eða skammsýni manna eða að þeir sem réðu á árum áður eða áratugum saman hafi viðhaft alrangar og kolvitlausar stjórnunaraðferðir, mér finnst sá dómur stundum dálítið billegur og ekki alltaf í samræmi við það sem hefur verið í raun að gerast. Það er vissulega margt fleira sem hefur spilað inn í þá þróun og gert stöðuna í landbúnaði, eins og hún hefur verið um nokkurra ára bil, afar erfiða og gert þær breytingar sem menn hafa orðið að ganga í gegnum afar sársaukafullar fyrir atvinnugreinina í heild, bændastéttina, bændur og afkomu þeirra. Þar held ég að pólitískar ákvarðanir og stjórnvaldsákvarðanir hafi kannski ekki ráðið mestu, þó þær hafi sjálfsagt ráðið einhverju. Það hefur ekki síður verið þjóðfélagsbreyting, breyting í þjóðfélagsmunstri, breyting í neyslu og margt, margt fleira sem þarna spilar inn í. Þó er heldur ekki ástæða til að draga neina fjöður yfir það, og ég gerði grein fyrir því í framsöguræðu minni í upphafi, að einmitt það sem var að gerast á sjöunda og áttunda áratugnum þegar menn voru með mikilli bjartsýni að leggja áherslu á framkvæmdir og á þeim árum hafa líklega verið umfangsmestu framkvæmdir í jarðrækt, búfjárrækt og uppbyggingu í landbúnaðinum, þá gerðu menn það í þeirri góðu trú að landbúnaðurinn ætti möguleika á umfangsmikilli framleiðslu til útflutnings. Það var kannski fyrst og fremst röksemdafærslan í þessu efni og líka að komast í þá stöðu að við gætum framleitt þær landbúnaðarafurðir sem við þyrftum á að halda en þyrftum ekki að flytja inn kjöt eða mjólkurafurðir. Þetta er sagan í þeim efnum. Síðan hafa breytingarnar gerst hratt á seinustu 10--20 árum, sem hafa valdið miklum erfiðleikum. Þar hafa menn verið að laga til hluti og reyna að koma til móts við hin ýmsu sjónarmið sem hafa verið uppi í þjóðfélaginu, eins og að draga úr miklum opinberum stuðningi í atvinnugrein sem ekki hafði lengur möguleika á útflutningi því hann var óhagkvæmur, óskynsamlegur og þurfti mikinn stuðning. Um það varð pólitísk samstaða að hætta þeim stuðningi. Það þýddi að framleiðsla í sauðfjárræktinni hefur dregist saman á örfáum árum um nær helming, úr um 12--14 þús. tonna framleiðslu af lambakjöti í 7--8 þús. tonn. Þetta er því ekki lítil breyting og hlýtur að koma einhvers staðar við. Ég tel að það sé eiginlega rangt að kenna skammsýni þar fyrst og fremst um --- og ég veit ekki hvað, forræðishyggju, eða hvað við köllum það. Það má nefna það framsóknarhyggju, ef ég tek mér það orð í munn sem hv. þm. Ágúst Einarsson sérstaklega hafði uppi.

En mig langar aðeins, áður en ég held lengra með það, að fara örfáum orðum um það mál sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði einkum að umtalsefni í ræðu sinni um samninginn sem boðið er upp á samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða og finnst að sé nú ekki mikil reisn yfir og leiðinlegur endir á uppgjörsmáli sem verður að taka á. Ég vil aðeins minna á að lögin eins og þau eru núna um jarðræktarframlögin, og var þeim þó breytt nokkuð til að draga úr þeirri sjálfvirkni sem áður var, eru nokkuð flókin og gera ráð fyrir ákveðnu ferli í sambandi við það hvernig menn öðlast rétt til þessa stuðnings og mig langar að lesa eina grein úr gildandi lögum. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Skilyrði þess að framkvæmd njóti framlags samkvæmt lögum þessum er að umsókn þar um ásamt framkvæmdaáætlun, sem samþykkt er af héraðsráðunaut, sé lögð inn hjá Bændasamtökum Íslands á árinu áður en verkið skal hafið. Bændasamtök Íslands áætla fjárþörf vegna jarðræktarframlaga að þeim umsóknum fengnum og gerir tillögur til landbúnaðarráðherra um fjárveitingar næsta árs áður en frumvarp til fjárlaga er lagt fyrir Alþingi. Þegar fjárlög hafa verið samþykkt skulu Bændasamtök Íslands tilkynna bændum bréflega hvaða framkvæmdir á jörðum þeirra muni njóta framlags á árinu. Framlög skulu greidd svo fljótt sem við verður komið eftir að úttekt lýkur.``

Af þessu er því miður ljóst að þetta ferli hefur ekki verið virt að undanförnu. Þetta ferli, þ.e. hvernig standa átti að fjárveitingum, umsóknum og áætlanagerð varðandi jarðræktina og þær framkvæmdir sem áttu að njóta stuðnings skv. þessari lagagrein, hefur ekki verið uppfyllt og ekki virt. Þess vegna er það í raun svo að það er álit stjórnvalda að um lagalega kröfu, endurkröfu á þessum upphæðum kunni að vera í það minnsta álitamál, sé það hreinlega ekki svo að veikur grunnur sé fyrir slíkri kröfu. Það er fyrst og fremst á þeirri forsendu og að fenginni þeirri reynslu að við stöndum frammi fyrir kröfu um uppgjör af hálfu bændastéttarinnar, að upphæð nær 300 millj. kr. ef hún hefur ekki hreinlega farið yfir það. Ég hef því miður ekki endanlegu töluna eftir nýliðið ár. En um áramótin þar áður var sú tala komin í tæpar 273 millj., eins og kemur fram í grg. með frv., en sjálfsagt hefur eitthvað bæst við. Það er því um 300 millj. kr. upphæð að ræða og ef litið er yfir þá sögu er ekki nema um sáralitlar fjárveitingar á undanförnum árum að ræða til að standa undir þeim framkvæmdum. Á árinu 1993 var hæsta upphæðin, 65 millj. kr., 1994 var hún 40 millj. Það kom reyndar inn, ef ég man rétt, í meðförum þingsins örlítill styrkur 1995 til að gera upp ákveðnar framkvæmdir aðeins í því skyni og með því skilyrði að einungis væri verið gera upp tvo flokka framkvæmda, vatnsveituframkvæmdir og áburðargeymslur eða haughús, síðan var ekkert 1996 og ekkert 1997. Það blasti í raun við að ekkert yrði 1998 nema gengið yrði til einhverra ákveðinna samninga, hugmynda eða tillögugerðar um samninga í þessu efni. Mín afstaða og niðurstaða varð sú að rétt væri að ganga fram með þessu móti til þess þó að tryggja í þetta einhverja fjárveitingu og til að koma þessum málum í nýjan farveg. Ég tel að það hafi raunar allt verið á sömu spýtunni --- að fá samstöðu um frv. sem hér liggur fyrir, og að breyta nokkuð vinnubrögðum frá því sem áður hafði verið og reyna að ná einhverju ásættanlegu um að niðurstaða yrði að verða í málinu --- maður má kannski vara sig á að nota orðið ásættanlegur því það fer eftir því hver talar og sínum augum lítur hver silfrið, hvað er ásættanlegt í þessu efni. Afstaða mín liggur fyrir í frv. og ég hef í raun ekki meira um það að segja. Ég veit að þetta eru kannski harðir kostir að þurfa að ganga að svona löguðu.

Hin hliðin á málinu var sú að eiga afar hæpna kröfu á hendur ríkissjóði af hálfu bændanna og þurfa að leita hennar með fyrirhöfn, ef sú afgreiðsla sem búin er að gilda í tvö undanfarin ár hefði staðið og má kannski segja í fjögur ár, ef litið er til þess hvernig fjárlagafrv. hafa verið lögð fram, að ekki hafa verið neinar fjárveitingar í þennan lið, þá hafi þetta verið ásættanleg afgreiðsla þessa máls, þótt ég þykist þess fullviss að um það kunni að vera skiptar skoðanir.

[16:45]

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon minntist á það í lok máls síns að við höfum gert í tíð þessarar ríkisstjórnar samninga um stuðning við sauðfjárræktina og stuðning við mjólkurframleiðsluna sem eru reyndar ekki enn þá komnir inn í þingið en þeim samningum þurfa að fylgja lagabreytingar sem eiga eftir að koma hér inn til nánari umfjöllunar. En það er rétt hjá honum að fljótlega þarf að hefja að nýju viðræður um sauðfjársamning eða framhald þess gjörnings sem ekki stendur nema til ársins 2000 og tíminn er fljótur að líða í þessu efni. Það sjáum við á samningagerðinni eins og hún hefur verið að undanförnu. Þegar hafa komið fram óskir eða hugmyndir um að líta til þess því að í mínum huga er ljóst að áfram verður haldið í einhverri mynd að styðja við þessa atvinnugrein, þ.e. svipað og gert hefur verið og er enn gert í nágrannalöndunum. Það er afdráttarlaust mín skoðun að það hljóti að verða gert áfram og þess vegna er ljóst að það þarf að hefja fljótlega viðræður við Bændasamtökin um það hvernig staðið verði að slíkum samningi um sauðfjárræktina áfram þó ég ætli mér ekki á þessu stigi að gefa mér neitt fyrir fram í því hvernig að því verði staðið og hvort það komi inn nýjar áherslur og nýjar hugmyndir og verði farið með það að einhverju leyti öðruvísi en var í hinum síðasta.

Þá kem ég aftur aðeins að þessum vangaveltum um það hvernig eða hvort eigi að styðja íslenskan landbúnað. Þegar ég velti fyrir mér upplýsingum sem komu fram í ræðu hv. þm. Ágústs Einarssonar um það hvernig þessu er háttað í mörgum löndum í kringum okkur og þeim löndum sem við erum að keppa við um ýmsa hluti þá held ég að líka sé ljóst af þeim upplýsingum sem þar komu fram og hv. þm. las upp úr tiltekinni grein, eða úttekt á þessum málum, að þó svo við séum enn í hærri kantinum hvað þennan stuðning varðar þá er ljóst að aðrar þjóðir eru að verulegu leyti að styðja við þessa atvinnugrein. Þess vegna er það, finnst mér, ekki alveg rétt hjá hv. þm. að bera það stjórnkerfi sem hér ríkir í landbúnaði og víða annars staðar, saman við sjávarútveg og iðnað. Og ekki er rétt að spyrja af hverju ekki séu svipuð lagaákvæði um stuðning við sjávarútveg eins og hér eru sett fram í 2. gr. frv. um markmið laganna og hver sé hugsunin með þessu frv. því að sjávarútvegurinn, í það minnsta hér hjá okkur, er rekinn á allt annan hátt. Hann er sú atvinnugrein sem er burðarás í okkar efnahags- og atvinnulífi. Við hins vegar getum sjálfsagt séð það sums staðar í nágrannalöndunum og ég býst við að hv. þm. sé kunnugri því en ég að sjávarútvegur í öðrum löndum, í næsta nágrenni, hefur opinberan stuðning. Það er ekki bara landbúnaðurinn þar sem er studdur á einn eða annan hátt af opinberum aðilum heldur sjávarútvegurinn einnig sem við gerum ekki hér af því að hér er sjávarútvegurinn allt annar þáttur í okkar atvinnu- og efnahagslífi en sums staðar annars staðar. Mér finnst það í það minnsta ekki alveg sanngjarn samanburður þegar hv. þm. dregur það upp sem dæmi um það hvernig við gætum rekið okkar íslenska landbúnað.

Ef það væri svo að við gætum, áður en langt líður, komist út úr svo miklum stuðningi sem landbúnaðurinn býr nú við þá væri það sjálfsagt fagnaðarefni fyrir alla. Ég sé það ekki gerast á næstunni. Ég minni þó á að við höfum verið að stíga stór skref í þá átt á undanförnum árum. Ég segi stór skref í að breyta stjórnkerfinu, breyta því sem stundum er kallað miðstýring eða forræðishyggja, þ.e. draga úr henni. Það er ekki síst gert í sambandi við verðlagsmálin í þeim samningum sem ég hef hér nefnt og ég hef staðið fyrir eða átt aðild að þannig að ég held að við séum sammála um það alþingismenn flestir að hér þurfi að verða á breytingar og þær eru að gerast þó við séum kannski ekki alveg sammála um hversu hratt er hægt að stíga þau skref.