Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Þriðjudaginn 10. febrúar 1998, kl. 14:44:31 (3589)

1998-02-10 14:44:31# 122. lþ. 63.1 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[14:44]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég held ég geti bara fallist á þá röksemdafærslu, að ef stjórnmálaflokkarnir væru færri og þeir mundu raða upp sjálfir þannig að fleiri kæmu þá inn af hverjum lista og ef forsendurnar væru þær að þeir mundu raða upp sjálfir, þá býst ég við að það mundi auka hlut kvenna með sömu rökum og að ef landið væri eitt kjördæmi þá kæmu fleiri konur inn.

En varðandi það að við erum með stjórnmálaflokka eins og Sjálfstfl. sem fær inn marga af lista í ákveðnu kjördæmi, t.d. í Reykjanesi, en það skilar samt ekki konum inn þar, því þar er einungis ein kona í þeirra þingmannahópi, þá þurfum við líka að skoða að inn í það blandast hvernig raðað er upp á listann. Prófkjör eru mjög mikið notuð hjá Sjálfstfl. og almennt séð virðist það vera niðurstaðan að konur koma illa út úr prófkjörum. Það eru til undantekningar og sú sem hér stendur er ákveðin undantekning frá því. En almennt séð koma konur illa út úr prófkjörum. Við getum bara skoðað nýjustu fréttir varðandi t.d. prófkjör A-flokkanna í Reykjanesbæ. Þar eru karlmenn í fjórum efstu sætunum. Það er því ekki endilega bundið við Sjálfstfl. að konur koma oft illa út úr prófkjörum, en ég vona svo sannarlega að jafnréttið sé að ná það langt að konur fái betri hlut í gegnum prófkjörin líka. En það kostar mikla peninga að fara í gegnum prófkjör og konur virðast yfirleitt ekki hafa úr eins miklum fjármunum að spila í því sambandi og karlmenn. Því miður.