Skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 17:05:35 (4132)

1998-02-19 17:05:35# 122. lþ. 72.8 fundur 465. mál: #A skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[17:05]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þarf nú sennilega meiri tíma heyrist mér en hér er til ráðstöfunar til að fara yfir þetta með gjöld og skatta með hv. þm. En reynum að taka aðeins eitt nærtækt dæmi. Það er veiðieftirlitsgjaldið sem lagt er á sjávarútveginn.

Ég held að enginn deili um að það er akkúrat gjald í skilningi skattaréttarins og sama skilningi og t.d. umboðsmaður Alþingis í sínum álitum sem hefur fjallað um álitamál af þessu tagi, leggur í það hugtak. Af hverju er það gjald en ekki skattur í skilningi skattaréttarins? Það er af því að það er kostun sjávarútvegsins sjálfs á tilteknum afmörkuðum þætti í hans þágu og gjaldtakan nemur bara því sem þar er á ferðinni. Gjaldið er lagt á sem nemur þeim kostnaði sem hlýst af veiðieftirlitinu og það er skilgreint, afmarkað, efnislegt fyrirbæri. Sjávarútvegurinn greiðir það og ekki meira. Það felst ekki nein heimild í því að íþyngja honum umfram það. Gjaldið er til að kosta þennan hlut en það er ekki tekjuöflunartæki fyrir ríkissjóð að öðru leyti til einhverra annarra óskyldra þarfa. Í þessu liggur munurinn í grundvallaratriðum. Auðlindagjald, sem er takmarkað afmarkað gjald til skilgreindra þarfa í þágu sjávarútvegsins eða verkefna í tengslum við hann og er afmarkað þannig, mundi standast þau skilyrði að vera kallað gjald. En stórfelld skattlagning í ríkissjóð sem færi til þess að lækka tekjuskatt einstaklinga á móti er skattur. Þetta verður hv. þm. að skilja. Þarna er grundvallarmunur á. Það er hér sem markalínan í þessu máli liggur, þ.e. hvort menn vilja fara út í skattlagninguna og að hún verði stórfelld, hún verði óskilgreind þannig að hún geti þess vegna farið hækkandi, verið mismunandi milli ára eftir því hvernig afkoma ríkissjóðs er o.s.frv. eða hvort um afmörkuð skilgreind gjaldtöku- eða kostunarverkefni er að ræða.

Tillagan er að öðru leyti, hv. þm., ekki óskýr. Hún er mjög skýr. Hún felur í sér tvennt: Nefndarskipan, opinbera nefnd í tiltekið verkefni og að (Forseti hringir.) hinu leyti ákveðinn ramma, ákveðna afmörkun á því sviði sem nefndin skal fjalla um. Auðvitað er ekki búið að svara öllu. Þá þyrfti enga nefnd í málið. Við hljótum að geta orðið sammála um það. Þess vegna þarf nefndarskipunina. Það þarf að vinna í þessu máli.