Fjármagn vegna mælinga á geislavirkum efnum í sjó

Miðvikudaginn 04. febrúar 1998, kl. 14:17:53 (3396)

1998-02-04 14:17:53# 122. lþ. 58.4 fundur 395. mál: #A fjármagn vegna mælinga á geislavirkum efnum í sjó# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[14:17]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni fyrir að vekja máls á þessu. Tildrögin eru þau að við Noregsstrendur hafa menn mælt teknesíum í auknu magni. Hér á Íslandi hafa menn ekki haft rétt tæki og aðferðir til þess að geta mælt þetta og þess vegna nauðsynlegt að afla þess sem hv. þm. hefur reyndar gert með fyrirspurn sinni. Ég tek hjartanlega undir umvöndunarorð hans og hv. þm. Svavars Gestssonar að það er ólíðandi að hæstv. ráðherrar svari fyrirspurnum áður en kemur í fyrirspurnatíma þingsins.

Mig langar að nota tækifærið, herra forseti, og benda á ákveðna þverstæðu í málflutningi íslenskra stjórnvalda. Einmitt út af teknesíum-málinu kom fram að hæstv. umhvrh. ætlar að hafa samband við kollega sinn í Bretlandi og veita honum nokkrar átölur fyrir að haga sér illa með því að auka losun á þessu efni. En þetta er nákvæmlega sami ráðherrann og hefur ekki treyst sér til þess að lýsa því yfir fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar að Íslendingar muni reyna að hlíta niðurstöðum Kyoto-ráðstefnunnar. Með öðrum orðum, herra forseti, á annan bóginn heimtum við gagnvart öðrum þjóðum að þær hagi sér vel en á hinn bóginn lýsum við því yfir að við ætlum að halda áfram að haga okkur eins og ruddar sjálfir.