Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Þriðjudaginn 10. febrúar 1998, kl. 14:40:40 (3587)

1998-02-10 14:40:40# 122. lþ. 63.1 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[14:40]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef ekki skoðað það sérstaklega hvort að færri stjórnmálaflokkar leiði til aukins fjölda þingmanna af kvenkyni. Það má þó hugsanlega vera. En það er alla vega alveg ljóst að eftir því sem kjördæmunum fækkar sjáum við á tölum að hlutur kvenna eykst.

Flestar konur koma frá Reykjavík og Reykjanesi inn á þingið. Við getum skoðað lönd eins og Bretland þar sem eru einmenningskjördæmi og aðeins einn þingmaður kemur úr hverju kjördæmi. Þar er hlutur kvenna alveg ótrúlega lágur. Það er alveg ótrúlegt.

Ég er sannfærð um að ef við gerðum landið að einu kjördæmi og sömu flokkar og nú eru byðu fram --- við getum skoðað t.d. Sjálfstfl. og Framsfl. Í Framsfl. eru þrjár konur á þingi, í Sjálfstfl. fjórar. Það er alveg öruggt að ef við byðum fram einn lista, t.d. í Framsfl., og næðum inn 15 þingmönnum, eins og við höfum í dag, þá væru örugglega ekki einungis þrjár konur í þeim 15 manna hópi. Það yrði aldrei stillt upp þannig á lista hjá okkur að einugis þrjár konur mundu skipa efstu 15 sætin. Hins vegar er ekkert víst ef landið væri eitt kjördæmi að flokkarnir myndu endilega stilla upp listum. Það má líka hugsa sér að listum yrði óraðað og það yrði eitthvað svipað og í Finnlandi þar sem persónuvalið er miklu sterkara. Það yrði þá bara stafrófsröð á listanum og kjósendur mundu velja sér sína fulltrúa beint. Það væri því eiginlega prófkjör í kjörklefanum. Ég er nokkuð sannfærð um að þannig mundum við líka fá fleiri en þrjár konur í 15 manna þingmannahópi.