Réttur þeirra sem ekki hafa atvinnu

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 12:28:59 (3739)

1998-02-12 12:28:59# 122. lþ. 66.1 fundur 71. mál: #A réttur þeirra sem ekki hafa atvinnu# þál., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[12:28]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég nota tækifærið til að bjóða hv. félmn. að koma og heimsækja Vinnumálastofnunina og kynna sér starfsemina þegar hún verður komin í það horf sem við ætlum henni að verða því að ég held það sé mjög mikilvægt og heppilegt að hv. félmn. fylgist með hvernig þessi nýju lög koma til með að virka.

[12:30]

Einn þátturinn var tekinn upp í þingmáli í fyrradag og varðaði það þegar ekknabætur eru látnar skerða atvinnuleysistryggingar. Það er óréttlátt og það verðum við að afnema.

Það eru reyndar fleiri smáatriði sem betur mega fara í atvinnuleysistryggingalögunum sem hafa komið í ljós með reynslunni og það er sjálfsagt að reyna að laga það.

Varðandi hugsunina um biðlaun þegar menn hafa misst vinnuna, þá er það að vissu leyti innifalið í löggjöfinni, þ.e. á fyrstu 10 vikunum eftir að viðkomandi missir vinnuna er búist við að hann reyni hjálparlaust að leita sér að vinnu. Ef það gengur ekki og hann ekki búinn að fá vinnu eftir 10 vikur er hugmyndin að (Forseti hringir.) hann fái aðstoð frá svæðisvinnumiðlun.

Að endingu, herra forseti, má út af fyrir sig segja að nokkurs konar biðlaun hafi verið í gangi undanfarna daga því að ég beitti mér fyrir því í góðu samstarfi og eftir ábendingu fyrirtækja í sjávarútvegi, að við borguðum atvinnuleysisbæturnar beint til fyrirtækjanna til að þau færu ekki að reka fólkið inn á atvinnuleysisskrá.