Niðurstaða atkvæðagreiðslu um afbrigði

Mánudaginn 09. febrúar 1998, kl. 18:30:06 (3556)

1998-02-09 18:30:06# 122. lþ. 62.93 fundur 207#B niðurstaða atkvæðagreiðslu um afbrigði# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur

[18:30]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Nú hefur það gerst að mikill minni hluti þingsins hefur fellt tillögu þess efnis að mál sem er mikilvægt fyrir þjóðarhagsmuni fái að koma á dagskrá og menn hafa sagt úr þessum ræðustól að þeir vilji að málið fái eðlilega málsmeðferð. Það er algerlega nauðsynlegt að þjóðin viti að sú málsmeðferð, sem mikill minni hluti þingsins hefur ákveðið, er ekki eðlileg. Hún er algerlega óeðlileg og reyndar óþekkt. Það er ekki venja, og þvert á móti gerist það einmitt aldrei, að neitað sé um afbrigði þannig að mál megi fást á dagskrá. Það eina sem felst í þessu er að tveir sólarhringar líða þar til brýnt mál fæst rætt í þingsölum. Hv. þingmenn, sem hefðu viljað fá meiri umræðu um málið, hefðu getað beitt sér gegn afbrigðum á síðari stigum máls ef þeir hefðu kosið. En þeir kjósa að tefja umræður um málið um tvo sólarhringa. Það væri vit í því að gera þetta ef þeir vissu að málið mundi leysast á meðan á þessum töfum stendur. Ef þeir hafa engar heimildir fyrir því og engar skoðanir á því, þá eru þeir að tefja lausn málsins og hafa af mönnum fé, sjómönnum sem þjóðinni allri. Ábyrgð þeirra er því gríðarlega mikil.