Samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 16:39:24 (3941)

1998-02-17 16:39:24# 122. lþ. 69.92 fundur 235#B samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda# (umræður utan dagskrár), SighB
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[16:39]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Sumir stjórnarsinnar, en þó ekki allir, hafa haldið því fram í umræðunni að hún sé að einhverju leyti óeðlileg. Svo er ekki. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sem vakti þessa umræðu flutti mál sitt með mjög efnislegum rökum, veittist ekki að einum eða neinum, síst hæstv. dómsmrh. og óskaði eftir svörum við spurningum sem hann hafði afhent dómsmrh. í morgun. Við málflutning hans var ekkert óeðlilegt eða óæskilegt. Svar hæstv. ráðherra var hins vegar á allt öðrum nótum. Hann eyddi helmingi ræðutíma síns í aðdróttanir að tilteknum hópi þingmanna, lét í veðri vaka að umfjöllun fjölmiðla á undanförnum vikum og missirum um mál tengd fíkniefnaheiminum væru samsæri tveggja alþýðuflokksmanna, eins þingmanns og eins varaþingmanns. Með öðrum orðum, lét í ljós þá furðulegu skoðun að þessir tveir einstaklingar með hjálp þess þriðja hefðu stjórnað allri fjölmiðlaumfjöllun um málið sem hefur verið í öllum blöðum og í öllum ljósvakamiðlum um langa hríð. Þetta væri allt saman samsæri nokkurra þingmanna Alþfl. Við þingmenn Alþfl. erum þá orðnir áhrifamiklir, fyrst við erum farnir að stjórna allri fjölmiðlaumfjöllun í landinu og jafnvel hið volduga Morgunblað hlaupi eftir fyrirskipunum frá einum þingmanni og einum varaþingmanni. Alþfl. í umfjöllun sinni um málið. Mikið er veldi okkar orðið. Finnst hæstv. dómsmrh. virkilega eitthvað óeðlilegt við það eins og þetta mál er vaxið að fjölmiðlar hafi fjallað um það? Er það ekki skylda fjölmiðla að leita frétta af málsatvikum eins og þeim sem hafa komið upp, segja fréttir af þeim, skrifa um þau fréttaskýringar og fjalla um þessa atburði með öðrum hætti? Er það samsæri? Á ég að trúa því að fyrrv. ritstjóri dagblaðs telji að ritstjórar dagblaða, fréttastjórar ljósvakamiðla og aðrir slíkir sem hafa fjallað um málið, séu þátttakendur í samsæri alþýðuflokksmanna sér til höfuðs? Hann hefur líka undrast að málið sé tekið upp á Alþingi. En hvað er óeðlilegt við það? Eini aðilinn sem Alþingi getur rætt við um þessi mál er hæstv. dómsmrh., æðsti yfirmaður löggæslunnar í landinu. Við alþingismenn getum ekki snúið okkur til annars en hans með beiðni um upplýsingar og skýringar og það höfum við gert. Það er ekkert óeðlilegt við það, nákvæmlega ekkert óeðlilegt við það. Alvarlegasta ásökunin sem hefur komið fram í umræðunum er ekki ásökun frá þingmönnum jafnaðarmanna í garð hæstv. dómsmrh., því þær hafa engar verið, heldur aðeins spurningar og beiðni um skýringu. Alvarlegasta ásökunin sem komið hefur fram í þessum umræðum er ásökun hans sjálfs í garð okkar og þeirra annarra sem hafa fjallað um þetta mál þegar hann, eins og hann sagði í ræðu sinni áðan, lætur í veðri vaka að helstu bandamenn okkar í umfjölluninni séu eiturlyfjasalar, glæpamenn og undirheimalýður. Það séu þeir bandamenn sem við og ritstjórar fjölmiðla og fréttamenn hafi haft í málinu, helstu bandamenn okkar séu fíkniefnasalar, undirheimalýður og glæpamenn og sameiginlegt markmið okkar sé að rífa niður starfsemi lögreglunnar á Íslandi og að því er virðist mannorð hans sjálfs, þótt við höfum ekki mælt til hans öfugt orð í umræðunni.

Er óeðlilegt að fjallað sé um þessi mál, virðulegi forseti, sem hafa verið í fréttum undanfarin missiri? Það hefur komið fram og verið viðurkennt að margdæmdum fíkniefnasala og fíkniefnaneytanda hafi verið sleppt við hálfa refsingu. Það hefur komið fram að þessi einstaklingur var ekki látinn afplána uppkveðinn dóm á reynslutíma, jafnvel þótt hann hafi brotið skilorð. Það hefur komið fram að gagnvart þessum einstaklingi hafa tvö alvarleg brotamál ekki verið rannsökuð til fulls og gögn hafa týnst.

[16:45]

Finnst mönnum óeðlilegt að um þetta mál sé fjallað? Telja menn það samsæri að fjalla um slík tíðindi? Til viðbótar hefur nýlega komið fram að í fórum lögreglu hafi fíkniefni glatast og loks að nauðsyn hafi þótt til þess að endurskipuleggja fíkniefnalögregluna og starfsemi hennar vegna alvarlegra ágalla sem á málinu hafi verið. Er það virkilega samsæri í augum hæstv. ráðherra að fjalla um þessi mál? Er þetta niðurstaða af samsæri og er það samsæri fjölmiðla, þingmanna jafnaðarmanna og glæpamanna til þess að hafa af honum æruna? Þetta er furðulegur málflutningur og honum ekki sæmandi.

Meðal þeirra nýju upplýsinga sem fram hafa komið er stytting á afplánun umrædds brotamanns. Hæstv. dómsmrh. sagði um það mál á Alþingi í mars á sl. ári orðrétt, með leyfi forseta: ,,... að óheimilt er með öllu og refsivert af hálfu lögreglu ... að semja um að menn geti sloppið við viðurlög ...`` Með öðrum orðum, það eru engar lagalegar forsendur fyrir að gera slíka samninga. Slíkt er óheimilt og refsivert. Þetta eru orð hæstv. ráðherra sjálfs sem hann mælti á Alþingi í mars. Engu að síður hefur komið fram að lögreglumenn sem fóru með rannsókn þessa tiltekna fíkniefnamáls óskuðu eftir því við dómsmrh. að hann staðfesti slíkan samning um að menn gætu ekki sloppið við viðurlög heldur að menn fengju reynslulausn eftir að hafa afplánað helming refsitíma. Það er upplýst að slíkt samkomulag var gert og var borið undir dómsmrh. til staðfestingar. Það er líka upplýst að lögreglumennirnir sem hlut áttu að máli töldu árið 1991 að þetta samkomulag hefði verið staðfest af þáv. dómsmrh. og það er líka upplýst að málið var þá sent til fullnustumatsnefndar til endurúrskurðar. Þetta er upplýst og menn skoða þetta að sjálfsögu í ljósi þess sem hæstv. ráðherra sagði sjálfur, að óheimilt væri og refsivert að gera slíkt samkomulag.

Hæstv. dómsmrh. sagði að í ljósi nýrra upplýsinga hefði fullnustumatsnefnd endurskoðað ákvörðun sína. Hann sagði það áðan og ég dreg ekki í efa að það sé rétt. Ég ítreka því spurningu mína sem ég spurði hann fyrr í þessari umræðu: Í ljósi hvaða nýju upplýsinga? Var það, hæstv. dómsmrh., í ljósi þeirra nýju upplýsinga að samkomulag hefði verið gert við umræddan brotamann af hálfu lögreglu, sem aðilar máls stóðu a.m.k. í þeirri trú að hefði verið staðfest af dómsmrh., að samið hefði verið um að hleypa hinum dæmda brotamanni úr fangelsi eftir að hafa afplánað helming refsingar sinnar? Hvaða nýju upplýsingar voru þetta, hæstv. dómsmrh., sem urðu til þess að fullnustumatsnefnd breytti afstöðu sinni? Hæstv. ráðherra sagði sjálfur og las upp bréf um það áðan að þessi breyting hefði gerst í ljósi nýrra upplýsinga. Voru þetta nýju upplýsingarnar? Ef ekki, hvaða nýju upplýsingar voru þá lagðar fyrir nefndina? Í öðru lagi: Hver lagði þær upplýsingar fyrir nefndina? Hver lagði hinar nýju upplýsingar fyrir nefndina? Þær nýju upplýsingar sem byggðust á samkomulagi sem hæstv. ráðherra upplýsti okkur um í mars sl. að væru óheimilar og refsiverðar.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að sjálfsögðu að hæstv. dómsmrh. svari þessum spurningum, svo og þeim öðrum spurningum sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson lagði fyrir hann en hann af einhverjum ástæðum lét hjá líða að svara í ræðu sinni í dag. Þar á meðal var spurning frá hv. þm. hvort ráðherra hafi haft persónuleg afskipti af því að þessum upplýsingum var komið á framfæri. Einnig var spurning frá hv. þm. um hvort starfsmaður ráðuneytisins hafi setið í fullnustumatsnefnd á þessum tíma og átt þátt í báðum ákvörðunum, bæði þeirri fyrri og þeirri seinni, og ekki síst á hvaða lagaheimild hafi verið byggt þegar þetta samkomulag var gert við hinn dæmda brotamann. Það er alveg ljóst, ráðherra hefur sagt það sjálfur, að slíkt samkomulag var gert, eða a.m.k. hafi aðilar málsins staðið í þeirri trú og þar á meðal lögreglumennirnir að samkomulagið væri til staðar. Á hvaða lagaheimildum, virðulegi ráðherra, byggðist það samkomulag? Eða er hæstv. ráðherra ekki enn þeirrar skoðunar að slíkt samkomulag, miðað við óbreyttan lagaramma, hafi verið óheimilt með öllu og jafnvel refsivert?

Ekki má skilja orð mín svo, virðulegi forseti, að ég sé að draga í efa að óhefðbundnar starfsaðferðir lögreglu þurfi til að ná tökum á jafnerfiðum málum og fíkniefnamálin eru. Sjálfsagt þarf þess og ég efa það ekki að slíkar aðferðir geti skilað árangri. En það stendur engu að síður sem hæstv. ráðherra segir. Samkvæmt gildandi lögum --- ef hann stendur við yfirlýsingu sína frá því í mars --- eru slíkar starfsaðferðir ólöglegar og jafnvel refsiverðar. Ég er alveg reiðubúinn til þess, og tel að aðrir þingmenn séu það líka, að gera þær breytingar sem gera þarf á lögum til að gera lögreglunni fært að stunda með eðlilegum hætti sína starfsemi í meðferð fíkniefnabrota, þannig að hæstv. ráðherra hafi þá lagaheimildir ef hann skortir þær nú til að setja reglur um þau efni.

Ég vísa því alfarið á bug að með þessum orðum eða umræðum sem hafa verið í dag séum við stjórnarandstæðingar að ráðast að lögreglunni eða að mannorði hæstv. ráðherra. Það er rangt. Við alþingismenn eigum einfaldlega engan annan aðila til að ræða við um þessi mál á Alþingi en hæstv. ráðherra sem er æðsti yfirmaður löggæslunnar. Og það að ræða við hæstv. ráðherra um þau mál og krefjast skýringa frá honum er ekki persónuleg árás á hann heldur sú eina aðferð sem löggjafarsamkundan hefur til að geta komið að slíkum málum og fengið upplýsingar. Hæstv. ráðherra ætti að hafa það hugfast að hér er ekki um að ræða neinar persónulegar árásir, hvað þá samsæri glæpagengis á Íslandi, þingmanna jafnaðarmanna og fjölmiðla, gegn honum persónulega. Það er hrein ,,paranoia`` að halda slíku fram.

Herra forseti. Það er aðeins einn maður sem hefur tekið svo til orða, í ljósi nýjustu frétta, að þegar þær komu fram hafi verið svartur dagur í sögu lögreglunnar á Íslandi eða lögreglustjóraembættisins í Reykjavík, svartur dagur í sögu þeirra. Það var hæstv. ráðherra sjálfur. Þannig að hafi einhver gagnrýnt lögregluna harkalega fyrir málsmeðferð hennar er það hæstv. ráðherra sjálfur, yfirmaður lögreglunnar sem tók þannig til orða að nýjustu fréttir væru svartur dagur í sögu löggæslu á Íslandi. Hver var þar að veitast að löggæsluyfirvöldum og gagnrýna þau harkalegar en nokkur annar þingmaður hefur gert í umræðum á þingi?