Viðskiptabann gegn Írak

Miðvikudaginn 04. febrúar 1998, kl. 13:39:54 (3380)

1998-02-04 13:39:54# 122. lþ. 58.2 fundur 418. mál: #A viðskiptabann gegn Írak# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[13:39]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Þegar Alþingi kom saman í janúarlok vakti ég máls á því að þingið hefði nú þriðja árið í röð þurft að una því að svæfð sé í utanrmn. þáltill. um að viðskiptabannið á Írak verði tekið til tafarlausrar endurskoðunar. Því hefur verið haldið fram af ábyrgum rannsóknarstofnunum að viðskiptabannið hafi leitt til dauða mörg hundruð þúsund manna, að á aðra milljón saklausra borgara hafi látið lífið af völdum þess, fyrst og fremst börn. Talað hefur verið um 750 þús. börn í þessu sambandi á þeim tíma sem viðskiptabannið hefur verið í gildi nær allan þennan áratug. Menn deila ekki um þessar hörmulegu afleiðingar viðskiptabannsins og manntjónið af völdum þess. Menn deila hins vegar um ábyrgð og hvort tilgangurinn helgi meðalið. Þær spurningar sem ég set hér fram eru fjórar.

Í fyrsta lagi er spurt hvort ríkisstjórnin hafi einhvern tíma gert formlega samþykkt um viðskiptabannið gegn Írak og ef svo er, hvenær hún hafi verið gerð og hvert hafi verið efni hennar.

Löggilding bannsins, dagsett 28. apríl árið 1992, birtist í Lögbirtingablaðinu í júní tveimur árum síðar. Ekki hefur komið fram hvort fyrir þessu hafi legið samþykkt ríkisstjórnar, en umræða um málið hefur aldrei farið fram á Alþingi.

Í öðru lagi er spurt hvort hæstv. ráðherra séu ljósar afleiðingar viðskiptabannsins, en eins og ég gat um áðan, þá hefur það leitt til dauða á annarrar milljónar manna.

Einhver kann að velta því fyrir sér hvort það sé vanvirðing við hæstv. utanrrh. að spyrja hvort hann og ríkisstjórnin hafi þekkingu á þessum málum. Þessi spurning er af minni hálfu ekki hugsuð sem lítilsvirðandi en e.t.v. byggir hún á óskhyggju, að vanþekking skýri fylgispekt Íslendinga við hinar grimmdarlegu refsiaðgerðir gegn írökskum almenningi sem vissulega eru í nafni Sameinuðu þjóðanna. En á allra vitorði er að þær eru að frumkvæði og undirlagi Bandaríkjastjórnar sem fyrst og fremst er að hugsa um hernaðarhagsmuni sína. Það hefur utanríkisráðherra Bandaríkjanna ítrekað staðfest. Þess vegna er spurt: Vita menn hvað þeir eru að gera og hverjar eru afleiðingar gerða þeirra?

Í þriðja lagi er spurt um álit ráðherra á þeirri staðhæfingu að viðskiptabannið gegn Írak og afleiðingar þess hafi brotið gegn Genfarsáttmálanum og viðaukum hans sem skilgreina stríðsglæpi, og gegn samþykktum og grundvallarreglum Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi.

Margir málsmetandi einstaklingar, þar á meðal reyndir lögfræðingar og stjórnmálamenn --- og má í þeirra hópi nefna Ramsey Clark, fyrrv. dómsmálaráðherra Bandaríkjanna --- telja að refsiaðgerðirnar gegn Írak hafi brotið gegn þessum sáttmálum og hafa margir þessara aðila staðhæft að jafna megi refsiaðgerðunum við stríðsglæpi og alþjóðahryðjuverk.

Hér á landi hafa á annað hundrað manns undirritað ásakanir gegn núv. og fyrrv. utanrrh. á þessum grundvelli og ég verð að segja að mér finnst ekki ganga að afgreiða ásakanir af þessu tagi sem öfgar sem ekki séu svaraverðar. (Forseti hringir.) Um er að ræða ábyrgð okkar þjóðar í þessum efnum og hæstv. utanrrh. skuldar Alþingi og þjóðinni skýringar á því hvers vegna hann telji ásakanir af þessu tagi ekki eiga við rök að styðjast sem hann væntanlega gerir. (Forseti hringir.) Mér er kunnugt um að þeir einstaklingar sem í hlut eiga vildu (Forseti hringir.) að ráðherra lögsækti þá fyrir dómstólum vegna meiðyrða.

Í fjórða lagi er spurt hvort írakska þjóðin hafi gefið Íslendingum tilefni til að taka þátt í árásum á grundvallarmannréttindi Íraka.