Tímareikningur á Íslandi

Miðvikudaginn 25. febrúar 1998, kl. 18:05:21 (4240)

1998-02-25 18:05:21# 122. lþ. 75.14 fundur 309. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 122. lþ.

[18:05]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Ég kann ekki við svona orðalag, að einhver sé að öfundast út í einhvern. Það er bara alrangt og alrangt eftir mér haft. Ég var aðeins að geta þess að það væri mismunandi hvernig fólk hefur samið um vinnutíma. Ég minnist þess sjálfur að í fiskvinnu byrjaði ég kl. 7.20 á morgnana. Mér var ekki meint að því.

Þegar á að fara að hringla með klukkuna svona eins og hv. þm. leggur til ásamt fleiri flm. þá skulum við engu að síður líta aðeins til fortíðarinnar. Eins og ég gat um áðan voru lögin frá 1968 að afnema lög úr gildi sem voru frá 16. nóv. 1907 um ákvörðun tímans. Menn voru því búnir að fá allnokkurn smjörþef af þessum tilflutningi klukkunnar. Það var ekki að ástæðulausu að menn voru að leggja af þetta óhagræði. Þetta er algert óhagræði að hringla með klukkuna og hvort báðir vísar vísi upp eða niður er algert aukaatriði í málinu. Það sem skiptir öllu máli er að okkur líði vel á Íslandi. Ég tel að okkur líði vel miðað við það sem gert var 1968 um að festa klukkuna á sumartíma miðað við hnattstöðu okkar Íslendinga. Það var vel að verki staðið og ég sé ekki ástæðu til að hringla enn frekar með það enda erum við þá að rugla það tímabelti og færa það til sem passar ekki miðað við hnattstöðu Íslands. Hugsanlega gæti það gerst eftir einhverjar milljónir ára ef það verður eitthvert landrek og við færumst suður á bóginn, en það passar ekki núna.