Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Þriðjudaginn 10. febrúar 1998, kl. 15:11:31 (3596)

1998-02-10 15:11:31# 122. lþ. 63.1 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[15:11]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir það sjónarmið sem fram hefur komið hjá mörgum hv. þm., nú síðast hv. þm. Guðnýju Guðbjörnsdóttur og hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, að það er mikilvægt að ríkisstjórn og Alþingi setji sér framkvæmdaáætlun um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Þetta setur þrýsting á stjórnvöld og skapar nauðsynlega umræðu í þjóðfélaginu og hefur gert allar götur frá því þáv. hæstv. félmrh., Svavar Gestsson, hafði forgöngu um fyrstu jafnréttisáætlun af þessu tagi í byrjun síðasta áratugar.

Ýmis nýmæli eru í þessari jafnréttisáætlun sem ég tel vera mjög jákvæð og þá ber þar fyrst að nefna að nú er unnið út frá þeirri grundvallarstefnu að öll stefnumótun á vegum hins opinbera taki mið af jafnrétti kynjanna. Hér segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Ríkisstjórnin mun vinna að því að jafnréttissjónarmið verði samþætt allri opinberri stefnumótun og ákvarðanatöku. Samþætting krefst þess að jafnrétti kynjanna sé meðvitað haft í huga við alla áætlanagerð. Allir sem koma að stefnumótun og ákvarðanatöku þurfa því að hafa þekkingu á jafnréttismálum.``

Þetta er fráhvarf frá þeirri hugsun sem áður var við lýði, að líta á jafnréttismál sem afmarkaðan málaflokk. Nú þurfi hins vegar að taka jafnréttismálin inn í alla umræðu. Og í samræmi við þetta er síðan hverju ráðuneyti falið að vinna að tilteknum verkefnum á málasviði sínu.

Mikilvægast af öllu tel ég vera það sem fram kemur í verkefnum félmrn. og lýtur að þessari samþættingu því að á gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar ætlar ráðuneytið að sjá til þess að komið verði á reglubundnu mati á stjórnarfrumvörpum með tilliti til jafnréttis kynjanna. Jafnréttisumsögn verði gerð og látin fylgja stjórnarfrumvörpum við framlagningu þeirra á Alþingi.

Ég vil taka undir það sem fram kom í máli hv. þm. Guðnýjar Guðbjörnsdóttur, að ekki er nóg að gera áætlun. Það þarf líka að fylgja slíkri áætlun eftir og að það er mikilvægt að félmrn. beiti sér fyrir slíkri úttekt. Krafa þar að lútandi hefur komið frá fleirri hv. þingmönnum sem hafa tjáð sig um þetta mál í þessari umræðu.

[15:15]

Í áætluninni er að finna ýmsar góðar fyrirætlanir sem margar hverjar eru þó mjög opnar. Það á að gera rannsóknir á ýmsum sviðum. Það á að kanna efnahagsleg völd kvenna og karla og hvar þau liggja í íslensku þjóðfélagi. Það á að gera margvíslegar kannanir og úttektir á vegum fjmrn. á t.d. starfsmannastefnu og áhrifunum af henni. Það á að kanna áhrif nýs launakerfis á launamun karla og kvenna.

Það er bara einn hængur á þessu öllu saman. Á sama tíma og hæstv. ríkisstjórn kemur fram með áætlun af þessu tagi og fyrirheit af þessu tagi, gerir hún allt til þess að loka á upplýsingar um þessi efni. Stéttarfélögin eru nú með herskara lögfræðinga til að reyna að koma í veg fyrir að sama fjmrn. og segist hér ætla að beita sér fyrir athugunum og könnunum, loki þessum sömu launakerfum og á að rannsaka. Það er staðreynd málsins. Þess vegna leyfi ég mér að fagna sérstaklega því sem kemur fram á bls. 2 í greinargerðinni þar sem segir að ríkisstjórnin ætli að skipa nefnd sem verði falið að kanna hvort og með hvaða hætti opinber stefnumótun taki mið af jafnrétti kynjanna. En ég leyfi mér stórlega að efast um að hún geri það í öllum grundvallaratriðum. Hér eru ýmis góð fyrirheit. En þegar farið er að skoða raunverulegar gerðir þessarar ríkisstjórnar og hvaða áhrif þær hafa á stöðu kynjanna er allt annað upp á teningnum.

Ég held að ákveðin áherslubreyting hafi átt sér stað í jafnréttisumræðunni á síðustu árum. Í upphafi síðasta áratugar þegar róttæk kvennasjónarmið komu til sögunnar var iðulega sagt: ,,Fellum valdastólana. Það mun gagnast jafnréttisbaráttunni best að skapa þjóðfélag með breyttum viðhorfum, breyttri grundvallarhugsun.`` Nú í seinni tíð eru áherslur aðrar. Nú er áherslan að komast í valdastólana. En þá vill gleymast sá munur sem verður á háum og lágum, láglaunafólki og hálaunafólki. Ofuráhersla lögð á hitt að jafnmargar konur og karlar sitji í stjórn fyrirtækja og stofnana og jafnmargar konur og karlar séu í nefndum og ráðum. Og það skiptir máli. Það skiptir máli að jafnræði sé með kynjunum í stjórn fyrirtækja, stofnana og í nefndum. Það skiptir máli. Og þetta hefur komið fram í máli hv. þingmanna sem hafa tjáð sig um þessi efni í dag. Það skiptir miklu máli. Ég er ekki að gera lítið úr því.

En mér finnst grundvallaratriði að spyrja: Hvað er að gerast þegar litið er á hinar breiðu láglaunastéttir kvenna annars vegar og hálaunastéttir hins vegar? Þar er munurinn að aukast. Eða er það í anda framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar um jafnrétti kynja að bjóða út skúringar í skólum? Er verið að bæta hlut kvenna sem starfa við slík störf með slíkum útboðum? Eru þær breytingar sem verið er að gera á launakerfunum til þess fallnar að bæta stöðu láglaunakvenna? Ég held nú síður. En við fáum ekki upplýsingar um það vegna þess að sama ríkisstjórn og talar hér um upplýsingu lokar á upplýsingar. Ég held að við þurfum að fá nánari upplýsingar og umræðu um þessi efni og ég mun koma að því í seinni ræðu minni við þessa umræðu.