Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 14:45:23 (3484)

1998-02-05 14:45:23# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[14:45]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum frv. til laga sem felur í sér að ríkið er að slá eign sinni á allt hálendi Íslands, þ.e. hvorki meira né minna en 40% af landinu. Því er mikilvægt að mínu mati að skoða þróun eignarhalds hér á landi. Við landnám þegar landið var numið í upphafi, var það numið af einstaklingum og í upphafi var landið algerlega í eigu einstaklinga sem námu landið eftir ákveðnum reglum. Síðan var lagður á skattur, eignarskattur, tíundin, sem ásamt aflátssölu og erfðum fluttu hluta af þessum eignum til kirkjunnar, ekki til ríkisins. Ákveðin kirkjuvæðing var á eignunum. Við siðbótina verður aftur flutningur á þessum eignum frá kirkjunni til kóngsins, þ.e. ríkisins.

Á öldinni sem er að líða hafa orðið miklar breytingar á eignum. Við erum að sjá eignir sem ekki eru lengur áþreifanlegar, en þær eignir sem áður voru til voru allar áþreifanlegar. Það var sem sagt land, lifandi sauðfé og annar búpeningur og allt einhvern veginn áþreifanlegt. En eftir að leið á þá öld sem við lifum nú fara að myndast eignir sem eru óáþreifanlegar, t.d. verðbréf ýmiss konar sem eru ávísun á eignir og svo höfundaréttur og hugbúnaður og alls konar slíkt sem í vaxandi mæli er að koma upp.

Herra forseti. Nú er eignarhaldið að 1/3 í eigu einstaklinga. Allar eignir landsins eru að 1/3 í eigu einstaklinga, 2/3 eru í eigu ríkis, sveitarfélaga eða í einskis eigu. Það merkilega er að eignirnar í eigu einstaklinga eru hægt og bítandi fluttar til hins opinbera með eignarsköttum á 30--70 árum eftir því hvað eignarskattarnir hafa verið háir og svo eru þeir fluttir til sveitarfélaganna með fasteignagjöldum mjög myndarlega. Þetta virkar svipað og tíundin þannig að einstaklingseignin á stöðugt í vök að verjast.

Eignir opinberra aðila eru orkufyrirtækin, heilbrigðiskerfið, menntakerfið, skrifstofubyggingar o.s.frv. --- og hálendið, ef þetta frv. verður að lögum. Það er ómetið og kannski ómetanlegt. Það er spurning hvað t.d. Langjökull færi á ef einhver mætti kaupa hann og girða hann af og gera við hann hvað sem hann vildi sem sína prívateign.

Við höfum óljóst eignarhald á óáþreifanlegum eignum eins og lífeyrissjóðunum. Ég lagði fram brtt. þegar við ræddum um lífeyrissjóðina fyrir áramót um að þær eignir yrðu skilgreindar sem eignir sjóðfélaga, en það var því miður kolfellt. Það er því enn þá óljóst eignarhald á lífeyrissjóðunum, kaupfélögum, sparisjóðum og sjúkrasjóðum auk fjölda annarra eigna eins og samlaga. Hver á Mjólkursamsöluna í Reykjavík? Þetta eru óljósar eignir nákvæmlega eins og hálendið.

Herra forseti. Auðlindir geta myndast og þær geta horfið. Þegar takmarkaður var aðgangur að fiskveiðiheimildum myndaðist þar eign. Menn hafa verið að tala um að orka fallvatna sé líka ákveðin auðlind. Ég fullyrði að hún er verðlaus enn þá vegna þess að eftirspurnin eftir orku er minni en framboðið. Við eigum núna mjög mikla orku sem rennur engum til gagns til sjávar. Við höfum ekki getað virkjað hana vegna þess að eftirspurnin er engin jafnvel þótt hún væri ókeypis. Verð á orkunni myndast ekki fyrr en við fáum fleiri til að virkja en við höfum orku í boði. Sama gildir um útvarps- og sjónvarpsrásir. Þær hafa hækkað mikið í verðgildi undanfarið en kunna að lækka í verðgildi þegar aðrir miðlar koma upp t.d. ljósleiðarar.

Herra forseti. Mér finnst mjög margir hv. þingmenn rugla saman þjóð og ríki og jafnvel landi, þjóð og ríki og einstaklingum. Við þekkjum ríki sem eru með margar þjóðir, ég nefni Belgíu sem dæmi. Ég er hræddur um að Íslendingar á liðnum öldum hefðu ekki sætt sig við að sett hefði verið samasemmerki milli íslensku þjóðarinnar og danska ríkisins. Og við þekkjum þjóðir sem eru í mörgum ríkjum, ég nefndi Kúrda sem dæmi. Þannig að það er engan veginn hægt að setja samasemmerki á milli þjóðar og ríkis nema kannski hér á landi sem stendur, þar sem ein þjóð myndar eitt ríki.

Samt er það svo að ríkið og einstaklingurinn er alls ekki sama fyrirbærið og ég ætla að biðja hv. þingmenn að setja sig í spor vesalings skattgreiðandans sem á við fulltrúa ríkisins, þ.e. fjmrh. Það er yfirleitt mjög ójafn leikur eins og hæstv. forsrh. hefur bent á. Ríki og þjóð er því alls ekki sami hluturinn. Þess vegna er það spurning hvort fyrirbæri sem hér er kallað þjóðlendur ætti ekki að heita ríkislendur eftir að þetta frv. hefur verið samþykkt. (Gripið fram í.)

Herra forseti. Í þessu frv. eins og víðast hvar annars staðar eru samskipti ríkis og borgara yfirleitt þeim seinni til óhagræðis. Í 9., 10. og 19. gr. er fjallað um það að menn þurfi að sanna eignarrétt sinn og menn eigi að gera það snöggt og vel og eigi aldeilis að vera vakandi. Ef þeir standa ekki við það, tapa þeir eignarrétti sínum. Það er getið um þriggja mánaða frest og sex mánaða frest. Það getur vel verið að menn séu jafnvel búsettir erlendis og viti ekkert af þessum ósköpum og lesi ekki Stjórnartíðindi. Mér finnst að milda þurfi þessi ákvæði og gera frestinn miklu lengri vegna þess að eignarrétturinn er verndaður í stjórnarskránni og á að hafa langtímavirkun.

Herra forseti. Það frv. sem við ræðum hér um er mesta ríkisvæðing frá siðbót. Þá voru verulegar eignir fluttar frá kirkjunni yfir til kóngsins. Hér er verið að flytja 40% af öllu Íslandi yfir til ríkisins. Eitthvað sem áður var einskismannsland og enginn átti er nú allt í einu orðið eign ríkisins. Þetta gerist til viðbótar því sem ég nefndi áðan að eignarskattar og fasteignagjöld hafa stöðugt verið að flytja eignir frá einstaklingum til ríkis og sveitarfélaga.

Margar spurningar vakna þegar frv. er lesið, t.d. hvað felst í því að íslenska ríkið er eigandi lands? Ef ég er eigandi lands eða eigandi bíls eða fasteignar get ég læst mínum bíl, ég get girt af mitt land og ég get lokað minni íbúð og það hefur enginn heimild til að koma þar inn. Gildir það sama um ríkið? Getur hæstv. forsrh. í framtíðinni lokað landinu? Getur hann læst því fyrir aðgangi annarra borgara? Þetta er algerlega óljóst og ég vildi gjarnan fá skýringu á þessu. Auðvitað koma inn í þetta skipulagslög en ríkið á oft og tíðum samskipti við sveitarfélög. Ríkið getur samið um það við sveitarfélagið að það fái einhverja umbun frá ríkinu en í staðinn megi ríkið loka t.d. Langjökli algerlega og girt hann af. Þetta er því mjög mikið mál og ég vildi gjarnan fá þetta skýrt.

Herra forseti. Ég mun ekki ræða um stjórnsýslu eða skipulagsforræði á þjóðlendum vegna þess að það er í öðru þingmáli. Ég vil þó benda á að það er verulega veigamikið. Og ég er ekki hrifinn af þeirri hugmynd að 5% þjóðarinnar fái skipulagsforræði yfir öllu hálendinu meðan 95% þurfa að hlíta því að þeir séu svo góðir við þá að leyfa þeim aðgang að því landi, vegna þess að með skipulagi má banna aðgang að landi.

Mikil þörf er á þessari lausn vegna þess að landið er áþreifanlegt. Menn ganga á landinu og koma þarf skikki á hver á landið. Má Jón Jónsson byggja sér hús uppi á hálendinu og reisa í kringum það girðingu eða hvað? Svo er ekki talið vera í dag. Þetta er einskismannsland og enginn getur rekið málið gegn honum. Þess vegna er mjög mikilvægt að koma einhverju skikki á þá eign, mjög mikið atriði, og að því leyti samþykki ég þá lausn sem hér hefur verið fundin. En það eru aðrar eignir sem eru eigendalausar og ekki síður mikilvægt að finna eiganda að. Það er það sem ég hef nefnt ,,fé án hirðis``. Það eru, eins og ég nefndi áðan, lífeyrissjóðir, mjólkursamlög, sparisjóðir og sjúkrasjóðir og fjöldinn allur af öðrum sjóðum sem eru með óáþreifanlegar eignir, en mjög mikilvægt er að komast að því hver á þessar eignir. Ég mundi vilja skora á hæstv. forsrh. að vinna að því að finna eigendur að öllum eignum í landinu, hvort sem það er ríkið, sveitarfélög, einstaklingar eða fyrirtæki einstaklinga.

Þar sem við erum að stunda hér gífurlega ríkisvæðingu af illri nauðsyn, finnst mér mjög brýnt að einkavæðingu sé hraðað á móti og legg ég til að bankar verði allir seldir hið hraðasta, Póstur og sími og gjarnan Landsvirkjun og fleiri góð fyrirtæki.

Herra forseti. Hvernig gætum við leyst vandann með hálendið öðruvísi? Ég hef lagt til í þáltill. að skoða þann kost að skipta veiðiheimildum sjávar á alla landsmenn og það er til umræðu núna í hv. sjútvn. Í þessu tilfelli sé ég ekki að sú lausn gangi upp vegna eðlis eignarinnar. Hvernig geta allir Íslendingar átt hlut t.d. í Langjökli? Ég sé það ekki ganga upp þannig að ég held að þetta sé illskásta lausnin á þessu vandamáli, sem mjög brýnt er að finna lausn á, og ég styð þar af leiðandi þetta frv.