Löggæsla í austurhluta Reykjavíkur

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 16:31:45 (4067)

1998-02-18 16:31:45# 122. lþ. 70.14 fundur 439. mál: #A löggæsla í austurhluta Reykjavíkur# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., GHall
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[16:31]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég deili áhyggjum mínum með hv. fyrirspyrjanda Svavari Gestssyni varðandi þetta mál. Í bréfi frá Árbæingum segir m.a., með leyfi forseta:

,,Við höfum undanfarna mánuði fundið fyrir vaxandi óróa og öryggisleysi meðal íbúa. Vímuefnaneysla ungmenna, svo og endurtekin atvik þar sem ofbeldi er beitt og spjöll unnin á einka- og almannaeignum eru orðin það áberandi að við svo búið má ekki láta standa.``

Herra forseti. Ég hjó eftir því að í máli hæstv. dómsmrh. að málið væri að hluta til leyst með því að hafa einn lögregluþjón til staðar í Árbæjarhverfi. Ég tel að þarna hafi ekki verið stigið verulega heillavænlegt skref fyrir íbúa í Árbæ. Ég tel nauðsynlegt að þarna verði sett upp stöð, sambærileg þeirri sem er í Breiðholti. Sú stöð var lögð niður fyrir skömmu en síðan tekin í notkun aftur. Lögreglumenn á lögreglustöðinni í Breiðholti unnu mjög gott verk og mörgum kom mjög á óvart að sú stöð skyldi lögð af um tíma. Ég treysti því að Árbæingar fái betri löggæslu og óskir þeirra verði að mestu uppfylltar.