Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 14:19:14 (3476)

1998-02-05 14:19:14# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., SF
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[14:19]

Siv Friðleifsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég vil í upphafi segja að ég tel að það sé afar erfitt að ræða einungis um þetta dagskrármál. Það er alveg rétt sem hefur komið fram áður, að önnur mál tengjast þessu frv. sem er sérstaklega á dagskránni núna, enda held ég að nánast allir sem ræddu það í morgun hafi farið ofan í fleiri mál en einungis þjóðlendufrv. Ég vil byrja á því að segja að við tökum, að mínu mati, mjög jákvæð skref með þessu frv.

Hæstiréttur hefur ítrekað beðið um að sett verði skýr lög til að taka á eignarrétti á miðhálendinu. Mig langar, virðulegur forseti, að lesa aðeins upp úr grg. með frv. en þar segir, með leyfi forseta:

,,Í niðurstöðu meiri hluta Hæstaréttar er tekið fram að í málinu leiti stjórnvald, fjármálaráðherra, dómsviðurkenningar á beinum eignarrétti ríkisins á Landmannaafrétti og síðan segir:

,,Alþingi hefur ekki sett lög um þetta efni, þó að það hefði verið eðlileg leið til að fá ákvörðun handhafa ríkisvalds um málefnið.````

Í grg. er verið vísa í dóm Hæstaréttar en hann hefur dæmt þannig að hvorki ríkið né sveitarfélögin ættu Landmannaafrétt, þ.e. enginn átti Landmannaafrétt. Það er að sjálfsögðu óviðunandi að búa við slíkt lagaumhverfi að menn viti ekki hverjir eigi ákveðin landsvæði. Í Noregi er þetta öðruvísi. Þar hefur það tíðkast að það sem einstaklingar eiga ekki og geta ekki fært sönnur á að þeir eigi, það á kóngurinn. Hérna erum við að færa málin í þann búning að ríkið á, samkvæmt þjóðlendufrv., það land sem enginn getur fært sönnur á að hann eigi og að hæstv. forsrh. fer með eignarréttinn fyrir hönd þjóðarinnar.

Samkvæmt frv. á óbyggðanefnd að úrskurða um það hver eigi viðkomandi landsvæði og kemur mjög skýrt fram í 8. gr. frv. hvernig fara eigi með slík mál. Þar segir að óbyggðanefnd eigi að taka að eigin frumkvæði til meðferðar og úrskurða um málefni sem undir hana heyra. Skal hún ákveða og tilkynna fyrir fram hvaða landsvæði ákveðið hefur verið að taka til meðferðar hverju sinni þannig að sá hluti landsins sem starfssvið nefndarinnar tekur til verði tekinn fyrir í áföngum. Stefnt skal að því að nefndin hafi lokið verkinu fyrir árið 2007. Þannig að þessu ferli á að ljúka árið 2007 og þá eiga landsmenn að vita nákvæmlega hvaða landsvæði eru þjóðlendur. Þeir einstaklingar sem telja sig eiga rétt á landi á miðhálendinu eiga að fara fyrir nefndina og sýna heimildir og gögn sem þeir byggja rétt sinn á. Óbyggðanefnd getur líka haft frumkvæði að því að afla sér gagna sem hún telur að skipti máli. Síðan getur óbyggðanefnd einnig heimilað að fram fari munnleg sönnunarfærsla fyrir nefndinni. Hér er því um að ræða mikið ferli og þetta ferli virkar á mig sem frekar vandað og ég get ekki séð hvernig þessi málsmeðferð getur orðið betri. Ég er því mjög ánægð með hvernig þetta er sett upp í frv.

Flestir sem hafa skoðað þetta mál telja að eftir þetta ferli muni þjóðin eignast umfangsmikil svæði sem eru á miðhálendinu þannig að við erum að horfa fram á þá daga að uppi á miðhálendinu verði umfangsmikil svæði kölluð þjóðlendur.

Mig langar til að koma inn á nokkur önnur mál sem tengjast þjóðlendufrv. Þó að ég viti að hæstv. forsrh. var frekar að falast eftir því að menn héldu sig einungis við þjóðlendufrv., tel ég mér það varla unnt. Ég tek fram að þetta eru allt stjfrv. Í fyrsta lagi vil ég ítreka skoðun mína á sveitarfélagafrv. okkar, þ.e. 1. gr. þar sem á að skipta öllu miðhálendinu upp á milli sveitarfélaganna, þar á meðal jöklum og öðrum svæðum, þannig að sveitarfélögin fara með málefni þessara svæða. Þetta er að mínu mati röng aðferð vegna eðlis miðhálendisins og ég gerði ítarlega grein fyrir því í fyrri ræðu minni þegar frv. um sveitarfélögin var til umræðu. Ég tel miklu æskilegra að miðhálendið sé eitt sérstakt stjórnsýslusvæði, sérstaklega hvað varðar skipulags- og byggingarmál. Ég hef mestar áhyggjur af því. Ég tel að hægt sé að finna út slíkt svæði. Það má t.d. draga línu milli heimalanda og afrétta sem í stórum dráttum er sú lína, að mér skilst, sem samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins vinnur eftir. Þannig að við erum komin með svæði á miðhálendinu sem hægt væri að skoða sem eitt stjórnsýslusvæði.

Inn í þessar umræður hefur tvinnast mikið karp á milli Alþb. og Alþfl. vegna þessarar svæðisnefndar, samvinnunefndar um skipulag miðhálendisins. Ég skal nú ekki segja hvort þetta er forleikurinn að sameiningu þessara flokka en þetta karp hefur tekið á sig ýmsar myndir í dag. Það er mitt mat, eftir að hafa skoðað öll gögn sem ég hef komist yfir í þessu máli, að Alþfl. var í afar þröngri stöðu á sínum tíma. Hann vildi gera allt miðhálendið að einu stjórnsýslusvæði, eins og hér hefur komið fram hjá fulltrúum Alþb. líka. Því var hafnað í þinginu og þá var staðan (Gripið fram í.) afar þröng, að mínu mati. Alla vega var staðan afar þröng í þinginu og ólíklegt að það mál næði fram að ganga og þá var spurning hvað átti að gera. Þannig að ég býst við því að Alþfl. hafi hugsað sem svo: ,,Það er skárra að fara þessa leið, þ.e. að skipa svæðisnefnd um skipulagsmál miðhálendisins, en að gera ekki neitt vegna þess að skipulagsmál miðhálendisins hafa verið í algjörum lamasessi. Þar hafa risið um 400 byggingar án þess að þar hafi verið skipulagt neitt sérstaklega.`` Þetta held ég að sé forsagan.

Ég tel að þetta eina stjórnsýslusvæði sem ég sé fyrir mér á miðhálendinu gæti t.d. fallið undir samstarfsnefndina sem getið er um í 4. gr. þjóðlendufrv. og á að fara með málefni þjóðlendna á vegum forsrh. Það má líka hugsa sé aðrar útfærslur, að þetta stjórnsýslusvæði falli undir umhvrh. eða einhverja nefnd tengda honum. Einnig má hugsa sér að slík nefnd væri vistuð hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

En gott og vel. Ég sé að ekki er vilji til að fara þessa leið samkvæmt stjfrv. þannig að ég hef skoðað aðra leið sem mér finnst koma vel til greina að fara. Það er að skipta miðhálendinu á milli sveitarfélaganna eins og nú er búið að ákveða með frv. en taka skipulags- og byggingarmál sérstaklega út fyrir sviga eins og er gert í 61. gr. skipulags- og byggingarlaga, en þar eru varnarsvæðin í Keflavík tekin út fyrir sviga, má segja. Ég ætla að vitna aðeins í þessa grein, með leyfi forseta. Þar segir:

,,Utanríkisráðherra fer með yfirstjórn skipulags- og byggingarmála á auglýstum varnarsvæðum í samræmi við ákvæði laga nr. 106/1954, sbr. og lög nr. 110/1951.``

Hæstv. forsrh. kom einmitt inn á það áðan í sínu máli að það væri þekkt fyrirbæri að taka ákveðin landsvæði undan sveitarfélögunum varðandi skipulags- og byggingarmál, eins og varnarsvæðin í Keflavík og ég vil sérstaklega spyrja hæstv. forsrh., vegna þess hve hann kom skýrt inn á þetta atriði í máli sínu: Kemur þessi leið til greina? Kemur til greina, að mati forsrh., að taka skipulags- og byggingarmál á miðhálendinu út fyrir sviga og fella þau þá undir annaðhvort forsrn. eða umhvrn., en sveitarfélögin færu þá með önnur mál á miðhálendinu eins og hreinlætismál, löggæslu og annað slíkt? Ég beini þessari spurningu sérstaklega til hæstv. forsrh.

Ég hef skilið 3. gr. þjóðlendufrv. svo að ef menn vildu t.d. byggja þjónustuskála --- tökum sem dæmi á Hveravöllum. Það hefur nú verið talsvert til umræðu --- þá þyrfti leyfi hæstv. forsrh. til þess og þá gef ég mér þær forsendur að Hveravellir falli innan þjóðlendu eftir samþykkt þessa frv. og ferlið í óbyggðanefndinni.

[14:30]

Hér er um afnot til meira en árs að ræða, þjónustubygging rís, þannig að forsrh. ætti samkvæmt þessu að veita þetta leyfi. Hins vegar færi Svínavatnshreppur með skipulags- og byggingarvaldið og skipulegði svæðið samkvæmt frv. hæstv. félmrh. Mér hugnast þessi aðferð ekki vegna þess að ég tel áhrifin vera yfirgnæfandi hjá því valdi sem býr til fyrstu tillögu að skipulagi, þ.e. hjá sveitarfélaginu, hjá Svínavatnshreppi. Ég tel að forsrh. yrði í talsvert þröngri stöðu hvað varðar höfnun á slíku skipulagi og ég beini þeirri spurningu aftur til hæstv. forsrh.: Hvað telur hæstv. ráðherra eðlilegt að gera varðandi hugmyndir Svínavatnshrepps um byggingu þjónustuskála á Hveravöllum? Eru einhverjar líkur á því að hæstv. forsrh. segði: Nei, það er óeðlilegt að byggja þjónustuskála á Hveravöllum. En eins og allir vita hefur Svínavatnshreppur hug á því og hefur látið hanna skála.

Að lokum langar mig að nota tímann til að koma inn á mál sem m.a. hv. þm. Ragnar Arnalds gerði að umtalsefni um 2. og 3. gr. þjóðlendufrv. og snertir líka nýtingu auðlinda í jörðu og tengist þar af leiðandi frv. ríkisstjórnarinnar um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu og verður rætt seinna í dag ef tími gefist til. Þar er eitt megininntakið að landeigandi eigi t.d. nýtingarrétt á jarðvarma ótakmarkað niður í jörðina. Ég er með sérstakan fyrirvara einmitt við þetta atriði. Er það var lagt fram í þingflokki okkar, þá setti ég fyrirvara við þetta atriði. Ég vil skoða það betur og fá betri rök. Skoðun mín er sú að þjóðin eigi sameiginlega að eiga nýtingarrétt umfangsmikils jarðvarma, t.d. undir 100 eða 200 metra marki eða yfir ákveðnu hitastigi. Ég tel óæskilegt að einstaklingar, landeigendur sem eru svo heppnir að eiga land þar sem er t.d. mikill háhiti eigi þann háhita án þess að hafa nokkuð til hans unnið. Ég sé ekki að það sé þjóðinni til hagsbóta.

Svörin sem ég hef fengið þegar ég hef viðrað þessa skoðun í mínum hópi er að þetta sé ekki hægt vegna eignarréttarákvæða stjórnarskrárinnar og að það sé vegna ákveðinna tæknilegra galla sem þar koma til. Það sé hægt að bora á ská inn undir land annarra o.s.frv. Ég hef hins vegar ekki sannfærst um að þessi rök séu jafnsterk og álitið er. Væntanlega verður meiri umræða um þessi mál þegar frv. hæstv. iðnrh. verður til umfjöllunar seinna í dag.

Ég vil ljúka máli mínu með því að segja að ég tel þjóðlendufrv. sem við erum að fjalla um afar jákvætt og ég styð það heils hugar. Að vísu er ég eins og þingheimur veit andsnúin hugmyndinni um að sveitarfélögin fari með skipulags- og byggingarvaldið á miðhálendinu. Sveitarfélagafrv. er gallað að því leyti og ég er með fyrirvara við frv. hæstv. iðnrh. um nýtingu og eignarhald á auðlindum í jörðu.