Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 14:39:09 (3480)

1998-02-05 14:39:09# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[14:39]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Í tilefni af ræðu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur langar mig til þess að beina til hennar nokkrum spurningum.

Kynnti hæstv. félmrh. ekki þingflokki Framsfl. þær breytingar sem hann hyggst óska eftir við félmn. að hún geri á bráðabirgðaákvæðinu í frv. ráðherrans til breytinga á sveitarstjórnarlögum?

Það hefur áður komið fram hjá hv. þm. að hún er þeirrar skoðunar í sambandi við skipulagsmál hálendisins sem hún rökstuddi vel og tilgreindi áðan. Við það tilefni kom fram hjá hæstv. félmrh. að hún var ein um þessa skoðun í þingflokki Framsfl. Það fullyrti hæstv. félmrh. Af því tilefni vil ég spyrja hv. þm. hvort ekki sé rétt að fleiri þingmenn Framsfl. en hún hafi á þingflokksfundi tjáð sig hafa fyrirvara um þetta atriði í frv. hæstv. félmrh. og sagst í stórum dráttum vera sammála hv. þm. um afstöðu hennar í skipulagsmálum hálendisins.