Almannatryggingar

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 18:33:53 (3965)

1998-02-17 18:33:53# 122. lþ. 69.2 fundur 459. mál: #A almannatryggingar# (endurgreiðsla sérfræðikostnaðar) frv., heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[18:33]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar. Í frv. er lagt til að við ákvæði til bráðabirgða í lögum um almannatryggingar bætist nýr töluliður þess efnis að Tryggingastofnun ríkisins verði heimilt að endurgreiða sjúklingum þeirra sérfræðinga sem verið hafa án samnings við stofnunina frá 1. september sl.

Sem kunnugt er fá sérfræðingar sem vinna læknisverk á læknastofum utan sjúkrastofnana annars vegar greitt frá sjúklingum og hins vegar frá Tryggingastofnun ríkisins. Um heildargreiðslur fyrir læknisverk fer samkvæmt samningi Læknafélags Reykjavíkur og Tryggingastofnunar ríkisins frá 7. mars 1996. Viðræður samningsaðila um endurskoðun á þeim samningi hafa staðið yfir með hléum allt síðasta ár, en samningar hafa enn ekki tekist. 1. júní 1997 tilkynntu nokkrir læknar að þeir mundu hætta störfum fyrir sjúkratryggingar frá og með 1. september 1997 og síðar hafa fleiri bæst í hópinn. Nú eru starfandi 73 sérfræðingar, einkum í skurðlæknisgreinum, sem ekki starfa samkvæmt samningi við Tryggingastofnun ríkisins, en starfandi sérfræðingar eru samtals um 400.

Í b-lið 36. gr. laga um almannatryggingar kemur fram að sjúkratryggingar skuli greiða nauðsynlegar rannsóknir og aðgerðir hjá sérfræðingum eða stofnunum sem Tryggingastofnun ríkisins hefur samning við. Greiðsluhlutdeild sjúklings er hins vegar ákveðin með reglugerð sem sett er með heimild í 2. mgr. 36. gr. almannatryggingarlaga.

Í samræmi við b-lið 36. gr. laga um almannatryggingar hefur sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins ekki greitt fyrir læknisverk sem unnin hafa verið af þeim sérfræðingum sem samkvæmt framansögðu hafa verið án samnings við stofnunina. Þeir sjúklingar sem leitað hafa til fyrrgreindra sérfræðinga hafa því þurft að greiða læknisverkin að fullu og hafa greiðslur verið samkvæmt ákvörðun sérfræðings í hverju tilviki.

Í frv. er lagt til að Tryggingastofnun ríkisins verði heimilt að endurgreiða sjúklingum, sem leita til sérfræðinga sem sagt hafa sig af samningi við Tryggingastofnun ríkisins, hlut sjúkratrygginga vegna þessara læknisverka. Ekki þykir þó rétt að láta ákvæðið ná til þeirra sérfræðinga sem kynnu að vilja starfa áfram án samnings við Tryggingastofnun ríkisins. Því er gert ráð fyrir að sjúklingar fái ekki endurgreiðslu fyrr en viðkomandi sérfræðingur hefur endurnýjað samning sinn við Tryggingastofnun ríkisins. Endurgreiðslur miðast við gjaldskrá 1. september 1997 samkvæmt samningi Tryggingastofnunar ríkisins og Læknafélags Reykjavíkur frá 7. mars 1996 þannig að Tryggingastofnun ríkisins greiði ávallt það sama og hún hefði greitt ef viðkomandi sérfræðingur hefði verið með samning við stofnunina.

Eins og ég vék að á undan hafa greiðslur verið í samræmi við ákvörðun sérfræðings hverju sinni. Því má gera ráð fyrir að greiðslur hafi í ýmsum tilvikum verið hærri en fyrrgreindur samningur gerði ráð fyrir. Ekki þykir þó fært að víkja frá þeirri meginreglu að fjárhæð greiðslna almannatrygginga sé ávallt í samræmi við stjórnvaldsákvörðun eða samning. Einnig má benda á að með því að hafa greiðslur mismunandi eftir því hvernig einstakir sérfræðingar hafa verðlagt þjónustu sína má segja að verið væri að gefa út óútfyllta ávísun á ríkissjóð.

Til þess að fá endurgreiðslu þarf sjúklingur að framvísa fullnægjandi reikningi. Samkvæmt kostnaðarmati fjárlagaskrifstofu fjmrn. er áætlað að þær endurgreiðslur geti numið um 30--50 millj. kr. Ég bendi hins vegar á að hér er um að ræða kostnað sem Tryggingastofnun ríkisins hefði greitt ef viðkomandi sérfræðingur hefði ekki sagt sig af samningi við Tryggingastofnun ríkisins og því ekki um að ræða neinn viðbótarkostnað miðað við það sem annars hefði verið.

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í upphafi máls míns hafa sjúklingar sem leitað hafa til þeirra sérfræðinga sem sagt hafa sig af samningi við Tryggingastofnun ríkisins þurft að greiða þjónustuna að fullu. Á sama tíma hefur Tryggingastofnun í raun sparað sér greiðslur á hluta sjúkratrygginga vegna slíkra læknisverka. Vegna þessara sérstöku aðstæðna tel ég nauðsynlegt að koma til móts við þá sjúklinga með því að veita Tryggingastofnun heimild til að endurgreiða hlut sjúkratrygginga, enda verður um tímabundið ástand að ræða þar til sérfræðingar endurnýja samning sinn við stofnunina.

Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að leggja til að frv. verði vísað til hv. heilbr.- og trn. og til 2. umr.