Vörugjald

Miðvikudaginn 25. febrúar 1998, kl. 15:39:02 (4212)

1998-02-25 15:39:02# 122. lþ. 75.12 fundur 277. mál: #A vörugjald# (byssur, skot o.fl.) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 122. lþ.

[15:39]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hv. þm. Kristján Pálsson leggur til að vörugjöld verði felld af byssum og skotfærum. Ég er því sammála. Hv. þm. færir fyrir því aðallega tvenn rök. Hin fyrri rök í sjálfu sér gef ég ekki mikið fyrir. Þau lúta aðallega að því að Skotvís umgangist náttúruna af mikilli varfærni og leiði félaga sína í innviðu vistfræðinnar og innræti þeim þar af leiðandi virðingu fyrir viðfangsefni sínu sem er náttúran og hinir kviku fuglar sem þeir reyna síðan sér til íþróttar að skjóta. Ég held að þau rök skipti engu máli í sjálfu sér. Ég er hv. þm. þó þakklátur fyrir þetta fróðlega erindi sem hann flutti um hina ágætu starfsemi Skotvíss. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að forusta Skotvíss hefur staðið sig afskaplega vel við að innræta félögum sínum virðingu fyrir náttúrunni, vönduð vinnubrögð og á hrós skilið fyrir það. Hin rökin sem hv. þm. flutti líst mér miklu betur á. Hann bendir einfaldlega á að byssurnar og skotfærin sem um ræðir eru tæki sem menn nota sér til afþreyingar og skemmtigildis og bendir á að ýmiss konar svipuð eða hliðstæð tæki eru undanþegin þessu 25% vörugjaldi. Þar má nefna, eins og hv. þm. og meðflutningsmenn hans gera í grg. með þessu ágæta frv., t.d. annars konar vopn, boga, sverð og veiðistangir. Þessi tæki eru undanþegin þeirri ánauð hins opinbera. Þarna er um að ræða misræmi sem mér finnst erfitt að skilja og af þeirri ástæðu tek ég undir með hv. þm. Ég tel að menn eigi að sitja við sama borð í þessum efnum. Veiðistangir sæta ekki þessu gjaldi og hvers vegna skyldu þá annars konar veiðitól sem menn nota sér til afþreyingar úti í náttúrunni þurfa að sæta því?

Það er líka rétt sem hv. þm. sagði að nú þegar gjalda skotveiðimenn með eigin samþykki fast að 20 millj. kr. árlega til ríkisins. Að vísu rennur þetta ekki beinlínis í ríkissjóð því það fer í eyrnamerktan sjóð sem á að nota sérstaklega til að rannsaka stofnana sem þeir síðan þreyta sig á að elta uppi og veiða. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að það var gert með þeirra samþykki. Sú tillaga var samþykkt í tíð minni sem umhvrh., og var næsta umdeild á sínum tíma. Ég minnist þess að þau átök sem m.a. komu þá fram voru öðrum þræði bak við tjöldin milli umhvrn. og fjmrn. Fjmrn. hélt að þetta mundi engu skila, taldi upp nokkrar milljónir. Við í umhvrn. vorum þeirrar skoðunar að þetta mundi skila 15--20 millj. og það hefur komið í ljós að við höfðum rétt fyrir okkur. Og einmitt í krafti þeirra upphæða sem með þessu móti eru innheimtar hafa farið fram grundvallarrannsóknir á jafnmikilvægum veiðifugli og rjúpu, sem hafa leitt í ljós algerlega nýjar staðreyndir um rjúpuna, m.a. að hún er staðbundinn fugl en landið allt er ekki athafnasvæði hennar eins og menn töldu áður.

Það er kannski aukaatriði í þessu máli, herra forseti, en það er alveg ljóst að skotveiðimenn leggja nú þegar fram umtalsverðan skerf til að sinna rannsóknum og kosta rannsóknir á viðfangsefnum sínum. Ég tel að hér sé um misræmi að ræða og samþykkja eigi tillögu hv. þm. En mig langar að spyrja hv. þm. vegna þess að hann flytur þetta ef ég man rétt með tveimur eða þremur þingmönnum úr Sjálfstfl. og einum úr Framsfl. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. hafi kynnt þessa tillögu í sínum þingflokki. Þar situr m.a. hæstv. fjmrh. Hv. þm. upplýsti hér að ef tillagan yrði samþykkt mundi það leiða til tekjutaps fyrir ríkissjóð upp á 13,5 millj. kr. Er þessi tillaga flutt með samþykki hæstv. fjmrh.? Má gera ráð fyrir að hann fallist á samþykkt hennar?