Samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 17:13:11 (3944)

1998-02-17 17:13:11# 122. lþ. 69.92 fundur 235#B samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda# (umræður utan dagskrár), HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[17:13]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Fíkniefnalaust Ísland árið 2002. Reykjavíkurborg og ríkisstjórn Íslands standa að því markmiði. Vel meinandi fólk. En þetta markmið er óraunhæft. Umræðan og málatilbúnaðurinn hér í dag hefur heldur ekki þokað okkur nær þessu markmiði. Hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir sagði áðan að þessi utandagskrárumræða snerist um reynslulausn Franklíns nokkurs Steiners. Það sannar mér enn þá frekar að tilgangurinn með umræðunni var ekki að taka upp baráttu gegn glæpamönnum sem eitra fyrir fólk. Hæstv. dómsmrh. svaraði þessu strax þannig að þrefinu um keisarans skegg hefði mátt ljúka, þegar eftir framsögu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar og svar ráðherra.

Herra forseti. Það er vaxandi vandamál hvernig fíkniefnin flæða yfir landið og hversu margir ánetjast þeim. Bannið við fíkniefnum hefur ekki dugað. Samt sem áður er eitrað fyrir ístöðulitlu fólki.

Lögreglan hefur undanfarna áratugi barist gegn útbreiðslunni og þróað starfsaðferðir með líkum hætti og gert hefur verið í öðrum löndum. Vissulega hafa duglegir menn valist til starfa á fíkniefnadeild lögreglunnar. Þeir hafa aflað sér margháttaðrar þekkingar, kynnt sér aðferðir meðal annarra þjóða, fært starfsaðferðirnar hingað heim og reyna að vinna eftir þeim við íslenskar aðstæður. Vafalaust má benda á einhverjar misfellur, mistök á undanförnum árum og áratugum í baráttu þeirra gegn fíkniefnaglæpum. Það er í raunni ekkert óeðlilegt. En afar margt hefur þeim samt tekist vel þó að vissulega hafi ekki tekist að útrýma fíkniefnum. Það fer heldur á hinn veginn. Hörmungar og óhamingja einstaklinga og fjölskyldna, hræðilega margra, tala sínu sorglega máli um þróun mála.

[17:15]

En hvað er til ráða? Hvað mundi hið háa Alþingi vilja leggja til mála gegn eitrinu og því að eitrað skuli fyrir fólki? Er það með því að taka heilan starfsdag til þess að ræða um nánast að segja smáatriði í samanburði við allan vandann sem fyrir liggur? Hví að efna til vaðals hér á hinu háa Alþingi um þetta? Er það rétt aðferð gagnvart þessari ógn að ráðast gegn þeim sem mest og best vinna gegn henni? Er það kappsmál nokkurs þingmanns að lögreglumenn segi unnvörpum upp störfum vegna þess að löggjafarvaldið, einstakir alþingismenn og jafnvel heilir þingflokkar taki þátt í slefburði götunnar gegn lögreglunni, dómsmrn. og ákæruvaldinu? Ég trúi því ekki.

Þref eins og hér hefur átt sér stað bjargar ekki börnum og unglingum frá því að ánetjast eiturefnum. Það er kjarni málsins og um það ættum við að ræða á hinu háa Alþingi. Hvernig getum við styrkt varnirnar gegn þessari vá?

Fáir hafa minnst á það hér í umræðunni að auðvitað ber allt þjóðfélagið ábyrgð og einnig uppalendur. Ekki veit ég hvort menn muna eftir þeirri hvössu krítík Spaugstofumanna um árið þegar þeir skilgreindu Íslendinga sem svo að hér á landi lyki ábyrgð foreldranna á börnum sínum við getnað.

Það mun aldrei takast, herra forseti, að draga úr neyslu eiturefna ef ábyrgir aðilar í þjóðfélaginu taka ekki höndum saman. Heilbrigði byggist á mörgum þáttum og ekki síst á samheldni í fjölskyldum. Ég vona að umræðan í dag hafi ekki valdið skaða og að mögulegt verði að byggja upp í beinu framhaldi. Ef unglingar hafa ekki verðug verkefni að fást við, ef þeir finna til tómleika, skorts á athygli eða umhyggju, þá verður með einhverjum hætti fyllt upp í það tóm. Það eru þau blessuð börn sem verða á vegi sölumanna dauðans. En þeir eru sjálfir ógæfumenn og vita ekki hvað þeir eru að gera. Einnig þeir eru hjálparþurfi og gegn öllum þessum vanda þurfum við að snúast af meiri ábyrgð en verið hefur í umræðunni í dag.