Húshitunarkostnaður

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 14:30:26 (4013)

1998-02-18 14:30:26# 122. lþ. 70.4 fundur 424. mál: #A húshitunarkostnaður# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., ÓÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[14:30]

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Þessi umræða er orðin allgömul á Alþingi Íslendinga. Raunar hefur þróunin ávallt verið sú að ódýrustu hitaveiturnar hafa náð að lækka sig það verulega að þó hinar dýrari næðu einnig að lækka verð sitt, þá hefur mismunurinn eftir sem áður verið mjög mikill. En það þýðir ekki að horfa fram hjá því að einstök sveitarfélög verða að gera það upp við sig hvort þau vilji komast í þá aðstöðu að geta samið um raforkuverð eða ekki. Lykillinn að því væru t.d. kyndistöðvar þar sem aðstaða væri til að kynda með kolum, enda er það langódýrasti orkugjafinn. Þegar Landsvirkjun sér fram á að engin viðskipti verði, nema á eðlilegu verði, þá lækka þeir sig. Það hefur ávallt verið gert, annaðhvort með því að hækka framlög ríkisins til niðurgreiðslna eða þá að þeir hafi lækkað raforkurverðið. Miðað við þær hengingarólar sem menn eru búnir að setja á sig um að menga minna, yrðu sennilega greiddir háir styrkir fyrir að hætta með kolin og leiðrétta þetta á nýjan leik.

Það er því grundvallaratriði að sveitarfélögin velti því fyrir sér að taka upp mengunarvaldandi kyndingu á þessum stöðum svo hægt sé að ná kostnaðinum niður.