Niðurstaða atkvæðagreiðslu um afbrigði

Mánudaginn 09. febrúar 1998, kl. 18:51:19 (3568)

1998-02-09 18:51:19# 122. lþ. 62.93 fundur 207#B niðurstaða atkvæðagreiðslu um afbrigði# (aths. um störf þingsins), MF
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur

[18:51]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég heyrði þessi orð hjá hæstv. forsrh.: ,,Hér heldur stjórnarandstaðan mönnum í verkfalli.`` Ég hef hlustað á það þegar menn segja að tap þjóðarbúsins verði svo og svo mikið vegna þess að umræðan fer ekki fram fyrr en á miðvikudag. Við séum að halda sjómönnum í verkfalli. En það hefur enginn nefnt hvers vegna þeir eru í verkfalli. Það hefur enginn nefnt það af því hv. stjórnarliði sem hér hefur talað.

Við búum við ranga fiskveiðilöggjöf. Samningsbundin réttindi sjómanna og lögbundin hafa verið brotin æ ofan í æ. Þetta er í þriðja sinn síðan 1994 sem þeir fara í verkfall vegna þessa og tapi þjóðarbúið, sem það gerir í sjómannaverkfalli eins og reyndar alltaf þegar gripið er til þessa vopns sem enginn gerir nema út úr neyð, þá er það vegna þess að búið er að ganga á rétt þessarar stéttar í mjög langan tíma. Þeir eru búnir að reyna allt til þess að ná fram rétti sínum. Um þetta snýst málið. Við ætlum að taka þessa tvo daga í að skoða þetta og við ætlum að ræða þetta mál málefnalega þegar þar að kemur og það verður tekið á dagskrá.