Uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi

Mánudaginn 16. febrúar 1998, kl. 18:40:37 (3908)

1998-02-16 18:40:37# 122. lþ. 68.92 fundur 220#B uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi# (umræður utan dagskrár), fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 122. lþ.

[18:40]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bað um orðið áður en síðasta setning hv. þm. var sögð því að hún lýsir nákvæmlega því sem hér á sér stað. Við skulum ekki gleyma því að það var sýslumaðurinn sem tók ákvörðun um að færa sektina fram fyrir með rökstuðningi. Það sem fjmrh. sagði við sýslumanninn var ósköp einfaldlega þetta: ,,Ef maðurinn á rétt á því þá verður þú að fara að því en annars ekki.`` Eftir að það hafði gerst og eftir að fjmrn. hafði fengið upplýsingar um það hvers virði bréfin voru var alveg ljóst, sýslumanninum eins og okkur öllum, að tilgangslaust var fyrir fjmrn. að bjóða í bréfin til þess að verja skattkröfuna. Það breytir hins vegar ekki því að sýslumaðurinn hafði að sjálfsögðu umboð til þess að grípa til annarra aðgerða, eins og t.d. að fresta uppboðinu, fresta sölunni. Það hefur enginn deilt um það. Fjmrn. svaraði eingöngu þeirri spurningu hvort það ætti að bjóða í bréfin upp í skattkröfuna og það var auðvitað út í bláinn að eignast bréfin upp í skattkröfuna, gjörsamlega út í bláinn. Og þegar talað er um mistök ríkisins í þessu sambandi, þá getur auðvitað vel verið að sýslumaðurinn eigi við sjálfan sig. ,,Ég er ríkið`` sagði einhvern tíma einhver. Það getur vel verið að hann eigi við sjálfan sig. En ég andmæli því algerlega að það sé á ábyrgð fjmrn. Ég tel að sýslumaðurinn fari mjög einkennilega að þegar hann sakar fjmrn. um að hafa ekki staðið sig og segir að þeir hafi ekki mætt þegar hann veit að ekki er hægt að láta uppboðið fara fram nema gerðarbeiðandi sé viðstaddur og hann er samkvæmt lögum fulltrúi ráðuneytisins. Það sjá náttúrlega allir að málsvörn af þessu tagi stenst ekki og það veit ég að hv. þm. veit nákvæmlega jafn vel og ég.