Samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 14:22:38 (3918)

1998-02-17 14:22:38# 122. lþ. 69.92 fundur 235#B samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda# (umræður utan dagskrár), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[14:22]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingflokkur jafnaðarmanna óskaði eftir umræðu utan dagskrár við forseta sl. fimmtudagskvöld að hún færi fram sl. föstudag, eftir atvikum á mánudag eða í dag. Það var rökrétt miðað við fyrri umfjöllun að þingflokkur jafnaðarmanna kallaði eftir svörum ráðherra á Alþingi í kjölfar frétta um nýjar upplýsingar í málinu. Ég ætla að leiðrétta ráðherra að það var Stöð 2 sem byrjaði umfjöllun um þetta mál. Þeirri umfjöllun var reyndar fylgt eftir af fjölmörgum blaða- og tímaritsgreinum og í kjölfar þess vakti Margrét Frímannsdóttir athygli á málinu í utandagskrárumræðu á þinginu. Sú umræða hafði sín áhrif og tveimur dögum síðar setti ráðherra rannsókn í gang.

Umræða og gagnrýni er sem betur fer oftast til góðs, samanber þá utandagskrárumræðu, en ráðherrann hefur valið það í ræðu sinni, og hafa væntanlega fleiri orðið undrandi á ræðu ráðherrans en ég, að snúa utandagskrárumræðunni í umræðu gegn formanni þingflokks jafnaðarmanna. Það er allt í lagi, ég er tilbúin til þess. Ég hlýt að koma síðar í umræðunni með mitt innlegg. Ráðherrann drepur umræðunni á dreif með því að snúa henni upp í spurningar til annarra. Hann gerir athugasemdir við hvernig utandagskrárumræðuna bar að. Þingflokkur jafnaðarmanna biður oftast nær um umræður utan dagskrár sem leitað er eftir við forseta og tilkynnir síðan hver tekur umræðuna. Það gerðum við líka núna. Sú sem stendur hér braut ekki þingsköp og mun ræða þá ásökun við forseta síðar. Sú sem stendur hér talaði ekki við fjölmiðla og sú sem stendur hér talaði reyndar ekki fyrr en á laugardag við ráðherrana enda er það oftast nær það sem gert þegar búið er að ganga frá viðkomandi degi við forsetann.

Ráðherrann nefnir það að fyrir ári hafi eins konar aðför að sér hafist með skrifum varaþingmanns Alþfl. Það er fráleitt að kenna Alþfl. um þá miklu fjölmiðlaumfjöllun, virðulegi forseti, sem hefur átt sér stað. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti, ég veit að andsvari mínu er lokið en ég vil vekja athygli á því að það var veist mjög harkalega að formanni þingflokks jafnaðarmanna í ræðu ráðherra. (Forseti hringir.) Það var dapurlegt, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) að hlusta á ráðherra búa til samsæri gegn sér og búa til hliðstæðu við annað meint samsæri sem hann gefur til kynna að Alþfl. hafi átt aðild að.