Dánarvottorð o.fl.

Þriðjudaginn 24. febrúar 1998, kl. 18:50:02 (4193)

1998-02-24 18:50:02# 122. lþ. 74.10 fundur 464. mál: #A dánarvottorð# (heildarlög) frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 122. lþ.

[18:50]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Við ræðum hér sumpart býsna viðkvæm mál og sumpart mjög mikilvæg því að það eru margir þættir sem snerta þann atburð og þau tíðindi þegar einstaklingur skilur við. Það lýtur ekki eingöngu að erfðamálum eða eignarmálum og ekki eingöngu að tilfinningamálum heldur opinberum málum sem fyrst og síðast er fjallað um í þessu frv. til laga um dánarvottorð og raunar frv. til laga sem tekur til breytinga á ýmsum áðurgildandi lögum og þar á meðal tilskipun frá því 1819, sé ég hér í greinargerð, um skyldu manna að bjarga mönnum sem sýnast dauðir, og ýmsum öðrum lögum sem taka breytingum með samþykkt þessa lagafrv. sem hér liggur fyrir. Það eru því margir snertifletir í málinu. Fyrst örfá orð um aðdraganda málsins.

Í athugasemdum með lagafrv. kemur fram og hæstv. ráðherra hefur upplýst það að sú nefnd, sem hefur endurskoðað lögin sem til þessa máls taka var skipuð í mars 1993. Hún hefur því setið yfir þessu alllengi og er ekkert um það að segja. En það er umhugsunarefni, og það er meginástæða þess að ég kveð mér hér hljóðs, að í þessari nefnd er að finna prýðilega einstaklinga, en allir koma þeir frá kerfinu. Það er líka athyglisvert í þessu frv. að sóknarprestar eru hvergi á nafn nefndir og þeir sem sálusorgarar komu hvergi að samningu þessa frv. né heldur fulltrúar skulum við segja þolenda, aðstandenda eða þeirra sem ætlað er að eiga viðskipti við opinbera aðila eftir samþykkt þessa frv.

Hér erum við því sumpart að ræða um feril máls gagnvart opinberum aðilum, lögreglu, læknum, sýslumönnum og öðrum þeim sem með yfirvöld fara og einnig samskipti þeirra við aðstandendur og venslafólk. Farið er nokkrum orðum um þá þætti mála í þessu frv. og er það vel en má þó betur gera og ég ætla að drepa á það með örfáum orðum á eftir. Einnig finnst mér vanta kannski örlítið í eða til umhugsunar, og ég kasta því til umhugsunar í nefndinni --- og það er varðandi þetta viðkvæma atriði um tilkynningar til opinberra aðila, þ.e. tilkynningar til fjölmiðla, hvort það hefur verið gaumgæft og hugsað í nefndinni hvernig skuli til að mynda háttað opinberri tilkynningu um lát einstaklinga, tímafresti og annað því um líkt. Þetta er mál sem hefur verið mjög til umræðu á milli lögreglu, sjúkrahúsyfirvalda og samtaka syrgjenda einkum og sér í lagi við lögreglu og á milli þeirra og fjölmiðla. Út af fyrir sig hefur engin niðurstaða fengist en enn þá er það því miður þannig að upp koma slys í þessum efnum, með öðrum orðum að ekki hefur tekist að ná til allra aðstandenda áður en fjölmiðlar hafa farið fram og tilkynnt um lát einstaklinga. Það er spurning sem ég kann ekki heilt og gott svar við hvort þetta eigi endilega heima í þessum lögum, en í hvaða lögum þá? Ég held að það væri til umhugsunar fyrir löggjafann hvort menn settu sér ekki einhverjar vinnureglur og verklagsreglur í þeim efnum.

Það þekki ég nokkuð þegar ég vík orðum að samskiptum yfirvalda og aðstandenda og venslafólks við lát að þar er um mjög viðkvæman þátt að ræða. Á því er drepið í þessu frv. að nokkru leyti og þá einkum og sér í lagi þegar um það er að ræða að yfirvöld óska eftir réttarkrufningu. Kveðið er á um það í 7. gr. að leita þurfi samþykkis nánasta venslamanns nema ef ákveðin önnur skilyrði eru til staðar sem er að finna í 6. gr.

Ég þekki þess nokkur dæmi að yfirvaldið, og þá lögreglan í flestum tilfellum, hefur farið fram á slíkar réttarkrufningar við nánustu aðstandendur örfáum mínútum jafnvel eða mjög stuttu eftir lát, jafnvel að í sömu heimsókninni og tilkynnt er um lát einstaklings sé farið fram á samþykki fyrir réttarkrufningu. Í þessum tilfellum eru nánustu venslamenn engan veginn í stakk búnir til að meta það með neinum rökréttum hætti hvort þeir séu tilbúnir til að veita samþykki sitt eður ei. Oftar en ekki bregðast þeir þannig við að þetta sé kannski aukaatriði í hinu stóra máli sem það er að sjá á eftir horfnum ástvin og setja því gjarnan nafn sitt á blað en eru í því hugarástandi að þeir eru engan veginn færir um að taka neinar ákvarðanir. Mér finnst því koma fyllilega til álita að löggjafinn setji ákveðinn ramma í þessu sambandi og gefi nauðsynlegt ráðrúm og tóm fyrir aðstandendur að meta það með allsæmilegri rósemd hugans hvort þeir séu tilbúnir til að veita samþykki sitt til réttarkrufningar eður ei og fái nauðsynlegan umþóttunartíma í því sambandi því að samþykki af þessum toga verður auðvitað ekki aftur tekið. Ég hef heyrt nokkur dæmi af því og þekki til þess að fólk hefur ekki jafnað sig satt að segja eftir að hafa í sjokki veitt samþykki sitt til krufningar en séð eftir því skömmu síðar en þá hafi verið of seint til að snúa þeim hlutum við.

Fáist ekki samþykki aðstandenda, þá hefur lögreglan þann möguleika að leita úrskurðar dómara ef lögreglan telur það svo brýnt að ekki verði undan því vikist að fram fari réttarkrufning. En í mörgum tilfellum er þetta engu að síður álitamál. Mér er næst að halda að í seinni tíð hafi þetta færst nokkuð í vöxt og þá ekki af þeim orsökum endilega að lögreglan telji óhreint mjöl í pokahorninu, óljóst um dánarorsök eða að einhverjar þær kringumstæður séu sem getið er um í 1. og 2. tölul. 6. gr. frv., þ.e. að dauðsfallið verði rakið til refsiverðrar háttsemi eða ekki verði með viðunandi hætti ákvörðuð dánarorsök með réttarlæknisfræðilegri líkskoðun heldur sé þetta ákveðið ferli sem menn hafa kannski fetað slóð sína í og það helgast m.a. af því að læknar og heilbrigðisyfirvöld hafa í auknum mæli óskað eftir því að eiga þennan kost því að krufning er auðvitað meira en að kveða upp úr um dánarorsök heldur getur líka verið um að ræða önnur læknisfræðileg atriði sem lúta ekki beinlínis að þessum eina úrskurði. Það eru því margir aðrir þættir sem þarna spila inn í.

Það er einmitt einn af þessum þáttum sem ég vil staldra við og er óskilgreindur í frv. og er náttúrlega ekki hægt að skilja við með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir og þar er um að ræða 6. gr. þar sem einfaldlega segir:

,,Réttarkrufning skal gerð:`` --- Ég undirstrika orðið skal. Í því tilviki er ekki um það að ræða að leita þurfi samþykkis --- og þó, sennilega á það þó við, en svo segir í 3. lið einfaldlega: ,,í öðrum tilvikum þar sem lögregla telur réttarkrufningu nauðsynlega.``

Þá spyr ég: Er ekki eðlilegt að í þeim tilfellum þar sem um er að ræða mat lögreglu, að henni sé gert að rökstyðja það með einhverjum hætti til þess bæra aðila og jafnvel að þar eigi við eins og í 2. mgr. 7. gr. að hún skuli þar undantekningarlaust leita úrskurðar dómara? Maður gefur sér það auðvitað að lögreglan sækist ekki eftir þessari heimild að ástæðulausu en þá er rétt að undirstrika það að henni sé gert að rökstyðja þessa ósk sína.

[19:00]

Mönnum finnst kannski að ég sé að eyða tíma í lítilvægt mál en ég get fullyrt, virðulegi forseti, að hér er ekki um lítið mál að ræða fyrir fjölmarga aðila sem hafa staðið frammi fyrir þessum hlutum. Hér er um að ræða ákvarðanir sem verða ekki aftur teknar eins og ég gat um áðan.

Þessu vildi ég koma fyrst og síðast á dagskrá við 1. umr. og vil gjarnan að hæstv. ráðherra hugsi um þessa þætti málsins. Það kann að vera eins og ég gat um áðan að einhverjir aðrir lagabálkar eigi að taka frekar til þessara þátta en ég fæ þá ekki séð hvar það ætti að vera. Ég minnist þess að í lögum um réttindi sjúklinga voru ein eða tvær málsgreinar sem kváðu á um dauða en þar var þó ekki að finna þessa þætti sem ég geri hér að umtalsefni.

Í þessu samhengi vil ég líka drepa á það sem ég veit að hefur verið mjög til umfjöllunar í seinni tíð, og það er vel, af hálfu lögregluyfirvalda og raunar sjúkraflutningamanna sömuleiðis og slökkviliðsmanna, um hlutverk þeirra og möguleika á að veita aðstandendum fyrstu aðstoð þegar um er að ræða slys og dauða í heimahúsum. Með öðrum orðum, þegar sjúkraflutningamenn, slökkviliðsmenn og lögreglumenn hafa gert allt sem í þeirra valdi stendur til þess að bjarga lífi og ekki tekst og um er að ræða dauða, þá líður gjarnan einhver tími, nokkrar mínútur stundum og klukkutímar í versta falli þar til sóknarprestur eða aðrir þeir sem til þekkja geta veitt nánum aðstandendum þá huggum og þá aðstoð sem nauðsynleg er. Ég veit að þessar starfsstéttir hafa sýnt því mikinn áhuga að fá til þess stuðning að geta gegnt þar einhverju hlutverki og veitt nánustu aðstandendum aðstoð. Þess vegna vil ég kasta því fram og spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi beint eða óbeint komið að slíkum hlutum.

Til að segja hlutina eins og þeir eru þá hitti ég að máli slökkviliðsmann um daginn sem er mikill áhugamaður um þetta og er í trúnaðarráði sjúkraflutningamanna. Hann vill kynna sér þessi mál í Kaliforníu þar sem menn eru komnir dálítið á veg í þessum efnum og er í góðu samstarfi um þau mál við sjúkrahúsprestinn á Borgarspítala. Þetta eru í sjálfu sér lítil mál en feikilega stór gagnvart þeim sem hlut eiga að máli og þetta eru mínútur sem auðvitað setja mark á viðkomandi einstakling alla ævi þannig að hér er nauðsynlegt að gæta vel að öllum þáttum.

Í þessu samhengi árétta ég einnig hvort að í þessum lögum eigi við einhver orð um það hvernig skuli reynt að tilkynna nánum aðstandendum um dauða, hver eigi að gegna því hlutverki og hvort menn þurfi til þess ákveðið hæfi. Það er auðvitað ekki sama hvernig þetta er gert. Eins og ég gat um áðan, þá er auðvitað enginn bragur á því að rannsóknarlögreglumaður komi með beiðni um krufningu í annarri hendinni og tilkynningu um dauða á vörum. Það er enginn bragur á slíkri opinberri stjórnsýslu og ég velti því fyrir mér hvort löggjöfin eða í öllu falli reglugerðarvaldið eigi ekki að gaumgæfa það og láta sig varða hvernig þau mál ganga fram.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta. Ég vil þó rétt í bláendann lýsa yfir efasemdum mínum með nýtt hugtak hér: ,,dauðaskilmerki``. Mér finnst þetta óskiljanlegt orð í 9. gr. þar sem sagt er að ekki megi flytja lík í líkhús fyrr en læknir hefur staðfest dauðaskilmerki. Dugir ekki einfaldlega að segja hér: ,,staðfest dauða``. Þetta skilmerki bögglast aðeins fyrir mér. Það er a.m.k. hugtak sem ég þekki ekki og hef ekki heyrt áður. Það er mikilvægt í lögum af þessu tagi, eins og öllum öðrum lögum, að þar sé að finna hugtök og orð sem fólki eru töm á tungu og það fær einhvern botn í.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, virðulegi forseti. Ég get tekið undir það að hér eru í flestu slegin rétt stef og menn eru að gera þessi mál miklu mun skýrari en áður hefur verið og færa þau til nútímahorfs. En ég held að það megi samt sem áður fylla þarna inn í ákveðnar eyður sem ég hef gert að umtalsefni.