Uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi

Mánudaginn 16. febrúar 1998, kl. 17:16:34 (3888)

1998-02-16 17:16:34# 122. lþ. 68.92 fundur 220#B uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi# (umræður utan dagskrár), fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 122. lþ.

[17:16]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nokkrum fyrirspurnum hv. þm. held ég að best sé að svara strax.

Í fyrsta lagi var spurt hvers vegna fjmrh. hefði ekki synjað um endurupptöku fjárnáms. Spurningin er alveg út í bláinn. Málið snerist um það hvort viðkomandi aðili átti rétt á því að færa greiðslur til og bréf fjmrn. er alveg skýrt í þeim efnum. Sýslumanni er falið að kanna þann rétt. Hvergi er minnst á fjárnám eða endurupptöku fjárnáms. Þetta er svarið við fyrstu tveimur spurningunum.

Í þriðja lagi var spurt, ef ég hef skilið það rétt: Er eðlilegt að svo langur tími líði frá fjárnámi til uppboðs? Ég tek undir það að mér finnst óeðlilega langur tími líða hjá sýslumanninum frá því að málið byrjaði þar til að loks er efnt til gjaldþrotaskipta.

Í fjórða lagi er spurt: Af hverju var ekki beðið um frestun á uppboðinu? Ég hef líka spurt að því. Fyrirmælin til sýslumannsins voru eingöngu þau að bjóða ekki bréfin til fullnustu skattkröfunni. Ég get alveg spurt að því eins og hv. þm.: Hvers vegna bað sýslumaðurinn ekki um frest þegar þessi mál komu upp með þessum hætti? Hann hafði umboð til þess. Hann gat gert það. Hann er hagsmunaaðili ríkissjóðs og allra þeirra aðila sem þarna koma að verki. (SvG: Hvers vegna ... á þessari stundu?) Ég get ekki svarað því. Ég kaus fyrst og fremst að fjalla í máli mínu um ávirðingar í garð fjmrn. Ég tel mig hafa gert það. Ég hef hins vegar ekki farið yfir aðgerðir sýslumannsins í þessu efni.

Að síðustu, virðulegi forseti, þá er ég sammála hv. þm. um að það er ekki hægt að skilja svona við þetta mál. Þingið verður að taka afstöðu til málsins með einum eða öðrum hætti, eins og einhvern tíma hefði verið sagt. Ég held að best færi á því að gera það með því að leita til óvilhallra lögfræðinga. Síðan getur þingnefnd farið yfir málið. Það finnst mér alveg sjálfsagt. En það er ekki hægt að skilja við málið eins og það er nú.