Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 14:55:51 (3770)

1998-02-12 14:55:51# 122. lþ. 66.6 fundur 441. mál: #A meðferð opinberra mála# (sektarinnheimta) frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[14:55]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Varðandi fyrstu spurningu hv. 13. þm. Reykv. er það að segja að hér er ekki um að ræða breytingar á refsingum og þau ákvæði stjórnarskrárinnar sem hv. þm. vitnaði til eiga því ekki við. Hér er því síður um skattamál að ræða og þau ákvæði í stjórnarskránni sem hv. þm. vitnaði til þar um eiga því heldur ekki við. Málið snýst um framkvæmd á innheimtu sekta sem búið er að leggja á lögum samkvæmt og þeim sem í hlut eiga er skylt að greiða. Innheimtuaðferðin er gerð skilvirkari í þeim tilgangi að ná að innheimta þessar sektir og tryggja að allir sitji við sama borð. Það gerist ekki ef innheimtuaðferðirnar eru of flóknar. Þá hrannast sektirnar upp og fyrnast. Því er óhjákvæmilegt að grípa til einfaldari innheimtuaðferða við minni sektir eins og hér er fjallað um. Um afturvirkni er ekki að ræða því hér er einvörðungu framkvæmdinni breytt en ekki refsingum.

Ég hef ekki við höndina hversu mörg mál hafa hrannast upp að þessu leyti en fyrir liggur að þau eru of mörg. Ef ég man rétt er fyrningarfresturinn þrjú ár þannig að við stöndum frammi fyrir vanda sem kallar á úrlausn.

Hv. þm. spurði hvort allar aðferðir hefðu verið nýttar, svo sem heimildir til aðfarar. Það sem við vekjum athygli á er að gildandi reglur um þessar smásektir eru of flóknar, tímafrekar og kostnaðarsamar. Þess vegna þarf að gera breytingar til einföldunar. Öðruvísi náum við ekki árangri í þessum málum.

Varðandi fyrirspurn hv. þm. um það hvort 30 daga fresturinn væri of skammur, þá er það ekki mitt mat. Ég tel að þessi mál þurfi að ganga greiðlega fyrir sig og þeir sem hér eiga hlut að máli fái eðlilegt svigrúm með þeim 30 daga fresti sem hér er gefinn. Það væri ekki skynsamlegt að hafa þann frest lengri.