Hollustuhættir

Þriðjudaginn 24. febrúar 1998, kl. 15:12:33 (4176)

1998-02-24 15:12:33# 122. lþ. 74.9 fundur 194. mál: #A hollustuhættir# (heildarlög) frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 122. lþ.

[15:12]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér komið til 2. umr. hið merka frv. um hollustuhætti sem er sannarlega stórt og viðamikið frv. og ákaflega mikilvægt mál. Það er heillandi viðfangsefni að gera það þannig úr garði að það tryggi umtalsvert betri meðferð mála á þessu sviði.

Þróunin á sviði umhverfismála er öll í þá átt að efla skilning og virðingu fyrir lögmálum náttúrunnar og tryggja til hins ýtrasta verndun náttúru og umhverfis fyrir mengun og hvers konar raski af manna völdum.

Niðurstaða nefndarinnar um endurskoðun núgildandi laga um hollustuvernd olli að vissu leyti vonbrigðum þar sem m.a. efnisreglur um mengunarvarnir eru nánast engar og ætlast er til þess að þær verði settar í reglugerðir eins og æðimargt annað í þessu frv. Ég var einhvern tíma búin að telja saman hversu víða væri vísað til reglugerða sem ráðherra skuli setja í frv. og ég held að ég muni rétt að honum sé falið það vald u.þ.b. níu sinnum, þó eru margir undirliðir þannig að erfitt er að nefna nokkra tölu. Honum er gert að setja reglugerðir og að auki í nokkrum tilvikum að setja reglur um eitt og annað, ,,setja starfsreglur`` stendur á öðrum stöðum, setja gjaldskrá, meira að segja hámarksgjaldskrá, auk þess sem hann er gerður að úrskurðaraðila í ágreiningi um útgáfu starfsleyfa af stærri gerðinni þannig að ráðherra er fengið mikið vald með frv.

Ég vil vitna til greinargerðar sem er fskj. I með áliti minni hluta umhvn., þ.e. álit Halldórs Jónssonar sem við fengum á einn af síðustu fundum nefndarinnar. Í 7. lið segir hann, með leyfi hæstv. forseta:

[15:15]

,,Ég get ekki látið hjá líða að vekja athygli umhverfisnefndar á að í frumvarpið skortir efnisleg ákvæði, sem ráðherra er síðar ætlað að útfæra með stjórnvaldsfyrirmælum. Ég tek þetta fram vegna þeirra alvarlegu úrræða sem frumvarpið veitir stjórnvöldum, svo sem stöðvun atvinnurekstrar. Það er ekki ólíklegt að þær raddir muni heyrast að 4. og 5. gr. frumvarpsins feli í sér of víðtækt valdframsal til ráðherra til þess að grípa inn í réttindi borgaranna sem varin eru af stjórnarskránni. Á það skal bent í þessu sambandi að viss þróun hefur átt sér stað síðustu ár í þessum efnum, annars vegar með setningu stjórnskipunarlaga, nr. 97/1995, og hins vegar í dómstólum landsins.`` --- Reyndar segir hann svo: --- ,,Þar sem ég hef ekki hugað að þessu sérstaklega í yfirferð minni mun ég ekki tjá mig um þetta efni.``

Hér er hann aðeins að koma með ábendingu til nefndarinnar en ég ítreka að það var nokkuð seint sem hann kom á fund nefndarinnar og hafði lítinn tíma til að undirbúa álit sitt. En þetta finnst mér undirstrika það sem hér hefur verið sagt, að það eru margir þættir sem ráðherra er ætlað að setja reglugerðir um og m.a. í 4. og 5. gr. eins og vitnað er til í áliti Halldórs.

Mér finnst ákaflega mikil tilhneiging til þess, ekki síst á síðari árum, að færa aukið vald til ráðherra þar sem þeir eiga að setja reglugerðir um alla mögulega þætti og það held ég sé ekki af hinu góða því lagasetning á að vera skýr og gegnsæ. Menn eiga að vita að hverju þeir ganga.

Eitt af mínum fyrstu gagnrýnisatriðum, herra forseti, við frv. er að skýrari og metnaðarfyllri markmiðssetningu skortir í það. Við fulltrúar minni hlutans gagnrýndum það ítrekað á fundum hv. umhvn. en lítil umræða fór fram um það atriði. Þó komu gestir á fundi nefndarinnar sem tóku undir þetta og vöktu athygli á að skýrari markmiðssetningu vantaði sem er afar slæmt með tilliti til þeirrar þróunar sem er á þessu sviði. Ég tel að við hefðum að sjálfsögðu átt að nota þetta gullna tækifæri til að setja skýra og vel útfærða markmiðsgrein sem gæfi tóninn fyrir löggjöfina í heild. Meginreglan á að vera, auk heilnæmra lífsskilyrða í víðtækum skilningi, að óheimilt sé að menga umhverfið. Óheimilt sé að menga umhverfið. Allt annað heyrir til undantekninga og allan vafa á að túlka náttúrunni í vil. Markmiðið á að vera að fyrirbyggja mengun og óheilnæmi og tryggja eftirlit og aðhald og ég get nú ekki stillt mig um að vitna til 73. gr. í EES-samningnum, sem er undir kafla um umhverfismál þar sem segir, með leyfi forseta:

,,1. Aðgerðir samningsaðila á sviði umhverfismála skulu byggjast á eftirtöldum markmiðum:

a) að varðveita, vernda og bæta umhverfið;

b) að stuðla að því að vernda heilsu manna;

c) að tryggja að náttúruauðlindir séu nýttar af varúð og skynsemi.``

Þetta var fyrri liður þessarar greinar og 2. liður er:

,,Aðgerðir samningsaðila á sviði umhverfismála skulu grundvallaðar á þeim meginreglum að girt skuli fyrir umhverfisspjöll, áhersla sé lögð á úrbætur þar sem tjón á upphaf sitt og bótaskylda sé lögð á þann sem mengun veldur. Kröfur um umhverfisvernd skulu vera þáttur í stefnu samningsaðila á öðrum sviðum.``

Þetta er úr 73. gr. EES-samningsins sem fjallar um umhverfismál og því nefni ég það og vitna til hennar að ég held að við hefðum gott af því að líta bæði til þess samnings og til laga um þessi efni í nágrannalöndum okkar sem eru miklu metnaðarfyllri í þessum efnum. Og þótt ágæt orð séu í 1. gr. þessa frv. til laga um hollustuhætti, sem nú á að heita, ef ég man rétt, frv. til laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, þá held ég að þá grein hefði þurft að endurskoða og endurbæta, gera hana skýrari og fyllri og miklu metnaðarfyllri fyrir hönd umhverfisins og náttúrunnar.

Það er slæmt, herra forseti, að ekki gafst betra svigrúm og tími til að fara yfir þetta mál og gera á því ýmsar breytingar. Það hefur vissulega verið til meðferðar í nokkrar vikur en auðvitað fóru býsna margar vikur í að bíða eftir umsögnum frá mjög mörgum aðilum, eins og fram kemur í nál. meiri hlutans þar sem þeir aðilar eru taldir upp. Þegar menn segja að mál hafi verið lengi til umfjöllunar gleyma menn stundum að draga frá þær vikur sem málið hreinlega liggur í nefndinni og bíður eftir umsögnunum. Engu að síður hafa farið býsna margir fundir í að fjalla um málið. Margir hafa komið á fund nefndarinnar og mjög margir sent okkur umsagnir og þær hafa verið efnismiklar og mjög gagnrýnar. Það var því alveg ljóst frá upphafi að við mundum þurfa mikinn tíma og gott ráðrúm til að fara yfir allar þessar athugasemdir. Ég vil láta það koma strax fram að ég tel að meiri hlutinn hafi gert það sem hann gat, má segja, í þeirri tímaþröng sem við vorum sett í. Ég þarf ekki að rifja það upp að hér var gert samkomulag milli formanna þingflokka og stjórnar þingsins um að lokið yrði við umfjöllun um þetta mál fyrir mánaðamótin febrúar/mars og vegna þess samkomulags gátum við ekki annað en fallist á að málið væri tekið út úr nefnd, en umfjöllun í nefndinni án gesta, ef svo má segja, var fremur lítil og ekki nóg með tilliti til stærðar málsins. Við fulltrúar minni hlutans hefðum viljað fara betur yfir málið, fara betur ofan í saumana á öllum þeim fjölmörgu og vel rökstuddu athugasemdum sem við fengum, vegna þess að við viljum mjög gjarnan vera samstiga meiri hlutanum um þau mikilvægu mál sem koma til kasta hv. umhvn. Okkur hefur tekist það í mörgum málum og ég nefni sérstaklega mjög stóra málaflokka, mjög stóra löggjöf eins og um matvælaeftirlit, um erfðabreyttar lífverur, um skipulagsmál og fleira sem tína mætti til, sem við höfum unnið að í mikilli sátt og samlyndi og metnaði fyrir hönd málaflokkanna, en hér gafst okkur ekki nægur tími og ég harma það. Reyndar skil ég ekki alveg hvers vegna þessi tímapressa er sett á okkur. Ég held það hefði verið til mikillar farsældar fyrir málið í heild ef við hefðum fengið tíma til að vinna með meiri hlutanum áfram að málinu.

Ég get ekki fallist á þær röksemdir sem hafa komið fram um að hér standi fyrir dyrum starfsleyfisveitingar af ýmsu tagi og þess vegna þurfi að flýta sér með þessa löggjöf. Ég held að það hefði mátt afgreiða á annan hátt og raunar hefur það margkomið fram að einfaldlega hefði verið unnt að breyta reglugerðum ef menn vildu fá fastara undir fætur með það efni. Nefndin sjálf hefði sem sagt þurft meiri tíma og ég held að við hefðum þurft u.þ.b. mánuð til að ná endanlegri niðurstöðu, til að vinna úr þeim athugasemdum sem okkur bárust. Við höfum sett á fjölda aukafunda og ég er viss um að allir nefndarmenn hefðu verið fúsir til að gera hið sama á komandi vikum, þ.e. fjölga fundum í nefndinni, til að okkur gæfist ráðrúm til að vinna þetta til fulls.

Meiri hlutinn flytur ýmsar brtt. við frv. og margar þeirra horfa til bóta. Það höfum við staðfest í nefndarstarfinu og gerum það hér, svo sem um veitingu starfsleyfa í 6. gr. Aðrar brtt. eru í rauninni aðeins yfirklór eða tilraun til að gera alvarlega brotalöm eitthvað skárri og þá á ég fyrst og fremst við aðkomu atvinnurekenda að stjórnun heilbrigðiseftirlits í sveitarfélögum og hollustuvernd, sem er í rauninni alveg fráleitt fyrirkomulag. Um þetta er fjallað í 11. gr. frv. og 17. gr. fyrst og fremst. 11. gr. fjallar um heilbrigðisnefndir og skiptingu í eftirlitssvæði og 17. gr. fjallar um svokallað hollustuháttaráð. 20. gr. er síðan um stjórnun stofnunarinnar. Við allar þessar greinar höfum við miklar athugasemdir og erum ekki ein um það. Um þetta fyrirkomulag kom alveg hreint --- nú skortir mig íslenskt orð --- massíf gagnrýni á þetta fyrirkomulag. Ég held að þær tillögur sem koma frá meiri hlutanum til úrbóta bæti ekki um. Við sjáum í þessum greinum, 11. og 17. gr. fyrst og fremst, greinilega það mark sem fulltrúum atvinnurekenda tókst að setja á starf endurskoðunarnefndar. Það skýrir þá gagnrýni sem við höfum sett fram á það hvernig sú nefnd var skipuð. Í rauninni var alveg fráleitt að fulltrúar atvinnurekenda ættu þar sæti. Þar hefðu átt að koma fyrst og fremst aðilar, fulltrúar, á faglegum forsendum og fá þess vegna álit og sem gesti á nefndarfundi, fulltrúa frá atvinnurekendum og fleiri hagsmunaaðilum. Það hefði verið hin eðlilega málsmeðferð.

[15:30]

Ég minnist þess að þegar þetta mál var til 1. umr. kom það mér svolítið á óvart, ég gat ekki öðrum um kennt en sjálfri mér og önnum í hv. fjárln. Ég tók ekki eftir því fyrr en ég kom inn á þingfund að þetta mál væri til umræðu og ég hafði ekki skoðað það almennilega, en í flýtinum kom ég samt auga á þessa skipan og gagnrýndi það mjög harðlega þá strax. Ég spurði hvers vegna svo væri staðið að málum, hvers vegna ástæða þætti til að tryggja hagsmuni atvinnurekenda og hvar væru þá hagsmunir annarra, hvernig væru þeir tryggðir, hvar væri gæslumaður náttúruverndar og hið sama um 17. gr., um hollustuháttaráðið. Augljóslega hefur meiri hlutinn viljað koma til móts við þau sjónarmið og út af fyrir sig virði ég það. En þetta er og verður klúður sem ég spái að gangi engan veginn upp. Hér eiga að koma að fulltrúar hagsmunaaðila sem eru ekki endilega með samtök sín á milli eða jafnvel fleiri en ein samtök á hverju svæði.

Búið er að setja þarna inn fulltrúa náttúruverndarnefnda og út af fyrir sig er skárra að fulltrúar annarra sjónarmiða en atvinnulífsins komi að. Náttúruverndarnefndir verða væntanlega margar á sumum eftirlitssvæðanna. Sum þeirra eru mjög stór og það verða sjálfsagt margar náttúruverndarnefndir. Ég er hrædd um að það geti orðið þrautin þyngri að ná saman um hver eigi að vera fulltrúi allra nefndanna í heilbrigðisnefnd og hvernig þetta fyrirkomulag allt eigi að vera. Auk þess er staða slíkra fulltrúa mjög sérkennileg. Þeir eru ekki beint settir með stöðu áheyrnarfulltrúa, ef ég skil þetta rétt. Þeir eiga engu að síður að vera þarna til staðar og án atkvæðisréttar. Hvers vegna í ósköpunum verið var að setja þetta ákvæði að reyna að tryggja afkomu atvinnurekenda er mjög furðulegt vegna þess að þar sem heilbrigðisnefndir eru nú starfandi, þá eru fulltrúar atvinnurekenda í mörgum heilbrigðisnefndum vegna þess að sveitarstjórnarfulltrúar sjá til þess að hinir ýmsu sem hagsmuna hafa að gæta komi þarna að. Ég held að ég hafi heyrt m.a. af einni nefnd þar sem fjórir af fimm fulltrúum í heilbrigðisnefnd tengdust á einhvern hátt hinum ýmsum atvinnugreinum. Ég skil ekki hvernig atvinnurekendur ætla að koma sér saman um einn sérlegan fulltrúa allra atvinnurekenda sem hafa mjög mismunandi hagsmuna að gæta á þessu sviði.

Í 11. gr. er einnig kveðið á um eftirlitssvæði. Þarna er um talsverðar breytingar að ræða og raunar miklar breytingar. Tíu eftirlitssvæði verða og tíu heilbrigðisnefndir í stað 13 eftirlitssvæða áður og 46 heilbrigðisnefnda. Vissulega eru margir þeirrar skoðunar að þær breytingar séu til bóta. Þær munu auðvelda samræmingu eftirlits og meðferð mála en þetta kann að verða erfitt í framkvæmd og spurning hvort ekki sé farið of geyst í sakirnar, með tilliti til landfræðilegra og stjórnunarlegra aðstæðna.

Ég held að það sé mjög óvíst hvernig sveitarstjórnum á stóru svæði, allmörgum sveitarstjórnum, því ekki eru allir búnir að sameinast í öllum þessum sveitarfélögum, muni ganga að útfæra ákvæði 11. gr. þ.e. að koma sér saman um eina nefnd á mjög stóru svæði. Ég nefni sérstaklega svæði eins og Austurlandssvæðið þar sem starfssvæðið er Austurlandskjördæmið allt og fleiri svæði mætti taka. Ég þekki vel til í Norðurlandssvæði eystra. Það er mjög stórt svæði að leggja undir eina heilbrigðisnefnd og það getur orðið erfitt að koma á eðlilegu eftirliti með þessu móti. Ég er svolítið hrædd við þetta. Umsagnir komu frá ýmsum á Austurlandi sem töldu að of hratt væri farið í hlutina. Það hefði verið hægt að fallast á t.d. fækkun nefnda á því svæði niður í þrjár nefndir. Ég hefði viljað fá miklu meiri umfjöllun um þetta og betri upplýsingar. Mig skortir rök og meiri umræðu um þetta efni.

Þessu skylt eru þær vangaveltur sem komu fram máli hv. 5. þm. Norðurl. sem var áðan með efasemdir um eða áhyggjur af því að einhver mismunun kynni að verða fólgin í eftirlitsgjöldum og ýmsu í því efni. Það hefði þurft meiri umræðu og umfjöllun í nefndinni.

Varðandi þessi stjórnunarmál, þá batnar ekki málið þegar kemur að stjórnun Hollustuverndar ríkisins að viðbættu svokölluðu hollustuháttaráði. Frv. gerir ráð fyrir því að fella alveg niður stjórn yfir stofnuninni og skipaður verði forstjóri. Eins og segir í 20. gr. á hann að hafa háskólamenntun og þekkingu á verksviði stofnunarinnar og er allt gott um það að segja. Hann fer með stjórn stofnunarinnar, mótar stefnu í störfum hennar og ber ábyrgð á fjárhagslegum rekstri. Ég gerði ítrekað athugasemdir við að svona væri staðið að málum að forstjóri væri settur og hann hefði með alla stjórn stofnunarinnar að gera. Hann á að móta stefnu í störfum hennar og bera ábyrgð á fjárhagslegum rekstri. Þar að auki stendur í sömu grein að einn forstöðumanna skuli gegna starfi staðgengils forstjóra. Það skortir alveg á í allri umfjöllun hvernig velja skuli þann staðgengil. Síðan endar þetta náttúrlega á því að ráðherra eigi að setja reglugerð.

Það skortir mikið á að nægilega vel sé frá öllu gengið. Eftir því sem frv. og brtt. gera ráð fyrir verður tekið af það stjórnarfyrirkomulag sem verið hefur með stjórn þar sem ýmsir aðilar koma að og m.a. tveir fulltrúar kjörnir af Alþingi en þetta hollustuháttaráð sett sbr. 17. gr. Ég ætla að leyfa mér að fara svolítið meira út í þetta.

Ég tel þetta vera hið mesta óráð. Ég er ekkert endilega hlynnt því að stjórn sé sett yfir stofnun af þessu tagi en auðvitað þarf að vera samræmi í hlutunum. Það eru tiltölulega nýlega sett lög um stofnanir einmitt á sviði umhvrn. Skemmst er að minnast laganna um Landmælingar Íslands, Náttúruvernd ríkisins og ekki er svo langt síðan sett voru ný lög um Náttúrufræðistofnun ríkisins. Allar þessar stofnanir eru taldar þurfa stjórn en ekki þessi stofnun. Látum svo vera að ástæða sé til að breyta um stefnu og hér sé stigið fyrsta skrefið í því efni. En það mætti gera öðruvísi en hér er lagt til.

Það hefði mátt hugsa sér að í stað stjórnar væri skipaður forstjóri eða framkvæmdastjóri stofnunarinnar. Síðan væri framkvæmdastjórn í stofnuninni sjálfri sem væri þá skipuð forstöðumönnum sviða og síðan væri utanaðkomandi fagráð. Þessar hugmyndir og tillögur hefur Hollustuvernd ríkisins sett fram og þar er einhugur um að þetta væri gott fyrirkomulag. Að mínu mati ætti það að geta tryggt bæði rekstrarlega og faglega stjórn sem yrði mjög til sóma vegna þess að fagráð yrði skipað mönnum með sérþekkingu eða starfsreynslu. Það mundi tryggja eðlileg samskipti og samráð við stofnanir t.d. við Háskóla Íslands og fleiri. En þetta er því miður ekki gert.

Þetta rugl, vil ég segja, um hollustuháttaráð er látið standa og engar haldgóðar röksemdir fyrir breytingum í þá átt. Auðvitað hefur endurskoðunarnefndin lent í villum undir forustu fulltrúa atvinnulífsins. Í þessari grein var meira að segja sagt að hollustuháttaráðið ætti að fara með stefnumörkun um atvinnustarfsemi. Sem betur fer er það fallið brott en nóg er eftir samt.

Þá eru breytingar sem gera það að verkum að við þetta ráð sem í áttu að vera fimm manns, með Vinnuveitendasambandinu, Vinnumálasambandinu og Sambandi ísl. sveitarfélaga þar sem þeir áttu að skipa hver sinn fulltrúa, er nú búið að bæta fulltrúum Hins íslenska náttúrufræðifélags, Alþýðusambands Íslands, Félags heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa og landlæknisembættisins. Þarna er auðvitað verið að koma til móts við þessa miklu og marghöfða gagnrýni á hin víðtæku áhrif atvinnurekenda og reynt að tryggja áhrif bæði fulltrúum launþega og þeirra sem gætu talist gæslumenn umhverfis- og hollustuhátta. Engu að síður tel ég að þetta gersamlega ófæra tilhögun og get ekki með nokkru móti fallist á hana.

[15:45]

Þá vil ég fara örfáum orðum um þann þátt frv. sem lýtur að veitingu starfsleyfa en um þann þátt hefur staðið styrr á undanförnum árum. Meiri hlutinn kemur með brtt. við þennan þátt, þ.e. það sem í frv. var kveðið á um í 6. gr. að umhvrh. ætti að gefa út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun ef samanlögð fjárfesting er meiri en 950 millj. kr. Þetta gagnrýndu langflestir sem á annað borð gáfu umsögn um frv. eða komu á fund nefndarinnar, að það gengi einfaldlega ekki að skipta þessu með þessu móti, að setja ætti einhver fjárhagsleg mörk í þessu efni. Það væri þá frekar til skoðunar ef menn vildu taka tillit til einhverra mengunarmarka. En ég vil fagna því alveg sérstaklega að meiri hlutinn skyldi fallast á að aðeins yrði um tvo aðila að ræða sem gæfu út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur, annars vegar heilbrigðisnefndir í sveitarfélögunum og svo Hollustuvernd ríkisins.

Hins vegar hefði verið langeðlilegast að taka inn í 6. gr. frv. þá upptalningu sem sett er inn í eins konar fylgiskjal við lögin þar sem talið er upp í 24 liðum hvaða atvinnurekstur það er sem Hollustuvernd ríkisins veitir starfsleyfi fyrir. Það hefði verið eðlilegri lagasetning að gera það á þann hátt, og ég skil ekki alveg hvers vegna þessi leið er valin. En meginatriðið í mínum huga er að þessu skyldi breytt þannig að Hollustuvernd ríkisins og heilbrigðisnefndir gefi út starfsleyfin en ekki umhvrh. Því miður tókst ekki alveg jafn vel til með umsagnar- og kæruferli mála sem tekið er á í 7. kafla frv. um málsmeðferð og úrskurði þótt þar hafi tekist að breyta nokkuð til batnaðar og skýra það nokkuð. En því miður er ekki gengið alveg nógu langt í því efni, því enn er framkvæmdinni svo háttað að ef þetta frv. verður að lögum, að teknu tilliti til brtt. meiri hlutans, eru ekki þarna hrein skil um ferli mála. Það er ekki sett í einn skýran farveg. Það eru því ekki skýr mörk milli úrskurðaraðila eins og þyrfti að vera. Málið hefur batnað verulega og ég fagna því en það hefur ekki batnað nóg og ég óttast að menn lendi í hremmingum með þetta atriði áfram. Aðalatriðið væri að það væri einn úrskurðaraðili, ein úrskurðarnefnd, og það væri í samræmi við það sem gildir t.d. í nágrannalöndunum.

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að hafa langt mál um þetta. Það kemur mjög margt fram í nál. sem við í minni hlutanum stöndum að. Ég vil aðeins taka gagnrýnisatriði mín saman. Meginathugasemdir mínar eru þær að markmiðsgreinin er ekki nógu ítarleg og metnaðarfull að mínu mati. Það hefði verið mjög áhugavert að taka góða rispu um það í umhvn. og ræða alla þætti og þá þróun sem hefur orðið í þessum efnum í heiminum og glíma við að setja þarna markmiðsgrein sem við gætum orðið sátt um og stolt af.

Í öðru lagi er það stjórnunarþátturinn. Það er ekkert samræmi í hlutunum. Sumar stofnanir undir umhvrn. eru taldar þurfa stjórn og aðrar ekki. Það er fráleitt að atvinnurekendur eigi fulltrúa í hollustuháttaráði og í heilbrigðisnefndum sveitarfélaganna.

Í þriðja lagi hefði ég viljað skoða miklu ítarlegar stærð eftirlitssvæðanna og fjölda heilbrigðisnefnda.

Ég hefði sannarlega viljað fá meiri umfjöllun um úrskurðarferlið í sambandi við starfsleyfin.

Ég tel að á allt of mörgum stöðum séu settar inn heimildir til reglugerða. Það hefði mátt a.m.k. fá einhvern ramma frá ráðuneytinu um það hvernig vinna ætti úr þeim mikla frumskógi.

Ég hef alveg gleymt að fjalla um eitt atriði sem kom frá ýmsum umsagnaraðilum og ekki síst Hollustuverndinni sjálfri, að tilvísun til alþjóðasamninga vantar í frv. Því var svarað til í nefndinni af fulltrúum meiri hlutans að það væri óþarft og ekki eðlilegt, en ég er ekki sammála því. Ég tel að það hefði verið fyllilega eðlilegt og mjög gagnlegt að hafa þá tilvísun í lögunum og hefði verið stuðningur við það starf sem Hollustuvernd ríkisins hefur með höndum.

Ég hlýt að endurtaka að ég harma að ekki skyldi gefast betri tími og betra ráðrúm til að vinna þetta mál til betri vegar og ná sameiginlegri niðurstöðu allrar nefndarinnar. Ég er sannfærð um að það hefði tekist ef við hefðum fengið rýmri tíma og ég er sannfærð um að það hefði orðið til mikilla heilla fyrir málið í heild, þetta mál sem er svo sannarlega afar mikilvægt.

Niðurstaða okkar er sú að við leggjum til að þessu sé vísað til ríkisstjórnarinnar. Það má segja að í því felist mikið traust til hæstv. ríkisstjórnar og þá sérstaklega til hæstv. umhvrh. Mjög mikil vinna hefur farið fram, búið að fá mjög mikið af umsögnum og athugasemdum og ábendingum og ég held að það væri mjög þarft og gott að vinna þetta betur og ítarlegar með hliðsjón af þeim.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. fór nokkrum orðum um það nál. sem minni hlutinn leggur fram og sagði eitthvað á þá leið að honum fyndist vera harður tónn í nál., fann það helst að. Ég er ekki sammála því að harður tónn sé í nál. þótt kveðið sé skýrt að orði. Það er betra að kveða skýrt að orði svo það skiljist hvað við eigum við. Ég sé enga ástæðu til að vera með tæpitungu um þetta mikla og reyndar að mörgu leyti flókna mál. Okkur er vissulega nokkuð niðri fyrir en við viljum þessu máli ekkert annað en allt hið besta og erum þess vegna slegin yfir því að fá ekki betra ráðrúm og tíma til að vinna að því.

Eitt nefndi hv. 5. þm. Norðurl. e. af því að stundum leggjum við allnokkuð á okkur til að málin fari frá okkur á góðu íslensku máli, og mér fannst hann, ef ég heyrði rétt, vera að vísa til þess sem stendur á 3. síðu í álitinu: ,,Meginávirðingar frumvarpsins.`` Og þar sem við viljum auðvitað hafa allt með góðum máta ætla ég að taka undir þessa athugasemd hv. 5. þm. Norðurl. e. að betur færi á því að þarna stæði t.d. ,,Meginókostir``, ,,Megingallar``, eða ,,Meginágallar`` en það er nú smámál miðað við allt málið í heild sem ég ítreka að við ættum að gefa okkur meiri tíma til að fjalla um.