Hollustuhættir

Þriðjudaginn 24. febrúar 1998, kl. 14:54:32 (4170)

1998-02-24 14:54:32# 122. lþ. 74.9 fundur 194. mál: #A hollustuhættir# (heildarlög) frv., TIO
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 122. lþ.

[14:54]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, frsm. meiri hluta umhvn., hefur gert prýðilega grein fyrir brtt. meiri hlutans í yfirgripsmiklu erindi sínu fyrir skömmu. Það sem mig langar til þess að gera er að víkja að einni grein frv. þar sem ástæða er til að vekja athygli þingsins á atriði sem er ekki gerð brtt. um. Hér er um að ræða 12. gr. frv. þar sem er m.a. fjallað um heimildir sveitarfélaganna til að innheimta gjald af eftirlitsskyldri starfsemi.

Rétt er að geta þess að vegna þess hvernig háttað er eftirlitssvæðum sem skilgreind eru í 11. gr. frv. er ljóst að þessi svæði munu vera nokkuð ólík að innri gerð. Sum eru hrein þéttbýlissvæði, önnur eru svæði þar sem eru annars vegar nokkuð stórir þéttbýliskjarnar og hins vegar mikið dreifbýli og í þriðja lagi eru eftirlitssvæði sem eru nánast dreifbýlissvæði að mestu leyti. Á öllum þessum svæðum er að sjálfsögðu gert ráð fyrir að rekið verði sambærilegt heilbrigðiseftirlit, og í 12. gr. er tekið til þess hvernig gjaldskrár verði ákveðnar. Þar er sagt, með leyfi forseta:

,,Umhverfisráðherra, utanríkisráðherra á varnarsvæðum, setur, að fenginni umsögn Hollustuverndar ríkisins, hámarksgjaldskrá sem sveitarstjórnir geta innheimt eftir. Upphæðin skal byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði eru rökstudd sem ákvörðun gjalds við viðkomandi eftirlit byggist á. Gjaldið má ekki vera hærra en sá kostnaður.``

Ljóst er að möguleikar skapast á því að framkvæmd eftirlitsins samkvæmt frv. sem er til umræðu verði mismunandi dýr eftir því hvernig eftirlitssvæðin eru. Sú staða gæti komið upp að atvinnulífinu á einu eftirlitssvæði væri gert að greiða hærri gjöld en atvinnulífinu á öðrum svæðum. Ef tryggja ætti að sama gjaldskráin gilti alls staðar er ljóst að sá sem á að tryggja greiðslur á þeim kostnaði sem umfram hlýst yrði þá sveitarfélögin. Það eru þá möguleikar á því að þetta leiði annaðhvort til þess að atvinnulífinu verði mismunað eftir eftirlitssvæðum ellegar þá að sveitarstjórnunum verði mismunað eftir eftirlitssvæðum. Að sjálfsögðu eru bundnar vonir við að slíkt muni ekki gerast, og við athugun málsins komu ekki fram neinar ábendingar frá Sambandi ísl. sveitarfélaga um að hætta væri á að þetta gæti gerst. Ég tel að full ástæða sé til að taka mark á þessum ábendingum og gefa lögunum möguleika á að sýna sig en vil benda á það við þessa umræðu að þarna er ákveðin óvissa um gjöldin sem rétt er að fylgjast náið með ef frv. verður að lögum, og taka það þá til endurskoðunar ef í ljós kemur að atvinnulífið eða sveitarfélögin þurfa að standa undir mismunandi kostnaði í sambandi við eftirlitið sem gert er ráð fyrir í frv.

[15:00]

Að öðru leyti tel ég að ástæða sé til þess að benda á það í sambandi við álit minni hlutans að þar eru tilvitnanir í álitsgerð Halldórs Jónssonar að sumu leyti ekki miðaðar við tillögur sem komu fram eftir að álitið var gefið út. Ég vil í þessu sambandi sérstaklega minna á það sem stendur á bls. 8 í álitsgerð minni hlutans, en þar stendur, með leyfi forseta:

,,Eftir stendur því að tveir aðilar, sérstök úrskurðarnefnd og ráðherra, geta þurft að fjalla samtímis um efnisatriði sem varða eitt og sama málið þrátt fyrir viðleitni meiri hlutans til að greina þar á milli. Um þetta segir Halldór Jónsson hdl. í áliti sínu til umhverfisnefndar:

,,Það er annað sem vert er að nefna í þessu samhengi en það eru aðrar stjórnvaldsákvarðanir en um útgáfu starfsleyfis. Þar gerir frumvarpið ráð fyrir að öll mál hljóti afgreiðslu úrskurðarnefndarinnar. Það er því ekki ætlast til að úrskurðarnefndin láti þá tegund rekstrar, sem talin er í ofangreindu fylgiskjali, sig ekki varða.````

Það er rétt að geta þess að þetta álit er sett fram áður en brtt. meiri hlutans voru kynntar, þær sem hér liggja nú frammi. Í brtt. er einmitt gerð tilraun til þess að kveða skýrt á um það hverjir fari með útgáfu starfsleyfis og til hvers hún er kæranleg þannig að ég hygg að þessi tilvitnun eigi ekki við um þá brtt. sem hér liggur frammi af hálfu meiri hluta umhvn.

Að sjálfsögðu er það hlutverk minni hluta nefndarinnar að koma fram með alla þá gagnrýni sem skynsamleg og nauðsynleg er. Að vísu er ansi harður tónn í áliti minni hlutans og kannski ekki mikið við því að segja. Meira að segja er gengið svo langt að talað er um ávirðingar frv. Ávirðing þýðir í íslensku misgjörð þannig að frv. er sakað um misgjörðir. Það er jafnvel talað um meginávirðingar frv. Ég vil ekki sverja fyrir það að í þessu frv. sem og í öðrum gjörðum þingsins geti verið einhverjir gallar en þarna finnst mér fulllangt gengið.

Ég vil taka það fram að þetta frv. hefur verið til umfjöllunar í þinginu mjög lengi og þótt mjög margar ábendingar hafi komið fram í umsögnum um frv., þá var þar einnig að finna atriði sem menn fögnuðu að tekið væri á og meiri hluti umhvn. hefur leitast við að breyta frv. eftir því sem honum hefur þótt skynsamlegt og leitað þar til þeirra tillagna og hugmynda sem komið hafa fram í umsögnum um frv. Meiri hlutinn hefur einnig lagt eyrun við því sem sagt hefur verið af hálfu minni hlutans, telur sig hafa gengið til móts við minni hlutann og er ánægður með þá samvinnu sem þar varð um ákveðnar breytingar á frv. en það ber að harma að minni hlutinn skuli taka svo djúpt í árinni um skoðanir sínar á göllum frv.