Réttur þeirra sem ekki hafa atvinnu

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 10:59:26 (3719)

1998-02-12 10:59:26# 122. lþ. 66.1 fundur 71. mál: #A réttur þeirra sem ekki hafa atvinnu# þál., Flm. SvG
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[10:59]

Flm. (Svavar Gestsson) (frh.):

Herra forseti. Hér kemur fyrir í annað sinn till. til þál. um rétt þeirra sem ekki hafa atvinnu. Það er ótrúlega lítið talað um það fólk hér í þessari stofnun. Þó eru þeir sem ekki hafa atvinnu mörg þúsund, 3--5 þús. manns búa við þær aðstæður að geta ekki selt vinnuafl sitt. Sumir halda því fram að það sé eðlilegt ástand að fjöldi fólks hafi ekki atvinnu. Veruleikinn er ekki sá að mínu mati. Veruleikinn er sá að það þjóðfélagskerfi sem við höfum kosið að búa við og engar tillögur eru uppi um að breyta í grundvallaratriðum, þ.e. markaðshagkerfið, hefur það í för með sér að fólk missir atvinnu.

[11:00]

Atvinnuleysið er að mínu mati ekki aðeins á ábyrgð þeirra sem verða atvinnulausir. Atvinnuleysið er á ábyrgð okkar allra. Þess vegna eigum við að reyna að búa eins vel og mögulegt er að fólki sem missir atvinnuna og er að leita sér að atvinnu. Það verður ekki gert með því einu að hafa sæmilegan Atvinnuleysistryggingasjóð, sem við höfum reyndar ekki lengur, heldur einnig með því að tryggja að hinir atvinnulausu búi við sömu mannréttindi og aðrir. Á því er verulegur skortur í mörgum tilvikum eins og menn kannast við.

Sú tillaga sem hér er flutt, og ég hafði að nokkru leyti lokið við að mæla fyrir á þriðjudaginn, er flutt af mér og hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur, Ögmundi Jónassyni og Guðmundi Árna Stefánssyni. Í henni eru í raun sex aðalefnisatriði sem nefnd skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka og vinnumarkaðarins mundi kanna:

1. Hvort þeir sem ekki hafa atvinnu njóti sömu mannréttinda og þeir sem hafa atvinnu og ef svo er ekki hvaða aðgerða sé þörf til úrbóta, bæði hvað varðar opinbera aðila og einkaaðila.

2. Hvernig unnt sé að tryggja að enginn verði atvinnulaus lengur en sex mánuði í senn.

3. Hvort líta megi á greiðslur til atvinnulausra sem laun fremur en bætur eins og nú er gert, enda verði nýtt fyrirkomulag ekki notað til að knýja fólk til vinnu sem það á erfitt með að sinna.

4. Hvort koma eigi upp miðstöðvum fólks í atvinnuleit um land allt með hliðsjón af þeirri reynslu sem fengist hefur í Reykjavík og á Akureyri.

5. Hvort unnt sé að draga verulega úr atvinnuleysi með því að skipta vinnunni jafnar og draga úr yfirvinnu.

6. Hvort unnt sé að ná um það víðtæku samkomulagi að afnema atvinnuleysi á tilteknu ára bili og tryggja það í lögum eða stjórnarskrá að allir eigi rétt á vinnu við hæfi.

Hér er í raun og veru hreyft mjög mikilvægum atriðum. Sum þeirra verða væntanlega að flokkast undir það sem kallað er róttækt, ekki síst það síðasta, þ.e. að kannað verði hvort hægt sé að ná víðtæku samkomulagi um að afnema atvinnuleysi á tilteknu árabili og tryggja það í lögum eða stjórnarskrá að allir eigi rétt á vinnu við hæfi.

Í greinargerðinni er farið nokkuð ítarlegar yfir þetta ákvæði og bent á að auðvitað geti það farið svo að fólk missi vinnuna af einhverjum ástæðum þegar fyrirtæki hætta eða þvílíkt gerist. Þá skapast sérstakar aðstæður. Við flm. gerum ráð fyrir því að við þær aðstæður sé ferli í samfélaginu sem opni fyrir það að allt verði gert sem unnt er til að tryggja hinum atvinnulausu atvinnu aftur, eins fljótt og mögulegt er. Þetta er á þeim forsendum að atvinnuleysið sé vandamál sem er á ábyrgð okkar allra.

Eins má segja ályktunina þar á undan róttæka og flókna í framkvæmd, þ.e. að draga úr atvinnuleysi með því að skipta vinnunni jafnar og draga úr yfirvinnu. Hugmyndir þessar eru mjög víða uppi, hafa lengi verið ræddar t.d. í Danmörku, að stytta vinnutímann kerfisbundið og flytja vinnuna til þeirra sem eru atvinnulausir. Í þeirri miklu atvinnuleysisbylgju sem nú er í Þýskalandi er þetta aðalkrafa hreyfingar atvinnulausra. Þeir krefjast ráðstafana í þessum efnum þannig að vinnutíminn hjá þeim sem hafa vinnu verði styttur svo að atvinnulausir fái atvinnu.

Ég held að það teljist einnig róttæk tillaga, og hefur örugglega aldrei verið hreyft hér á Alþingi fyrr, sem nefnd er í þriðja tölulið þessarar tillögu. Þar er lagt til að kannað verði hvort líta megi á greiðslur til atvinnulausra sem laun fremur en bætur eins og nú er gert enda verði nýtt fyrirkomulag ekki notað til að knýja fólk til vinnu sem það á erfitt með að sinna. Þessi mál hafa einnig verið til umræðu í grannlöndum okkar, t.d. í Þýskalandi nú að undanförnu. Í Frakklandi er einnig verið að ræða nákvæmlega þessa hugmynd. Í Danmörku hefur þessi hugmynd verið til umræðu, sennilega um tíu ára skeið. Þar er talað um það sem heitir ,,borgerløn``. Þau laun fengju allir og um þær hugmyndir eru mjög skiptar skoðanir í verkalýðshreyfingunni og víðar. Ég tel eðlilegt að þetta mál verði sett á dagskrá hér og knúið til umræðu. Af þessum ástæðum er tillagan flutt, herra forseti.

Vandi atvinnulausra vill gjarnan fara fram hjá fólki, ekki síst þegar góðæri og hagvöxtur virðast vera. Þá eru menn svo uppteknir af sjálfum sér og því að allt sé í góðu lagi hjá þeim sjálfum að þeir fást ekki til þess að taka á eða ræða vanda þess fólks sem er atvinnulaust. Það var dálítið sláandi í kosningabaráttunni í Bretlandi síðast að Verkamannaflokkurinn, sem vann þennan mikla og glæsilega kosningasigur, nefndi ekki vanda atvinnulausra í allri kosningabaráttunni fyrr en kirkjan sagði: Já en hér eru milljónir manna atvinnulausar, ætlið þið ekki að tala um það fólk? (Gripið fram í: Fyrirmyndarflokkurinn ...) Út af fyrir sig má vel segja að þar sé fyrirmyndarflokkur, ég skal ekkert um það segja. En þetta hlýtur að ýta við okkur svo við látum það ekki henda að þessi stóri þjóðfélagshópur sem býr við hræðilegar aðstæður, gleymist í hinni pólitísku umræðu. Pólitísk umræða sem ekki tekur á vanda þeirra sem við erfiðastar aðstæður búa, hvort sem það eru t.d. fatlaðir eða atvinnulausir, er umræða sem ég hef ekki mikinn áhuga á.

Fyrir hönd míns flokks, Alþýðubandalagsins, vil ég segja að ég tel að hann sé til þess að sinna vanda þess fólks sem hér er um að ræða, þeirra sem eiga erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér. Ég tel að við séum kosin á þing til þess að sinna vandamálum þessa fólks ekki síður en annarra. Í samræmi við það beittum við okkur fyrir því að þessi tillaga yrði flutt. Það er ánægjuefni að sjá að á tillögunni eru einstaklingar og þingmenn úr öðrum flokkum af því að þetta er mikilvæg tillaga. Atvinnulausir skipta líka máli þó rödd þeirra heyrist allt of sjaldan í þessari stofnun eða annars staðar í þjóðfélaginu.

Að lokum spyr ég hæstv. félmrh. hvort að hann sé ekki sammála mér um að eðlilegt væri að setja í gang sérstaka könnun á þeim þáttum sem nefndir eru hér í þáltill. Er hann mér ekki sammála um að eðlilegt væri að Alþingi hefði frumkvæði um að setja slíkt af stað? Ef ekki, mun hann þá gera það sem ráðherra þessa málaflokks? Ég tel að nauðsynlegt sé fyrir stjórnvöld, Alþingi og ríkisstjórn, að sinna þessum málum skipulega.

Herra forseti. Ég legg svo til að tillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umræðu og hv. félmn.