Almannatryggingar

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 19:15:17 (3978)

1998-02-17 19:15:17# 122. lþ. 69.2 fundur 459. mál: #A almannatryggingar# (endurgreiðsla sérfræðikostnaðar) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[19:15]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en mér finnst mikilvægt að svör komi frá hæstv. ráðherra sem varðar það umræðuefni sem hefur verið til umræðu hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Margréti Frímannsdóttur um þá sjúklinga sem hafa leitað til lækna sem ekki munu ná samningi við Tryggingastofnun ef þeir læknar verða einhverjir.

Samkvæmt almannatryggingalögum eru allir sjúkratryggðir sem eru með lögheimili hér á landi og samkvæmt sömu lögum eiga þeir sem þurfa að leita læknis rétt á greiðsluhlutdeild frá almannatryggingunum leiti þeir til lækna sem eru á samningi við Tryggingastofnun ríkisins. Með þessu frv. er verið að opna fyrir tryggingu eftir á, ef svo má að orði komast. Með þessu bráðabirgðaákvæði verður hluti sjúklings greiddur til baka til þeirra sjúklinga sem hafa verið svo heppnir að leita til lækna sem munu ná samningi aftur við Tryggingastofnun ríkisins. Það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að auðvitað er verið að mismuna þarna sjúklingum því að menn vita ekki fyrir fram hverjir munu ná samningum og stór hópur lækna, t.d. allir læknar í ákveðnum sérgreinum, voru ekki með samning við Tryggingastofnun ríkisins um tíma. Þeir sjúklingar höfðu því ekkert val. Þeir sem fara til læknis sem ekki nær samningi standa uppi með allan kostnaðinn. Ég óska eftir því við hæstv. ráðherra að hún hugleiði hvort þarna þurfi ekki að koma til móts við þá sjúklinga sem þurfa síðan að bera allan kostnað, sjúklinga sem gerðu ráð fyrir að tryggingaskilmálarnir giltu jafnt um þá sem aðra, því vissulega er það ákveðin óheppni að lenda á þannig lækni þótt ég viti að hæstv. ráðherra vilji ná samningum við alla eða sem flesta lækna.

Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra hafi íhugað að hún gæti t.d. komið til móts við þann hóp, ef hæstv. ráðherra er ekki tilbúin að fallast á að hlutur sjúklings hjá þessum hópi verði endurgreiddur eins og hjá þeim sem fara til lækna sem ná samningi, með því að breyta t.d. reglunum um endurgreiðslu vegna mikils læknis- og lyfjakostnaðar, reglum sem eru fyrir í Tryggingastofnun ríkisins sem reyndar miða við að hlutdeild Tryggingastofnunar sé greidd af þeim kostnaði, eða hvort hæstv. ráðherra sé tilbúin að breyta þeim reglum til að koma til móts við þá sjúklinga, því auðvitað er verið að mismuna sjúklingum gróflega ef ekki verður á einhvern hátt komið til móts við þá.

Mig langar líka til að spyrja hæstv. ráðherra hvort bráðabirgðaákvæði sem þetta sé ekki fordæmisgefandi þegar litið er til samningaumleitana og samningum við lækna í framtíðinni, þegar búið er að setja inn bráðabirgðaákvæði sem þetta. Hvort menn megi þá ekki gera ráð fyrir að það verði gripið til svipaðra úrræða í framtíðinni. Það er náttúrlega lögfræðilegt atriði en ég velti þeirri spurningu upp. En ég tel mjög mikilvægt að svar komi frá hæstv. ráðherra um það hvernig og hvort hún telji ekki eðlilegt að koma til móts við þessa sjúklinga sem samkvæmt þessu frv. munu ekki fá endurgreiddan sinn hlut af kostnaði vegna læknishjálpar.