Réttur þeirra sem ekki hafa atvinnu

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 11:48:53 (3726)

1998-02-12 11:48:53# 122. lþ. 66.1 fundur 71. mál: #A réttur þeirra sem ekki hafa atvinnu# þál., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[11:48]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Í ræðu minni áðan skoraði ég á menn að beina sjónum sínum til einstaklinganna og þeirra vandamála sem þeir ættu við að stríða. Ég mótmæli því að það eigi nokkuð skylt við það hvort að ég sé stjórnarþingmaður eða stjórnarandstöðuþingmaður. Ég var að segja frá reynslu minni af vinnumarkaðnum gegnum áratugi, af reynslu minni þar og reynslu minni í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs. Við eigum að beina sjónum okkar að einstaklingunum sem eru í þeirri skelfilegu stöðu að geta ekki unnið.

Við höfum lengi vitað um það vandamál sem víða kemur fram að Atvinnuleysistryggingasjóður sé misnotaður. Ég þekki það hins vegar mjög vel að verkalýðsfélög taka mismunandi á því vandamáli. Alla tíð hefur það verið til mikillar fyrirmyndar hvernig Framsókn og Dagsbrún hér í Reykjavík hafa staðið að þeim málum. Þau hafa alltaf og ætíð gætt þess að að gera allt til að koma í veg fyrir það að sjóðurinn væri misnotaður. Árið 1955 þegar sjóðurinn var stofnaður var það baráttumál að hann væri fyrir fólk sem vildi vinna en fengi ekki að vinnu, ekki fyrir aðra. Skera átti úr á milli þess hvernig við ynnum að félagslegum vandamálum og hvernig við hjálpuðum fólki sem ekki fengi vinnu.

Ég var aðeins að benda á þetta. Ég ítreka það að ég þykist vita að við þurfum að beina sjónum okkar að því hvað valdi því að hjá okkar heilbrigðu þjóð séu að skapast þau viðhorf hjá allt of mörgum að þeir treysti sér ekki, af ýmsum ástæðum sem eflaust eiga sér skýringar, til að vinna. Við eigum að nálgast málin þannig og ég held að þannig getum við komið þessu fólki til hjálpar.