Niðurstaða atkvæðagreiðslu um afbrigði

Mánudaginn 09. febrúar 1998, kl. 18:46:52 (3565)

1998-02-09 18:46:52# 122. lþ. 62.93 fundur 207#B niðurstaða atkvæðagreiðslu um afbrigði# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur

[18:46]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Aðeins af því menn tala um eðlileg þingsköp og notkun þeirra og að veita ekki flýtimeðferð og undantekningar. Það er ekkert dæmi þess, svo að sérfræðingum hér sé kunnugt, að stjfrv. hafi áður í þingsögunni verið meinað að komast á dagskrá við 1. umr. (Gripið fram í.) Til þess hefur aldrei komið. En menn láta eins og við séum að biðja um einhverja algera sérmeðferð. Það hefur aldrei komið fyrir fyrr í sögunni ... (SvG: En þetta er nýtt ákvæði, forsrh.) Það hefur aldrei komið fyrir fyrr í sögunni ... (SvG: Þetta er nýtt ákvæði.) Það hefur þurft afbrigði, en það hefur aldrei komið fyrir í þingsögunni að stjfrv. hafi ekki fengið að koma til 1. umr. Svo tala menn eins og að við séum að biðja um eitthvað undarlegt en aðrir séu að halda uppi eðlilegri þingumræðu. Og svo byrja menn að draga í land, byrja að hlaupa til og segja: ,,Við vorum að vísu að ákveða að málið yrði að bíða í tvo daga. En við gætum kannski komið núna eitthvað smávegis ... Hleypt þessu af stað fyrr og þess háttar.`` Menn eru komnir með bakþanka eins og skot. (Gripið fram í: Nei.) Menn eru farnir að hafa áhyggjur af framferði sínu og framkomu. En þetta hefur aldrei gerst fyrr. Mönnum verður haldið í verkfalli af þessum ástæðum og stjórnarandstaðan ber ábyrgðina.