Bifreiðakaupastyrkir fyrir hreyfihamlaða

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 15:26:12 (4036)

1998-02-18 15:26:12# 122. lþ. 70.8 fundur 461. mál: #A bifreiðakaupastyrkir fyrir hreyfihamlaða# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[15:26]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem voru fleiri en spurningarnar, meira að segja kom svar við fyrirspurn sem ég hafði lagt fyrir ráðherrann fyrir þó nokkru síðan og þegar fengið svör við. En það sakar svo sem ekki að svara nógu oft.

Aftur á móti var ekki hægt að svara fyllilega þeirri spurningu sem ég beindi til ráðherrans. Engu að síður kemur fram í svari hæstv. ráðherra að árið 1996 voru synjanir tvöfalt fleiri en úthlutanir bifreiðastyrkja hreyfihamlaðra. Helmingi fleirum var synjað um styrkinn en fengu hann. Árið 1997 var nánast jafnmörgum sem fengu styrk synjað um styrkinn og sama er í ár. Þá er 385 styrkjum úthlutað en 348 synjað um styrkinn. Það segir okkur auðvitað að þessir styrkir eru of fáir.

Hæstv. ráðherra treysti sér ekki til að svara síðari fyrirspurn minni um hversu margir sem sóttu og hefðu átt rétt á hærri styrknum fengu lægri styrkinn vegna þess hvernig málum er háttað í Tryggingastofnun ríkisins og ég virði það svar. En ég veit að það eru þó nokkuð margir mikið fatlaðir einstaklingar sem hefðu átt rétt á hærri styrknum og hefðu fengið hann ef styrkirnir hefðu verið nógu margir, en fengu einungis lægri styrkinn.

Ég held að það sé rétt metið að ekki stenst lög að mismuna fólki eftir aldri eins og kom fram í fyrri ræðu minni og hjá hv. þm. Ástu B. Þorsteinsdóttur. Það stangast á við stjórnsýslulögin og jafnræðisregluna í stjórnarskránni. Ég tel því að hæstv. ráðherra verði að taka upp þessar reglur og gera þær réttlátari því að ég get ekki ímyndað mér að það sé hagur nokkurs og alls ekki ríkisins að vera að þrengja að þeim einstaklingum sem þurfa að leita aðstoðar, eins og þeirrar að fá bifreiðastyrki frá Tryggingastofnun vegna hreyfihömlunar. Það þarf að breyta þessum reglum þannig að þær verði sanngjarnar og að hægt verði að koma til móts við þá sem þurfa sannanlega slíkan stuðning.