Réttur þeirra sem ekki hafa atvinnu

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 11:57:07 (3731)

1998-02-12 11:57:07# 122. lþ. 66.1 fundur 71. mál: #A réttur þeirra sem ekki hafa atvinnu# þál., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[11:57]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Ég misskildi ekki málið. Meðan hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson velti í ræðu sinni vöngum yfir þeirri miklu aukningu sem orðið hefði á örorku og talaði um 10% aukningu, vék hann máli sínu beint að hinni félagslegu örorku. Svo mikið var um þá örorku að hann hafði leitað sér upplýsinga hvernig á þessu stæði og ekki fengið nægilegar skýringar á því. Þannig kom ekki skýring á því hjá hv. þm. fyrr en nú, hvað hann ætti við þegar hann var að tala um félagslega örorku. Hann gerði áður engan greinarmun og lét í veðri vaka að þessi mikla aukning á öryrkjum hér á landi, hjá svo heilbrigðri þjóð sem Íslendingum, væri vegna félagslegrar örorku. En hins vegar hefur hann skýrt mál sitt þannig að nokkuð styttra er orðið á milli sjónarmiða okkar gagnvart örorku af völdum líkamlegs erfiðis.