Eignarhald á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 13:41:18 (4089)

1998-02-19 13:41:18# 122. lþ. 72.5 fundur 425. mál: #A eignarhald á auðlindum í jörðu# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[13:41]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér er til umræðu eitt af mörgum frumvörpum um skyld viðfangsefni. Samtals liggja fyrir svo mörg frumvörp og tillögur sem tengjast því hvernig fara skuli með sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar, gjaldtöku vegna afnota o.s.frv. að ekki er víst að maður hafi fullkomna yfirsýn yfir það allt. Það eru þó a.m.k. 10 þingmál sem liggja fyrir þinginu og koma inn á þetta svið.

Ég held að tvímælalaust sé ástæða til að fagna því hversu rækilega þessi mál eru komin á dagskrá. Margt bendir til að nú loksins megi vænta meiri árangurs í löggjöf um þessi mál en verið hefur hingað til. Til að nefna það helsta í þessum efnum minni ég á frv. um þjóðlendur, sem hæstv. forsrh. mælti fyrir og er vissulega hluti í heildarsamhenginu. Hér var áðan á dagskrá frv. um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu, stjfrv. sem hæstv. iðnrh. mælti fyrir. Síðan eru á dagskránni tvö frv. frá þingmönnum Alþfl. eða þingmönnum jafnaðarmanna. Áður hefur verið mælt fyrir tveimur þingmannafrv. um mjög skyld mál. Þar ber að nefna frv. hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar og fleiri þingmanna Alþb. og óháðra, frv. um jarðhitaréttindi og um orku fallvatna.

Þá er ótalið frv. um breytingu á stjórnarskipunarlögum sem hv. þm. Ragnar Arnalds er 1. flm. að og flytur ásamt okkur sex þingmönnum Alþb. og óháðra. Það frv. á sér tvímælalaust lengsta og merkasta sögu í þessum efnum. Það var, að stofni til, fyrst flutt af sama hv. flm. fyrir 32 árum og að því leyti er frumkvæði Alþb. og hv. þm. Ragnars Arnalds óumdeilt. Þar var fyrst lagt til að lögfesta og taka upp í stjórnarskrá almenn ákvæði um sameign þjóðarinnar á mikilvægustu auðlindum, verðmætum í sjó, á hafsbotni innan efnahagslögsögu, almenningum, afréttum og öðrum óbyggðum löndum utan heimalanda sem og námum í jörðu, orku í rennandi vatni og jarðhita neðan við 100 metra dýpi.

Hér lá einnig fyrir frv., flutt af þremur hv. þingmönnum þingflokks Kvennalistans um að nytjastofnar innan fullveldissvæðis Íslands yrðu lýstir sameign þjóðarinnar.

Þetta nefni ég, herra forseti, til að rifja það upp að hér erum við að tala um mjög mörg frumvörp sem öll tengjast.

[13:45]

Þá er enn þess að geta, herra forseti, að nokkuð hefur áunnist í þessum efnum og ég tel að ekki skuli gleyma því sem þegar hefur verið gert af hálfu löggjafans og það er hin merka löggjöf frá 1990 um sameign þjóðarinnar á auðlindum hafsbotnsins. Á 112. löggjafarþingi árið 1989 lögðu fjórir þingmenn Alþb. undir forustu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar fram frv. um eignarrétt íslenska ríkisins á auðlindum hafsbotnsins og voru það hv. þingmenn Hjörleifur Guttormsson, Geir Gunnarsson, Guðrún Helgadóttir og Ragnar Arnalds. Síðar á sama þingi var samhljóða samþykkt frv., nánast efnislega eins, en það kveður á um eins og segir í 1. gr. þeirra laga, með leyfi forseta:

,,Íslenska ríkið er eigandi allra auðlinda á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga og svo langt til hafs sem fullveldisréttur Íslands nær samkvæmt lögum, alþjóðasamningum eða samningum við einstök ríki.

Hugtakið auðlind samkvæmt lögum þessum tekur til allra ólífrænna og lífrænna auðlinda hafsbotnsins annarra en lifandi vera.``

Þetta var mjög merk lagasetning, herra forseti, og hefur kannski gleymst að geta hennar í samhengi við þau mál sem við erum að fjalla um. Auðvitað var stefnan að nokkru leyti mörkuð þarna með þessari samhljóða afgreiðslu Alþingis á lögunum um eignarrétt íslenska ríkisins á hafsbotninum. Ég lít svo á að það hljóti að vera í rökréttu og eðlilegu samhengi og framhaldi af því að við göngum sömuleiðis frá meðferð þessara mála hvað varðar sameiginlegar auðlindir á landi og í formi orku og náma í jörðu og annarra slíkra hluta.

Ég ætla að víkja betur að þeim frv. sem hv. þingmenn Alþfl. eða jafnaðarmanna flytja undir forustu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, það er málið sem nú er á dagskrá, á þskj. 750, um eignarhald á auðlindum í jörðu, og síðan um eignarhald á virkjunarrétti vatnsfalla og gjöld fyrir nýtingu á þessum auðlindum. Í þessu sambandi finnst mér tvennt vera mikilvægast og standa upp úr sem hin stóru pólitísku grundvallaratriði og reyndar á það við um öll þessi mál. Hið fyrra er spurningin um sameignina eða hin sameiginlegu réttindi versus einkaeignarréttinn. Hvar eru mörkin dregin í þessum efnum og hvernig er um þau búið? Hið síðara er spurningin um gjaldtöku fyrir þær auðlindir eða þau réttindi sem þarna eru skilgreind sem sameign. (SighB: Og umhverfismál.) Síðan er margt fleira sem lýtur að nýtingu þeirra í þágu þjóðarhagsmuna, hvernig því er fyrir komið og að sjálfsögðu umhverfishliðin á málunum. En mér finnst að pólitísku grundvallaratriðin, sem að einhverju leyti er verið að ræða eða takast á um, kristallast í þessu tvennu, þ.e. mismunandi nálgun hvað varðar annars vegar eignarréttinn eða sameignarhugtakið í þessum efnum og hversu víðtækt það skuli vera og það kom ágætlega fram í orðaskiptum áðan milli hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar og Sighvats Björgvinssonar annars vegar og hæstv. iðnrh. hins vegar og hins vegar er spurningin um gjaldtökuna.

Ef við lítum á fyrra hugtakið, sameignina, og hvernig því er fyrir komið er ljóst að í frv. þingmanna Alþb. og óháðra annars vegar og þingmanna jafnaðarmanna hins vegar er í raun og veru um mjög sambærilegar áherslur að ræða hvað það snertir. Ég held að enginn vafi sé á því að sameignarhugtakinu hefur að þessu leyti vaxið mjög stuðningur. Skilningur á því hefur aukist meðal þjóðarinnar að þessum undirstöðuauðlindum beri að skipa þannig að þau séu sameign, það sem ég kalla félagslega sameign þjóðarinnar og með þau skuli fara sem slík. Þar veldur að vísu vonbrigðum að frv. hæstv. iðnrh. nálgast þetta með talsvert öðrum hætti. Það gerir það eins og sjá má á 3. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Eignarlandi fylgir eignarréttur að auðlindum í jörðu, en í þjóðlendum eru auðlindir í jörðu eign íslenska ríkisins, nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn til þeirra.``

Þetta er að sjálfsögðu verulega önnur nálgun en sú sem við alþýðubandalagsmenn höfum viljað nota og þar má segja að frv. okkar og tillögur hafi gengið lengst eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson kom rækilega inn á.

Ef við lítum þá á síðara meginhugtakið í þessum efnum sem umdeilt er því að ég lít t.d. svo á að að nýta þetta í þágu þjóðarhagsmuna og vernda og varðveita auðlindirnar séu í sjálfu sér ekki umdeild mál þó að þau séu vissulega mikilsverð í þessu sambandi en bæði þetta með eignarhaldið og gjaldtökuna er umdeilt. Gjaldtakan er síðara stóra málið í þessu. Þá er búið þannig um þá hluti af hálfu okkar þingmanna Alþb. og óháðra að í þrennum tillögum eða frv. sem liggja fyrir þinginu er fjallað sambærilega um þau mál. Það er í fyrsta lagi í frv. til stjórnarskipunarlaga sem hv. þm. Ragnar Arnalds er 1. flm. að. Þar segir í 2. mgr., 1. gr., með leyfi forseta:

,,Heimilt er að ákveða að nýtendur auðlinda í sameign þjóðarinnar greiði hóflegt gjald er standi undir kostnaði við rannsóknir og stuðli að verndun auðlindanna og sjálfbærri nýtingu þeirra samkvæmt nánari ákvörðun í lögum.``

Þetta er að sjálfsögðu í samræmi við eðli þessa máls að um einföld og almenn ákvæði yrði að ræða sem kæmu inn í stjórnarskrá að þetta er orðað svona og að sjálfsögðu er síðan útfærslan og framkvæmdin viðfangsefni sérlaga.

Í frv. til laga um ráðstafanir í sjávarútvegsmálum sem við þrír þingmenn Alþb. og óháðra flytjum, sá sem hér talar, hv. þm. Ragnar Arnalds og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, á þskj. 330, er þetta nálgast með þeim hætti að inn í lögin um stjórn fiskveiða kæmi kafli hvað varðar þann þátt auðlindanýtingarinnar, þ.e. það sem snýr að nýtingu hinna lífrænu auðlinda hafsins. Eins og segir í 2. tölul. 5. gr. þess frv. verður greinin sjálfstæður kafli, IV. kafli, undir fyrirsögninni Eftirlits- og auðlindagjöld. Við 18. gr. laganna bættist ný málsgrein sem mundi orðast svo, með leyfi forseta:

,,Sjávarútvegsráðherra er í samráði við fjármálaráðherra rétt að leyfa, eftir samkomulagi við heildarsamtök sjávarútvegsins um tilhögun, gjaldtöku samkvæmt þessari grein, skv. 4.--6. gr. laga nr. 92/1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, svo og vegna mögulegrar þátttöku sjávarútvegsins í greiðslu kostnaðar vegna rannsóknar- og þróunarstofnana og starfsemi sem tengjast sjávarútvegi.``

Hér er málið sömuleiðis nálgast á sambærilegan hátt þannig að um einhvers konar samningsbundinn farveg milli heildarsamtaka í sjávarútvegi og ríkisvaldsins gæti orðið að ræða þar sem þessum gjaldtöku- og kostnaðarmálum hvað varðar rannsóknir, stjórnun og skipulagningu nýtingar sem og þróunarstarf í tengslum við þessa grein yrði fyrir komið. Inn í það kæmu þau gjöld sem fyrir eru, bæði eftirlitsgjöld, veiðieftirlitsgjöld, gjöld til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins og fleira af því tagi. Þannig mætti hugsa sér að um slíkan samningsbundinn farveg yrði að ræða en framkvæmdin yrði síðan að sjálfsögðu viðfangsefni sérlaga og ákvörðuð með lögum og öll gjaldtaka í þessu efni hlyti að sjálfsögðu að byggjast á útfærslu í lögum.

Að síðustu er svo tillaga okkar allra þingmanna Alþb. og óháðra sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir er 1. flutningsmaður að, um skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald. Þar er í málsgreinum komið inn á það hvernig nefndin skuli einmitt kanna ,,hvernig staðið skuli að gjaldtöku fyrir afnot af auðlindum í sameign þjóðarinnar með hliðsjón af þeim gjöldum sem fyrir eru`` og að nefndin skuli kanna ,,möguleika á að nota auðlindagjald til að tryggja að afrakstur sameiginlegra auðlinda skili sér á réttmætan hátt til þeirra er hagsmuna hafa að gæta. Um verði að ræða hóflegt gjald sem varið verði til að standa undir rannsóknum og til að stuðla að vernd og sjálfbærri nýtingu auðlindanna og réttlátri skiptingu afrakstursins, m.a. til að styrkja byggð um landið``. Þarna er sömuleiðis um sams konar nálgun að viðfangsefninu að ræða nema hvað hér er verið að leggja upp forsendur nefndarstarfs sem skilgreini viðfangsefnið, nálgist það þannig og skapi forsendur fyrir þeirri löggjöf á hverra grundvelli slík auðlindagjaldtaka yrði byggð.

Herra forseti. Ég tel engan vafa leika á því að við nálgun af þessu tagi er unnt að skapa víðtækan stuðning í samfélaginu. Á síðustu dögum hefur m.a. komið í ljós að sú hófsamlega stefna sem Alþb. hefur verið að móta sér á undanförnum mánuðum og missirum og birtist í öllum þessum þingmálum sem og samþykkt miðstjórnar okkar og ég hef verið að gera grein fyrir hér að nýtur mikils stuðnings. Þarna skilur hins vegar að nokkru leyti að áherslur okkar annars vegar og þær sem birtast í frv. hv. þingmanna jafnaðarmanna hins vegar. Þar vísa ég fyrst og fremst til þeirrar leiðsagnar eða vísunar sem er að finna í greinargerð með frv. um eignarhald á auðlindum í jörðu og um virkjunarréttinn enda er samkvæmt greinargerðunum meginmarkmið þeirra frv. tvíþætt. Annars vegar heildarlöggjöfin um eignarhaldið og hins vegar ákvæðin um gjaldtökuna. Ljóst er að það sem fyrst og fremst er ólíkt í þessum áherslum er sú vísan í greinargerðum frv. að smátt og smátt verði tekjuöflun á grundvelli slíkrar gjaldtöku að umtalsverðu fjáröflunartæki í höndum ríkisins til ráðstöfunar til annarra þarfa en þeirra sem tengjast sjálfum auðlindunum eða viðkomandi atvinnugreinum beint. Ég held að það sé ekki neinn misskilningur eða ósanngjarnt á nokkurn hátt að reyna að greina þetta svo að það er fyrst og fremst í þessu sem ágreiningurinn eða hvað menn vilja kalla það liggur. Það er a.m.k. þannig hvað ræðumann snertir að það sem ég geri fyrst og fremst ágreining um varðandi þessi frv. þingmanna jafnaðarmanna, sem eru að öðru leyti ágæt og að mörgu leyti mjög vel unnin og taka vel á þeim hlutanum sem snýr að þessu með eignarhaldið, enda munu þau einhver að stofni til vera unnin í tíð hv. 1. flm. í ráðuneyti með þeim liðsstyrk sem þar var til staðar til vinnu í þessum efnum, en þegar kemur hins vegar að þeirri framtíðarsýn sem liggur að baki hugmyndunum um gjaldtökuna þá er ég ekki sammála þeim áherslum. Það vil ég að sé alveg skýrt, herra forseti, og held að heppilegast sé að enginn ágreiningur standi um það.

Ég var og er og hef mjög lengi verið þeirrar skoðunar að það væri rétt og skynsamlegt að móta samræmda auðlindastefnu, hluti af hverri gæti verið hófleg gjaldtaka á forsendum auðlindanna, til að stjórna nýtingu og bera þann kostnað sem hið opinbera ber af forvöltun þessara auðlinda. Hinu gagnstæða er að vísu stundum haldið fram, jafnvel í leiðurum Morgunblaðsins, að ég hafi tekið sérstökum sinnaskiptum á síðustu dögum í þessum efnum en það er rangt. Ég get leitt fram skriflegar heimildir bæði úr bókum, ræðum og greinum því til sönnunar að mörg undanfarin ár hef ég einmitt verið talsmaður þeirrar stefnu að menn gerðu skýran greinarmun á þessu tvennu. Annars vegar gjaldtöku í formi einhvers konar auðlindagjaldtöku á forsendum auðlindanna sjálfra til að standa straum af stjórnun og nýtingu, rannsóknum og skynsamlegri forvöltun þeirra sem að sjálfsögðu er í þjóðarhag og hins vegar því hvort menn gerðu einhver slík gjöld á notendur þeirra að tekjustofni fyrir ríkið til óskyldra þarfa. Það er allt annar hlutur. Þar eru menn í raun og veru komnir að vatnaskilunum í málinu. Sjá menn þetta fyrir sér sem tekjuöflunartæki, skattstofn fyrir ríkið og í staðinn verði létt af öðrum sköttum eins og tekjusköttum á einstaklinga eða hagnað fyrirtækja eða annað því um líkt eða ekki? Ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég held að þetta eigi ekki að verða skattstofn. (Gripið fram í: Af hverju ekki?) Ég get rökstutt það fyrir hv. þm. ef það er í fyrsta skipti sem hv. þm. heyrir þessa hugsun og þá er ekki seinna vænna en að hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir fari að átta sig á því að fyrir þessu eru rök. (GGuðbj: Það eru þín rök fyrir þessu.) Fyrir því eru ærið gild rök, hv. þm. Síðan getur hv. þm. farið á mælendaskrá og við getum kannski rætt þetta þannig. Það er lítið eftir af ræðutíma mínum.

[14:00]

Ég er ekki stuðningsmaður sértækrar skattlagningar sem mundi beinast að einstökum atvinnugreinum. Ég held að skattur sem mundi lenda af langmestum þunga t.d. á sjávarútveginn, yrði ekki til blessunar fyrir þjóðarbúið. Ég sé ekki réttlæti í því fólgið, í verkaskiptu þjóðfélagi þar sem tilteknir aðilar annast tiltekna atvinnustarfsemi í þágu þjóðarbúsins meðan aðrir gera annað o.s.frv., að þeir beri sérstaka skatta umfram aðra. Ég held að hófsamleg nálgun af því tagi sem við leggjum til í okkar þingmálum, þingmenn Alþb. og óháðra, sé skynsamlegri og farsælli leið. Hún er líklegri til þess að um hana geti orðið breið samstaða. Reyndar hillir þegar undir það að í þjóðfélaginu verði farsæl málamiðlun sem leiði þessa miklu umræðu til lykta, deilu sem staðið hefur í þjóðfélaginu um árabil. Þar hefur tvímælalaust orðið jákvæð þróun, sameignarhugtakið er í sókn og vaxandi skilningur á að sameignarákvæði eigi að búa í löggjöf og stjórnarskrá jafnvel. Ég er einnig bjartsýnn á að í sjónmáli sé farsæl málamiðlun um gjaldtökuna sem komi til með að liggja nálægt tillögum okkar þingmanna Alþb.