Aðgerðir vegna atvinnuleysis kvenna

Miðvikudaginn 11. febrúar 1998, kl. 14:57:12 (3673)

1998-02-11 14:57:12# 122. lþ. 64.4 fundur 412. mál: #A aðgerðir vegna atvinnuleysis kvenna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[14:57]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég get ekki sagt annað en að svar ráðherra við fsp. minni um hvort ráðherra telji ekki rétt að grípa til sértækra aðgerða vegna mikils atvinnuleysis kvenna, hafi valdið mér miklum vonbrigðum. Það stoðar lítt að benda á að til sé 20 millj. kr. sjóður til sérverkefna. Hann var líka til, herra forseti, 1993 þegar einnig var sett viðbótarframlag upp á 60 millj. vegna átaks í atvinnumálum kvenna. Það átak, þessi beinu framlög, skiluðu sér mjög vel beint til þeirra kvenna sem voru atvinnulausar. Þetta fór mikið til þess að fjölga störfum, aðhlynningar- og umönnunarstörfum ýmiss konar, og skilaði sér verulega til þess að bæta stöðu þeirra á vinnumarkaðnum, ekki í stuttan tíma heldur í langan tíma. Ég sé ekki að það að vísa í Lánatryggingasjóð kvenna sé endilega til þess fallið, þó að það sé gott með til þess að tryggja stöðu kvenna á vinnumarkaðnum, að við förum á næstu vikum og mánuðum að sjá lægri atvinnuleysistölur hjá konum. Það er auðvitað fráleitt að halda slíku fram. Og ég sé ekkert sérstakt í þeirri framkvæmdaáætlun sem við ræddum í gær sem mun skila sér á stuttum tíma þó svo að ef við horfum langt inn í framtíðna þá geti það einhvern tímann skilað sér.

En við erum að tala um hér og nú, herra forseti. Telur ráðherrann ekki að það þurfi að grípa til sértækra aðgerða hér og nú vegna stöðu kvenna sem hafa kannski verið mánuðum og árum saman atvinnulausar?

Það er mjög gott að það sé verið að skoða konur í VR sérstaklega og huga þar að sérstökum úrræðum fyrir þær. Ég held að það sé mjög gott. En það eru fleiri konur og það þarf að skoða þetta á miklu víðtækari hátt en hér hefur verið gert.

Ég vil spyrja að lokum hvort ráðherra hafi gert tilraun (Forseti hringir.) til þess í ríkisstjórn að fá sérstakt framlag til þess að slá á mikið atvinnuleysi kvenna? Hefur ráðherrann gert tilraun til þess? Það væri gott að fá það hér fram. Það mundi þá sýna vilja ráðherrans í verki.

En ef ráðherrann hefur ekki einu sinni reynt að fá stuðning ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) til slíks framlags þá veldur það mér miklum vonbrigðum og sýnir að hugur ráðherra stendur ekki eins mikið til þess að reyna að slá á atvinnuleysið og hann lætur í veðri vaka hér í ræðustól.