Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Þriðjudaginn 10. febrúar 1998, kl. 16:12:34 (3603)

1998-02-10 16:12:34# 122. lþ. 63.1 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[16:12]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Í fyrri ræðu minni lagði ég áherslu á mikilvægi samþættingar og að hér skorti bæði pólitískan vilja, fræðslu, fjármagn og stofnanir til eftirfylgni til að sú stefna komist í framkvæmd. Ég tel því að í raun þurfi ný jafnréttislög með mun sterkari stofnunum sem sjá um eftirfylgni og tilheyrandi fjármagn. Ég vil því nota tækifærið og spyrja hæstv. félmrh. hvort þessi ríkisstjórn fyrirhugar að setja fram ný jafnréttislög á kjörtímabilinu.

Áður en ég kem aftur að málefnum einstakra ráðuneyta vil ég ítreka að það er ótrúlegt þegar litið er yfir núgildandi jafnréttislög hvað hægt miðar samanber t.d. 2. gr. sem er um jafna möguleika til atvinnu og launa, 3. gr. um jákvæða mismunun sem er mjög lítið notuð hér, 4. gr. um jöfn laun fyrir sambærileg störf, 10. gr. um jafnrétti og jafnréttisfræðslu sem lagt er til í skólum, 11. gr. um auglýsingar sem oft eru brotnar, þ.e. jafnrétti í auglýsingum og 12. gr. um jafnrétti kynjanna í nefndum og ráðum ríkisins. Þessar greinar eru meira og minna þverbrotnar og hefur það verið gert í 20 ár.

[16:15]

Kaflinn um viðurlög í núgildandi lögum er allt of veikur þó að ljóst sé af 22. gr. að þeir sem brjóta lögin eru skaðabótaskyldir. Að óbreyttum lögum virðist því nauðsynlegt að nota dómstólana meira en tíðkast hefur hérlendis, eitthvað í ætt við það sem t.d. er í Bandaríkjunum.

Á undanförnum dögum hafa komið fram sláandi upplýsingar, t.d. varðandi launamun kynjanna og á ég þar einkum og sér í lagi við verkakonur og afgreiðslufólk. Þar virðist tímakaup kvenna hreinlega vera æ lægra hlutfall af tímakaupi karla. Þó hafa einnig komið fram góðar fréttir og þar vil ég nefna nýfallinn hæstaréttardóm vegna fæðingarorlofs feðra. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra, fyrst hann er viðstaddur, hvaða áhrif hann telur að hinn nýfallni dómur hafi á fæðingarorlof feðra í þjóðfélaginu. Mun þetta ýta við ríkisstjórninni til að breyta lögunum þannig að bæði kynin fái sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs og meira en þær tvær vikur sem hingað til hafa fengist?

Herra forseti. Næst kem ég stuttlega að einstökum ráðuneytum. Ég byrja á forsrn. Í lið 1.2. virðist mér klórað í bakkann varðandi jafnrétti og upplýsingaþjóðfélagið. Ég vona svo sannarlega að þarna takist betur til en gerðist við mótun núverandi stefnu ríkisstjórnarinnar. Sú stefna var mótuð af nefnd sem í voru að mig minnir átján karlar og tvær konur.

Í kaflanum um félmrn. fagna ég sérstaklega liðum 3.1, 3.2 og 3.15 sem fjalla um jafnréttisumsögn, fræðslu um jafnréttismál og um aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni. Þetta eru allt mál sem kvennalistakonur hafa flutt sérstök frumvörp um á Alþingi og ég tek það svo að þetta sé vísbending um að ríkisstjórnin ætli að styðja þessi mál og hleypa þeim í gegnum þingið. En ég spyr þá einnig: Hvenær hefst t.d. framkvæmdin á lið 3.1? Þessi áætlun á að taka gildi frá byrjun árs 1998 og ég vildi gjarnan sjá að stjfrv. væru greind þannig að fram komi áhrif þeirra á bæði kyn.

Þá vil ég sérstaklega nefna eitt atriði enn og það er úr fjmrn. Þar eru mörg áhugaverð verkefni en ég sakna sérstaklega eins hinna mikilvægari, það getur hugsanlega tengst lið 3.1, en það er að sjálft fjárlagafrv. sé kyngreint. Þar sé greint hversu mikið fjármagn af fjárlögum ríkisins fer til sérþarfa, atvinnumála og þátta er tengjast konum annars vegar og körlum hins vegar. Þetta hefur verið reynt sums staðar í nágrannalöndunum og t.d. í Suður-Afríku. Ég vildi mjög gjarnan spyrja hvort eitthvað standi til að gera í þeim efnum.

Herra forseti. Tíminn er stuttur. Ég ætla ekki að fjalla frekar um einstök verkefni en vil að lokum taka undir það sem hér hefur komið fram um ofurkonuna. Það er rétt að þessi grein um ofurkonuna sem birtist í dagblaði hefur vakið mikla umræðu meðal íslenskra kvenna. Kannski tengist hún að einhverju leyti bakþönkum þeim sem fram komu í ræðu hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur áðan.

Ég fór sjálf að taka þátt í stjórnmálum vegna þess að ég vildi að þjóðfélagið breyttist í takt við það að bæði kynin eru úti á vinnumarkaðnum. Þetta hefur verið erfið breyting. Margt hefur breyst til batnaðar, t.d. í dagvistarmálum og skólamálum frá því árið 1980, þegar ég fór að fylgjast með þessu, þó enn sé margt óleyst. Samt virðist ljóst að til þess að árangur náist þarf margar konur í valdastóla. Það þarf þennan ,,krítiska massa`` kvenna eins og núv. borgarstjóri, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefur orðað það. Þá má loks búast við að átak eigi sér stað.

Þessi ríkisstjórn með einn kvenráðherra er að mínu mati alls ekki trúverðug í jafnréttismálum þó að vissulega sé mikilvægt að karlmenn sinni jafnréttismálum eins og hæstv. félmrh. hefur lýst. Reynslan sýnir því miður að karlmenn hafa ekki sama áhuga á þessum málum. Ég bind þó vissulega vonir við unga karla og t.d. starf karlanefndarinnar en hún hefur verið kröftug rödd í jafnréttisumræðunni að undanförnu. En ég vil þó, hæstv. forseti, leyfa mér að láta í ljós þá skoðun að ég tel að það hafi verið mikil einföldun hjá starfsmanni karlanefndarinnar að fæðingarorlof til karla mundi leysa ofurkvennavandann. Vissulega er það mikilvægt að karlmenn taki strax þátt í uppeldi barna sinna en ég er hrædd um að meira þurfi að koma til. Aðalmálið er að núverandi ríkisstjórn átti sig á að það er ekki nóg að hafa áhugasama femókrata í ráðuneytum. (Gripið fram í: Hvað er það?) Það þarf kvenstjórnmálamenn þannig að jafnræði ríki í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar. Þá fyrst er hægt að gera ráð fyrir því að jafnrétti verði, jafnt á forsendum kvenna og karla.