Afturköllun stjórnarfrumvarps um bann við verkföllum sjómanna

Miðvikudaginn 11. febrúar 1998, kl. 13:55:02 (3647)

1998-02-11 13:55:02# 122. lþ. 64.91 fundur 210#B afturköllun stjórnarfrumvarps um bann við verkföllum sjómanna# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[13:55]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það er auðvitað sérstakt ánægjuefni hvað stjórnarliðar hafa verið glaðir síðustu daga út af framgangi málsins, enda hefur lífsgleðin beinlínis skinið af ráðherrunum eins og sjá má undanfarna þrjá daga. Frumvarpið sem ríkisstjórnin lagði fram var hins vegar ekki ein grein heldur fimm greinar. Frumvarpið var ekki um að fresta verkfalli sjómanna heldur að banna það, afnema verkfallið. Ef vilji ríkisstjórnarinnar hefði náð fram að ganga hefði þetta frv. orðið að lögum á Alþingi milli hádegis og kl. eitt í gær, þremur, fjórum klukkutímum áður en sjómönnum gafst ráðrúm til að ganga frá því tilboði sem nú er að leysa deiluna. Það er því algerlega rangt að þetta frv. hafi orðið til þess.

Það eru líka rangar fullyrðingar bæði hæstv. forsrh. og annarra stjórnarsinna um að þetta sé eitthvað sérstakt sem gerðist í atkvæðagreiðslu um afbrigði. Þetta hefur tvívegis gerst áður í tíð núverandi þingforseta, að afbrigði hafi verið felld fyrir málum. Það hefur margoft gerst áður fyrir 1991, að stjórnarandstaða greiði atkvæði gegn tillögu um afbrigði vegna flýtimeðferðar máls hjá ríkisstjórn. Það bara nægði ekki til á þeim tíma því að það þurfti einfaldan meiri hluta hjá ríkisstjórn til að knýja slíkt fram. Breytingin var gerð árið 1991 til að koma í veg fyrir að ríkisstjórn gæti beitt slíku valdi á kostnað þingræðisins og um það voru allir sammála. Einn af flm. var hv. þm. Geir H. Haarde. Framsögumenn fyrir þessari tillögu um að styrkja þingræðið með þessum hætti voru hæstv. núv. utanrrh. og hæstv. núv. félmrh. hvor í sinni deild. Um þetta ákvæði var full samstaða og þeir sem mæltu fyrir því og studdu það á Alþingi gerðu að sjálfsögðu ráð fyrir því að til þess kynni að koma að því yrði beitt. Þarna var verið að styrkja þingræðið. Þingræðið hefur fengið sinn framgang og það er vel.