Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 12. febrúar 1998, kl. 15:43:51 (3779)

1998-02-12 15:43:51# 122. lþ. 66.12 fundur 451. mál: #A almenn hegningarlög# (kynferðisbrot gegn börnum) frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[15:43]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Vegna fyrirspurnar hv. 13. þm. Reykv. get ég sagt að ég hef lesið þetta frv. nú undir umræðunni. Ég hef ekki skoðað efni þessara ákvæða þannig að ég geti tekið afstöðu til þeirra hér og nú, en vil gjarnan upplýsa að refsiréttarnefnd hefur skilað mér áliti varðandi endurskoðun á fyrningarákvæðum í hegningarlögum. Og mér sýnist að sú endurskoðun taki einnig til atriða sem 1. gr. þessa frv. fjallar um.

Ég get sagt frá því um þau viðfangsefni sem fjallað er um í 2. gr. frv. að ég óskaði eftir því við refsiréttarnefnd á sl. ári að þau yrðu tekin til endurskoðunar, m.a. í framhaldi af athugasemdum sem höfðu borist frá umboðsmanni barna. Þau mál eru því til umfjöllunar sérstaklega á vegum refsiréttarnefndar. En fyrningarákvæði, endurskoðun þeirra og tillögur um þau liggja núna fyrir og ég vænti þess að geta lagt það frv. mjög fljótlega fyrir Alþingi.